Heitt súkkulaði með rauðvínsívafi

 

Stundum eyði ég óþarflega miklum tíma í vitleysu. Eins og til dæmis í hangs á Google. Annað veifið slæ ég inn setningar á borð við things to make with red wine. Eða Gordon Ramsay naked. Leitin að því síðara hefur enn ekki borið neinn árangur. Því miður.

 

Google færir mér hins vegar oft á tíðum hugmyndir að því hvernig ég get sullað með rauðvín. Öðruvísi en að hella því bara í mig. 

 

Það er fimbulkuldi úti þessa dagana. Í slíkri veðráttu er voðalega gott að svolgra í sig bolla af heitu súkkulaði við og við. Ennþá betra ef umrætt súkkulaði er með rauðvínsívafi. Ekki? Jú, ég get svo guðsvarið fyrir það. Miklu betra. Manni hlýnar líka talsvert hraðar. Sem er plús. Og verður aldrei kalt aftur. Aldrei.

 

Nei, ókei. Nú er ég að ljúga. En súkkulaðið heita er ótrúlega gott. Lofa.

 

 

 

 

Heitt súkkulaði með rauðvínsívafi:

 

1 og 1/2 bolli nýmjólk

2 lengjur suðusúkkulaði

2 lengjur rjómasúkkulaði

1 bolli rauðvín

1 dós Coconut Cream

kanill á hnífsoddi

 

(dugir í 3-4 bolla)

 

 

Hellið mjólk í pott. Brjótið tvær lengjur af báðum súkkulaðistykkjunum. Sem sagt átta bita af hvoru. Fleygið þeim í pottinn. Látið malla við góðan hita þar til súkkulaðið bráðnar.

 

 

Hellið rauðvíninu saman við. Hrærið vel og vandlega. Þetta á að vera heitt en ekki að sjóða. Ó, lyktin á þessum tímapunkti. Hreinn unaður. Mmm.

 

 

Kókosrjóminn er ómissandi með þessum bolla. Ég tæmi dósina í stóra skál og píska innihaldið þar til það er orðið sæmilega þykkt og rjómakennt. 

 

 

Hella súkkulaðinu í bolla. Toppa með kókosrjóma. Dusta dálítið af kanil yfir herlegheitin. Njóta. 

 

 

 

Næstum eins gott og að finna nektarmyndir af Gordon Ramsay. Ég væri eiginlega tilbúin að skipta öllu rauðvíni í heiminum fyrir fáein eintök af slíkum myndum. 

 

Nei, nú er ég að ljúga aftur. Ég get vel notað ímyndunaraflið. Og drukkið rauðvín í leiðinni.

 

Heyrumst.

 

 


Tuttugu&fimm hlutir á fimmtudegi

1. Ég borða ekki kokteilsósu. Skil hana ekki.

 

2. Hringitónninn í símanum mínum er My Heart Will Go On. Úr Titanic. Leikið á fiðlu. Fólk á erfitt með að sýna því skilning.

 

3. Ég tala rosalega hratt. Undanfarið hef ég dottið inn í fáein útvarpsviðtöl og mjög meðvitað reynt að tala hægt. Það gladdi mig ekkert sérstaklega að hlusta á útvarpsþættina eftir á. Ég hljóma eins og ég sé að stunda símakynlíf. Vantar bara stunurnar.

 

4. Ég get ekki borðað pylsu nema að það sé sett á hana í ákveðinni röð. Fyrst tómatsósa. Svo hrár. Steiktur. Síðan sinnepið. Pylsan sett í brauðið og tvær rendur af remúlaði ofan á. Þess má geta að ég var ekki vinsæll sjoppukúnni áður en sjálfsafgreiðsla á pylsum kom til sögunnar.

 

5. Hamborgari án tómata er ekki hamborgari. Bara kjöthleifur í brauði. Þarna kemur óþolandi sjoppukúnninn aftur inn í jöfnuna. ,,Get ég fengið mikið af tómötum? Mjög mikið!”. Á heimatilbúna hamborgara set ég alltaf tvo heila tómata. Mmm.

 

6. Ég geymi rauðvín í ísskáp. Það er víst eitthvað ekki móðins. Að mér skilst.

 

 

7. Þegar ég var 13 ára hélt ég að ég hefði séð sætasta strák í heimi á skólaballi. Ég veiddi kókdós sem hann var að drekka úr upp úr ruslinu. Sú kókdós er ennþá geymd vel og vandlega.

 

8. Ég er skelfilega myrkfælin og sef alltaf með öll ljós í húsinu kveikt. Og helst sjónvarpið í rífandi stuði. Þegar ég var yngri og ein heima var ávallt eitt stykki eldhúshnífur innan seilingar.

 

 

9. Ég er alltaf í krónísku hárlosi. Í augnablikinu eru sirka ellefu hár á hausnum á mér.

 

10. Stundum kyngi ég tyggjói. Þið vitið, ef það er ekki ruslatunna í grennd.

 

11. Ég get borðað 16” pizzu alein. Og lítinn skammt af brauðstöngum á sama tíma. Eða nei, ég borða þær yfirleitt í bílnum á leiðinni heim með pizzuna.

 

 

12. Mig langar svo að opna sælgætisverksmiðju. Ég væri stórkostleg sælgætisgerðarkona.

 

13. Besta tilfinning í heimi: að sjá sjálfa mig í afkvæminu. It blows my mind. Svo við slettum aðeins. Allir taktanir. Talsmátinn. Matarástin. Málgleðin. (Frekjan, þrætugirnin og fleira sem óþarfi er að nefna).

 

 

14. Ég hata auglýsingarnar frá Hamborgarafabrikkunni. Ég veit að það er bannað að tala um það. En ég hata þær. Og mig langar ekkert í hamborgara þegar ég sé þær.

 

15. Ég þoli ekki þegar ég er ávörpuð bara ,,Guðrún”. Það er Guðrún Veiga eða ekki neitt.

 

16. Einu sinni kíkti ég stundum í baðherbergisskápa. Ehm, ekki mína eigin sko. Heldur hjá öðrum. Ég er hætt því. Svona eiginlega.

 

17. Ég laga samt klósettpappírsrúlluna ef hún snýr vitlaust að mínu mati.

 

18. Ég hef einnig óstjórnlega þörf fyrir að kíkja í ísskápinn heima hjá fólki. Næ samt að hemja hana. Í flestum tilvikum.

 

19. Ég er hryllilega forvitin.

 

20. Ég á erfitt með pissuhljóð á almenningsklósettum. Þess vegna treð ég alltaf helling af pappír í klósettið áður en ég létti á mér. Nei, ég er ekkert sérstaklega umhverfisvæn.

 

21. Einu sinni tróð ég mandarínusteinum svo langt upp í nefið á mér að það var ómögulegt að ná þeim út. Svo hnerraði ég. Blessunarlega.

 

22. Ég saug á mér þumalputtann fram að fermingu. Sirka. Það hefur komið fyrir á fullorðinsárum mínum að ég vakni með puttann ískyggilega nálægt vörunum á mér.

 

 

23. Ég geng hvorki með húfur né hatta af því ég finn slíkan búnað sjaldan í minni stærð. Ég er undarlega höfuðstór. En höfuðið passar svo sem ágætlega á karlmannslegar herðar mínar.

 

24. Ég er óþolandi áttavillt. Sennilega ein sú áttavilltasta manneskja sem hægt er að finna. Ég hef tvisvar villst á leiðinni frá Egilsstöðum til Akureyrar. Já, það er hægt. Nei, þetta er ekki bein leið! Núna er ég búin að búa í Reykjavík í 14 mánuði. Ég nota GPS tæki á hverjum degi.

 

25. Ég get ekki verið með varalit án þess að hann fari út um allt andlit á mér - á innan við fimm mínútum frá ásetningu. Stundum lít ég út eins og ég hafi farið varalituð í ofbeldisfulla endajaxlatöku.

 

Óþarfa upplýsingar eru fínar svona inn á milli. Ekki?

 

Heyrumst.

 

Fimm hlutir á fimmtudegi

 

Það er fundið. Besta rakakrem í heimi. Mögulega það ódýrasta líka. Tæpar 1500 krónur.

 

 

Ástandið var bagalegt hérna fyrr í vetur. Það virkaði ekkert. Ódýrt, dýrt - skipti engu. Ég hef líklega prófað hvað flest krem undir sólinni. Ég vann lengi í apóteki. Þar var starfsmannaafsláttur og ég fékk aldrei krónu útborgað. Átti hins vegar rosalega mikið af kremum. Og ilmvötnum. Og augnblýöntum. Það er önnur saga.

 

Ég las um þetta undrakrem frá Decubal á blogginu hennar Ástríðar. Ákvað að eyða enn einum helvítis þúsundkallinum. Voilá - ég er eins og nýbónaður skalli. Í andlitinu sko. Glansandi fín.

 

 

Ég ætla ekki að segja ykkur hversu mörgum dollum ég stúta af þessu á viku. Hnetusmjörsneysla mín hefur þurft að lúta í lægra haldi undanfarið. Ég bara get ekki hætt. 

 

Ég var eitthvað utan við mig (þá sjaldan) í Krónunni fyrir ekki svo löngu. Hélt að ég væri að teygja mig í vel mæjónesað salat í svipuðum umbúðum. Tók þetta svo upp úr pokanum þegar ég kom heim. Smakkaði. Féll kylliflöt. 

 

 

Já. Ég borða hummus sem sagt svona. Smyr á skinku. Rúlla upp. Sælir eru einfaldir.

 

Ég borðaði einmitt heilt skinkubréf í kvöldmat áðan. Jú, unnar kjötvörur og allt það. Ég veit. Ætla að hætta að borða þær eftir áramót. Sagði enginn, aldrei.

 

 

Óóó. Ég er komin um borð í flaggskipið. Ég játa mig sigraða. 

 

Mér til varnar þá voru þeir á útsölu. Legg til að þið fylgist með versluninni Módern á Facebook. Þar eru oft stórfín tilboð. Og stórkostleg þjónusta í sjálfri búðinni. (Nei, ég fékk ekki greitt fyrir þessi meðmæli. Ekkert. Nada. Nothing). Ég er bara afar veik fyrir góðri þjónustu. Og hvers kyns tilboðum.

 

 

Gengur Herbert Guðmunds ekki í hús og selur geisladiskana sína? Og Gylfi Ægis líka?

 

Viljið þið fá mig í kaffi?

 

Heyrumst.

 


Með KitKat fyllingu

 

Það fylgir því örlítil frelsisskerðing að búa ekki lengur einsömul. Bannað að liggja í sófanum á brókinni. Horfandi á Hell´s Kitchen. Stynjandi yfir Gordon Ramsay. Eins og maður gerir. 

 

Nei. Þeir dagar eru taldir. 

 

Ég man hreinlega ekki hvenær ég var síðast fullklædd klukkan rúmlega níu að kvöldi til. Jæja. Ég bakaði. Fullklædd já. Dýrðlega köku handa sambýlismönnum mínum og öðrum sem ráku inn nefið.

 

 

 

Brownie með KitKat fyllingu:

 

Betty Crocker Brownie Mix (egg, vatn & olía)

1 pakkning KitKat Cookies & Cream (fæst í Krónunni - já, líka fyrir austan)

2 venjuleg KitKat

 

 

Útbúið Browniemixið samkvæmt leiðbeiningum á kassa.

 

 

Setjum helminginn af deiginu í meðalstórt eldfast mót.

 

 

 

Röðum KitKat ofan á. Borðum tvær lengjur. Að minnsta kosti.

 

 

Smyrjum afganginum af deiginu yfir.

 

Inn í ofn á 180° í 20-25 mínútur.

 

 

 

 

Það er óhætt að segja að þessi fullklædda kona hafi skorað í kvöld. Fullt hús stiga.

 

Hnossgæti par exelans.

 

Heyrumst.

 


Ekki um bókina

Allt í lagi. Ég er að plata. Ég er að fara að tala um bókina. Ég átta mig þó á því að hún er að verða þreytt viðfangsefni. Lífið snýst bara ekki um margt annað í augnablikinu. Þetta er svipað og vera nýbúin að eiga barn. Fyrir utan blæðandi geirvörturnar.

 

Fæðing bókarinnar var að vísu talsvert erfiðari en fæðing afkvæmisins. Enda var hann á stærð við kynbótahross og ég þurfti lítið að erfiða. Hann var bara sóttur og fæðingavegur minn er enn eins og nýr úr kassanum. Djók.

 

Samt ekki.

 

 

Svona leit eldhúsið út í miðri fæðingu. Nei, það var hreint ekki auðvelt að athafna sig þarna.

 

 

 

Kynbótahrossið mitt og yfirsmakkari.

 

 

 

Andlegt ástand mitt var misgott á meðan fæðingu stóð.

 

 

Stundum þurfti ég dálitla hjálp við skriftir.

 

 

Forsíðumyndatakan góða. Sem hefði ekki verið möguleg án aðstoðar tveggja afar hjálpfúsra vinkvenna minna. 

 

 

Þetta var fagur dagur. Ótrúlegur dagur eiginlega. 

 

Ég áttaði mig ekki alveg á hvað það þýðir að taka þátt í jólabókaflóði þegar ég lagði af stað í þessar framkvæmdir. Ég var einmitt að væla í systur minni í gær yfir því hvað væri mikið að gera, hún var ekki lengi að láta helvítis aumingjann heyra það: ,,hélstu að þú myndir skrifa bók og skríða svo undir sæng eða?"

 

Laukrétt. Og mikið lúxusvandamál sem um ræðir. Ég er fullmeðvituð um það. Reyndar er það aðallega námið sem plagar mig. Étur mig að innan. Það er svo erfitt að njóta sín þegar samviskan er mann lifandi að drepa. En það er vonandi á undanhaldi. Bjartari tíð með blóm í haga og allt það. 

 

 

Að lokum langar mig afskaplega að sjá ykkur í útgáfuhófi á fimmtudaginn. Nánar um það hér. Þessi bók hefði auðvitað aldrei orðið til ef ekki væri fyrir ykkur. Það er dálítið merkilegt að standa í þakkarskuld við fullt af ókunnugu fólki. En engu að síður dagsatt. 

 

Ugh, þið vitið að ég verð alltaf svo væmin þegar ég tala svona til ykkar. Get ekki. 

 

Þetta útgáfuhóf verður sennilega skrautlegt. Almáttugur minn.

 

Sjáumst.

 

 

Fullt af hlutum á fimmtudegi

 

Ó, ég fór á matarmarkað Búrsins í Hörpunni um síðustu helgi. Gott mót það. 

 

 

Mér var eiginlega vísað í burtu úr hangikjötsbásnum. Bæði af því að ég var nánast farin að beita unglingsstúlku ofbeldi (hún bara ætlaði ekki að færa sig frá disknum - andskotinn hafi það) jú og svo af því þetta var bara smakk. Ég var ekki alveg að skilja það konsept. Það var víst ekki verið að miða við hálft hangikjötslæri á mann. Minn misskilningur. 

 

 

 

 

Það var svo mikið af sultum. Út um allt. Það hefði nú mátt splæsa í osta með þeim. Mig langaði ekkert í fulla skeið af sultu. Fékk mér samt. Fyrst þær voru þarna.

 

 

Ah, súkkulaðið sem ég fékk ekkert smakk af. Konan á undan mér settist bara að fyrir framan básinn. Sló nánast upp tjaldbúðum. Sama hvað ég reyndi þá náði höndin á mér ekki að seilast eftir bita. Á tímabili íhugaði ég að bora fingri í einhverja af fjölmörgu chilli-sultunum í kringum mig. Pota svo í augað á konunni. Fast.

 

 

Af því að ofbeldi leysir engan vanda þá þefaði ég bara upp súkkulaði í öðrum bás. Þetta var sjúklegt. Svakalegt. Eins og að hafa mök á sólríkum degi. Eða í tunglsljósi. Þið vitið, hvað sem fleytir ykkar bát. 

 

 

 

Ég er að hugsa um að þróa rauðvínsmarmelaði.

 

 

 

Hérna í Breiðholtinu er verið að undirbúa Bókamessu. Hún fer fram í Ráðhúsi Reykjavíkur um helgina. Ég verð staðsett þar á sunnudag. Ásamt bók. Og poppi. Hvet ykkur að sjálfsögðu til þess að koma og heilsa upp á mig. Fá ykkur popp. Kaupa nokkur eintök af bókinni. Eða mörg. Þið ráðið.

 

 

Lífið þessa dagana. Á þessum síðustu og verstu. Mér fallast hendur. Í dag lá ég á gólfinu í klukkutíma. Í fósturstellingunni. Grenjandi. Stundum þarf maður bara. Ég fylltist einhverju stórkostlegu vonleysi um stundarsakir.  

 

 

 

Síðasti póstur sem ég fékk frá leiðbeinandanum mínum. Ekkert huggandi. Af því ég er búin með allt sem ég á. Get ekki meir. Ritgerðin er þannig séð búin - það er eitthvað flæðisvandamál að mér skilst. Hún flæðir ekki nægilega vel. 

 

Jæja. Má ekki vera að þessu. Flæðið bíður mín.

 

Heyrumst.

 

Gult, gult, gult

 

Ég neyddi mig til þess að fara á miðnætursprengju Kringlunnar í gærkvöldi. Ég þoli ekki mannamergð. Múgæsing. Bílastæðaþjófa. Biðraðir. 

 

Ég hins vegar elska frítt vín. Og að næla í jólagjafir á afslætti. Það var því tilgangur þessa ferðalags. Frítt vín og ódýrar jólagjafir.

 

Ég ætlaði upphaflega í leikfangadeildina í Hagkaup. Að finna jólagjöf handa afkvæminu. En komst aldrei alla leið. Ég var rétt komin inn fyrir dyrnar þegar ég áttaði mig á að inni í Hagkaupum var búið að opna nýja búð. F&F heitir hún. Veit ekki frekari deili á henni.

 

Ég gleymdi skyndilega stað og stund. Hvað ég héti. Og að ég ætti afkvæmi yfir höfuð.

 

 

Þarna var hún - kápa drauma minna. Öskrandi nafn mitt.

 

Gul eins og sólin. Alveg syngjandi fögur. Ó, eins og Bubbi á góðum degi.

 

 

9.900 krónur. Það var ómögulegt að neita mér um hana. Ekki að ræða það. 

 

 

Bakhlutinn. Á mér og kápunni.

 

Ég er alveg skínandi sæl með hana. 

 

Heyrumst.


Fimm hlutir á fimmtudegi

 

Sunnudagssteik í foreldrahúsum. Fátt sem toppar það. Nema kannski að borða sunnudagssteik með Bubba.

 

 

 

Af hverju eru allir að baka franskar súkkulaðikökur þessa dagana? Allsstaðar sem ég kem er ein slík í boði. Ég er búin að troða í mig óþarflega mörgum sneiðum síðastliðna viku. Fyrir utan kökuna sem ég bakaði svo sjálf.

 

Og át ein. Hverja einustu mylsnu.

 

 

Kjúklinganúðlusúpan á Krua Thai - ég gæti baðað mig upp úr henni. Þvílíkt lostæti. Krua Thai er óþolandi nálægt heimili mínu í Breiðholti og þess vegna er þessi súpa á boðstólnum að minnsta kosti einu sinni í viku.

 

Matarlega séð hlakka ég afskaplega mikið til að komast aftur til Reykjavíkur eftir helgi. Ikea, Krua Thai, Noodle Station, Ikea, Dominos, Ikea og salatbarinn í Hagkaup. 

 

Hangikjötið er komið í Ikea. Guðrún Veiga ætlar að setjast að í Ikea.

 

 

Ótrúlega fallegar marmara-gluggakistur heima hjá mömmu og pabba. Þau eru búin að búa í þessu húsi í átta ár. Ég tók eftir gluggakistunum núna um helgina. 

 

 

Hérna verð ég á morgun. Með fyrirlestur.

 

 

 

Já. Jájá. Ég get talað um aðra hluti en Bingókúlur, hnetusmjör og Bubba Morthens. Svona stundum að minnsta kosti. Þegar þess er krafist.

 

Heyrumst.

 


Nachos til þess að deyja fyrir


 

Ég gæti flutt búferlum ofan í Doritospoka og lifað þar hamingjusöm til æviloka. Svartan Doritospoka nota bene. Ég treð þessum bölvuðu flögum allsstaðar. Í kjúklingarétti, í kjötrétti, í salöt, upp í mig, upp í aðra og út um allt. Það er allt betra með dálitlu Doritos. 

 

Meira að segja ís. Appelsínugulur Doritos og bananaís - draumur í dós. Sver það. 

 

 

 

Síðustu helgi bjó ég til alveg guðdómlegt nachos. Himnarnir grétu. Í alvöru. Svo ljúffengt var það.

 

Nachos til þess að deyja fyrir:


1 poki svartur Dortios (eða hvaða tegund sem fleytir ykkar bát)

1 krukka sterk salsa sósa

1 poki rifinn ostur

1 saxaður rauðlaukur

1/2 söxuð paprika

1/2 krukka sólþurrkaðir tómatar

ferskt kóríander (smekksatriði - má sleppa)

sýrður rjómi

 

Ég byrjaði á því að setja slatta af flögum í botninn á eldföstu móti. Svo lék ég bara af fingrum fram. Henti dálítið af osti hingað og þangað. Skvettu af salsasósu. Dreifði örlítið af papriku og rauðlauk yfir. Ásamt kóríander og sólþurkkuðum tómötum. Annað lag af flögum og sama sagan aftur - öllu dreift yfir. Þetta endurtók ég þar til Doritospokinn kláraðist. Setti svo dálítið vel af osti ofan á.

 

Inn í ofn á 180° í sirka korter. Eða þar til osturinn bráðnar. 

 

 

Borið fram með sýrðum rjóma. Og stóru bjórglasi.

 

Mmm.

 

Heyrumst.



Föstudagssnakkið

 

Jú. Jújú. Þið sjáið rétt.

 

Þetta eru kartöfluflögur með súkkulaði, karamellu og karamellukurli. Ekki hætta að lesa. Hættið bara að dæma. Þetta er merkilega gott. Ég lofa.

 

 

Í þetta þarf:

 

Kartöfluflögur með saltbragði (helst rifflaðar, af því rifflað er alltaf betra)

Mjólkursúkkulaði

Rjómakaramellur

Karamellukurl

 

 

 

Bræðið súkkulaðið og karamellurnar. Ég setti örlítinn rjóma með karamellunum.

 

 

Dreifið úr snakkinu á bökunarpappír.

 

 

Ó, skvetta og sletta öllu yfir. Bæði súkkulaði og karamellu. Sleikja alla putta og skeiðar.

 

 

 

Ein lúka af karamellukurli yfir allt saman. Eða bara - þið vitið, heill poki. Það virkar líka fínt.

 

 

 

Lyktin af þessu er unaðsleg og bragðið ekki síðra.

 

 

Meistaramánuður er alveg að verða búinn. Löngu kominn tími til þess að bugast. 

 

Eigið ljúfa og góða helgi mín kæru.

 

Heyrumst.



Næsta síða »

Um bloggið

Guðrún Veiga

Höfundur

Guðrún Veiga Guðmundsdóttir
Guðrún Veiga Guðmundsdóttir

Ég heiti Guðrún Veiga. Ég er mamma, mannfræðingur, matarperri, múltítasker, nautnaseggur, naglalakkari og rauðvínssvelgur.

Þú finnur bloggið mitt hérna: gveiga85.blogspot.com

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • IMG_7559
  • IMG_7558
  • IMG_7537
  • IMG_7532
  • IMG_7515

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband