23.10.2014 | 22:39
Fimm hlutir á fimmtudegi
Sunnudagssteik í foreldrahúsum. Fátt sem toppar það. Nema kannski að borða sunnudagssteik með Bubba.
Af hverju eru allir að baka franskar súkkulaðikökur þessa dagana? Allsstaðar sem ég kem er ein slík í boði. Ég er búin að troða í mig óþarflega mörgum sneiðum síðastliðna viku. Fyrir utan kökuna sem ég bakaði svo sjálf.
Og át ein. Hverja einustu mylsnu.
Kjúklinganúðlusúpan á Krua Thai - ég gæti baðað mig upp úr henni. Þvílíkt lostæti. Krua Thai er óþolandi nálægt heimili mínu í Breiðholti og þess vegna er þessi súpa á boðstólnum að minnsta kosti einu sinni í viku.
Matarlega séð hlakka ég afskaplega mikið til að komast aftur til Reykjavíkur eftir helgi. Ikea, Krua Thai, Noodle Station, Ikea, Dominos, Ikea og salatbarinn í Hagkaup.
Hangikjötið er komið í Ikea. Guðrún Veiga ætlar að setjast að í Ikea.
Ótrúlega fallegar marmara-gluggakistur heima hjá mömmu og pabba. Þau eru búin að búa í þessu húsi í átta ár. Ég tók eftir gluggakistunum núna um helgina.
Hérna verð ég á morgun. Með fyrirlestur.
Já. Jájá. Ég get talað um aðra hluti en Bingókúlur, hnetusmjör og Bubba Morthens. Svona stundum að minnsta kosti. Þegar þess er krafist.
Heyrumst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.10.2014 | 20:08
Nachos til þess að deyja fyrir
Ég gæti flutt búferlum ofan í Doritospoka og lifað þar hamingjusöm til æviloka. Svartan Doritospoka nota bene. Ég treð þessum bölvuðu flögum allsstaðar. Í kjúklingarétti, í kjötrétti, í salöt, upp í mig, upp í aðra og út um allt. Það er allt betra með dálitlu Doritos.
Meira að segja ís. Appelsínugulur Doritos og bananaís - draumur í dós. Sver það.
Síðustu helgi bjó ég til alveg guðdómlegt nachos. Himnarnir grétu. Í alvöru. Svo ljúffengt var það.
Nachos til þess að deyja fyrir:
1 poki svartur Dortios (eða hvaða tegund sem fleytir ykkar bát)
1 krukka sterk salsa sósa
1 poki rifinn ostur
1 saxaður rauðlaukur
1/2 söxuð paprika
1/2 krukka sólþurrkaðir tómatar
ferskt kóríander (smekksatriði - má sleppa)
sýrður rjómi
Ég byrjaði á því að setja slatta af flögum í botninn á eldföstu móti. Svo lék ég bara af fingrum fram. Henti dálítið af osti hingað og þangað. Skvettu af salsasósu. Dreifði örlítið af papriku og rauðlauk yfir. Ásamt kóríander og sólþurkkuðum tómötum. Annað lag af flögum og sama sagan aftur - öllu dreift yfir. Þetta endurtók ég þar til Doritospokinn kláraðist. Setti svo dálítið vel af osti ofan á.
Inn í ofn á 180° í sirka korter. Eða þar til osturinn bráðnar.
Borið fram með sýrðum rjóma. Og stóru bjórglasi.
Mmm.
Heyrumst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.10.2014 | 20:06
Föstudagssnakkið
Jú. Jújú. Þið sjáið rétt.
Þetta eru kartöfluflögur með súkkulaði, karamellu og karamellukurli. Ekki hætta að lesa. Hættið bara að dæma. Þetta er merkilega gott. Ég lofa.
Í þetta þarf:
Kartöfluflögur með saltbragði (helst rifflaðar, af því rifflað er alltaf betra)
Mjólkursúkkulaði
Rjómakaramellur
Karamellukurl
Bræðið súkkulaðið og karamellurnar. Ég setti örlítinn rjóma með karamellunum.
Dreifið úr snakkinu á bökunarpappír.
Ó, skvetta og sletta öllu yfir. Bæði súkkulaði og karamellu. Sleikja alla putta og skeiðar.
Ein lúka af karamellukurli yfir allt saman. Eða bara - þið vitið, heill poki. Það virkar líka fínt.
Lyktin af þessu er unaðsleg og bragðið ekki síðra.
Meistaramánuður er alveg að verða búinn. Löngu kominn tími til þess að bugast.
Eigið ljúfa og góða helgi mín kæru.
Heyrumst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.10.2014 | 10:19
Fimm hlutir á fimmtudegi
Ó, sjáið þið hvítu tindana? Lítum bara fram hjá þessu bölvaða græna grasi. Það eru svo gott sem komin jól.
Ég hugsa að ég hendi upp einni seríu um helgina. Eða fimm.
Ég er búin að sitja á höndunum á mér síðan í ágúst. Get ekki meir.
Það eru að koma jól í Ikea. Það eru að koma jól hjá mér.
Ég eyddi óþarflega löngum tíma í að læra þetta í gærkvöldi. Að brjóta skyrtu úr þúsundkalli. Í augnablikinu er ég að æfa mig í að gera skyrtu með bindi og kjóla. Jájá. Ég fór sérstaklega í hraðbanka í dag til þess að ná mér í seðla. Stefnir í eitt undarlegt áhugamál.
Hérna er kennslumyndbandið sem ég notaði.
Ég hoppaði hæð mína þegar ég rakst á þetta í Krónunni í dag. Hvítt Twix. Já, sælir eru einfaldir. Einfaldir sykurfíklar. Eins og að bíta í himnaríki. Eða Simon Cowell. Mmm.
Ég bjó í fyrsta skipti til guacamole áðan. Það var svo gott að mig langaði að smyrja því á mig og þvo mér svo eins og köttur. Algjört hnossgæti.
Ég notaði þessa uppskrift.
Einhversstaðar las ég að það ætti að geyma steininn úr avacadoinu í maukinu. Þá verður það síður brúnt og ljótt. Trix sem svínvirkar.
Stundum mála ég mig með glimmeri. Stundum tek ég sjálfsmyndir og set á helstu samfélagsmiðla.
Án þess að skammast mín.
Ég hef fengið nokkrar fyrirspurninir um hvurslags glimmer ég nota í þessar gjörðir.
Ég nota nú bara smágert föndurglimmer. Yfirleitt nota ég vax til þess að halda því á augnlokinu. Mér finnst það virka best. Vax eins og maður setur í hárið á sér já. Hárvax og föndurglimmer - búmm, ég er klár í slaginn.
Það virkar líka ágætlega að nota blauta augnskugga undir glimmerið. Hárgel hef ég líka notast við. Aloe Vera gel á einhverjum tímapunkti. Kona reddar sér.
Jæja, gucamole-ið er farið að garga á mig úr ísskápnum. Já ókei, rauðvínið líka.
Heyrumst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.10.2014 | 08:00
Með kanilkexi og hvítu súkkulaði
Ég fylgist ekki með fótbolta og horfði ekki á landsleikinn. Ég eyði mínum frítíma í að bardúsa með popp.
Þetta popp er hreint út sagt stórfenglegt. Svipað og að skora tvö mörk í fyrri hálfleik. Ókei. Ég horfði með öðru auganu. Karlmenn á stuttbuxum og svona. Lærvöðvar. Mmm.
Í þessar aðgerðir þarf eftirfarandi hráefni:
1/2 poki Stjörnupopp
100 grömm hvítt súkkulaði
8 stykki LU kanilkexkökur
Brjótið kexið í hæfilega litla bita.
Bræðið súkkulaðið og slettið því yfir poppið. Fram og til baka. Vel og vandlega.
Kexinu smellt út í.
Hræra duglega saman. Sleikja skeiðina.
Hendið þessu inn í ísskáp í góðan hálftíma.
Stökkt kanilkexið. Saltað poppið. Sætt súkkulaðið. Namm. Fullt hús stiga.
Heyrumst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.10.2014 | 08:00
Helgin
Ekki lagði ég af þessa helgina. Frekar en aðrar helgar. Eða alla aðra daga. Eitthvað talaði ég um hérna í byrjun október að vera með í meistaramánuði. Já það var lygi. Helber lygi.
Ég gróf upp þetta forláta kleinuhringjajárn í gær. Mamma mín átti það. Eða á það. Ég get ómögulega munað hvort hún gaf mér það eða hvort ég einfaldlega stal því. Það er að minnsta kosti ekki vinsælt innan fjölskyldunnar að lána mér nokkurn skapaðan hlut. Ég skila víst aldrei neinu. En það er önnur saga.
Ég var í glassúrvímu langt fram yfir miðnætti í gærkvöldi. Að vísu átti ég að vera að segja vel valda brandara á konukvöldi hérna fyrir austan. En það fór lítið fyrir þeim verknaði. Bölvaðir gallsteinarnir eru búnir að vera að murka úr mér lífið undanfarið.
Helvítis gallsteinar. Ég er búin að burðast með þá í sjö ár. Fresta aðgerðinni svona 154 sinnum. Eins viskulegt og það nú er. Yfirleitt eru þeir til friðs en það er svona tvisvar á ári sem ég ligg grenjandi á gólfinu og bið Guð að taka mig.
Nóg um gallsteina. Meira um mat.
Ég fór í brunch á Hótel Héraði á Egilsstöðum í dag.
Þetta voru ein stórkostleg ástaratlot.
Örlítið sársaukafull þó. Ég þarf virkilega að læra að þekkja magamál mitt betur.
30 mínútum eftir brunch: sunnudagspönnukökur hjá mömmu.
Úff.
Jæja. Ég ætla að fara að horfa á The Secret. Sjá hvort mér tekst ekki að losa mig við gallsteinana með hugarorkunni í kjölfarið.
Heyrumst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.10.2014 | 22:20
Fimm hlutir á fimmtudegi
Þið sem fylgið mér á Instagram hafið nú séð þennan oftar en einu sinni. Þetta er hann Nói minn Síríus. Ég er með krónískt ofnæmi fyrir öllum dýrum (andlegt ekki líkamlegt). Nema þessum litla loðbolta sem sigrað hefur hjarta mitt. Mögulega af því að ég sé ekki um að þrífa upp hægðirnar hans.
Í morgun lá hann á bringunni á mér í klukkutíma á meðan ég söng fyrir hann kristileg sumarbúðarlög. Það eru einu lögin sem ég kann. Fyrir utan klámfengna rapptexta með Lil´Kim.
Þetta fann ég í Nettó í gær. Nutella í tungustærð. Tveir sleikar - búmm, konan fullnægð. Súkkulaðilega séð.
Ég fékk svo ótrúlega fallega og óvænta gjöf um daginn. Hárbandakvendið sem ég er. Þetta band er unnið úr gömlu karlmannsbindi. Ég er yfir mig hrifin af því og hefði undir eðlilegum kringumstæðum skellt í eina góða speglamynd. En nei. Ekki núna.
Ég lít út eins og það hafi verið keyrt yfir mig. Sirka ellefu sinnum. Fram og til baka. Bólan á hökunni á mér er á stærð við barnið mitt. Nefið á mér er líka í undarlegum hlutföllum í dag.
En bandið - það er hin merkilega fjölhæfa María Krista sem bjó það til. Ég mæli með ferð hingað inn.
Ég sá einhverja þokkadís með fulla körfu af þessu í Hagkaupum um daginn. Þess vegna keypti ég þetta. Fullviss um að ég yrði sex on legs þegar ég væri búin að kreista þetta upp í mig. Nei. Neinei. En þetta er sniðugt. Gott á bragðið og stútfullt af vítamínum.
Dásamlega bleik lýsing í kringum Andapollinn á Reyðarfirði.
Jæja. Mín bíður ljúf stund með Fréttatímanum. Ég sé ekki betur en að Bubbi sé á forsíðunni. Það er mál sem ég þarf að skoða betur. Talsvert betur.
Heyrumst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.10.2014 | 10:48
Súpa á sunnudegi
Ég eldaði alveg stórkostlega súpu á þessu annars gráa sunnudagskvöldi. Mig langar að skrifa að ég sé agaleg súpukona. En ég fæ útbrot þegar ég kalla mig konu. Súpustelpa - nei það virkar ekki.
Ég er mikill súpuaðdáandi - segjum það bara.
Ég tók fáar og lélegar myndir þar sem súpan var ekki ætluð sem bloggefni. Ó, svo smakkaði ég. Himnesk alveg hreint og myndavélin rifin upp í snarhasti.
Kókos & karrýnúðlusúpa
4 hvítlauksgeirar
2 matskeiðar smátt saxað engifer
2 matskeiðar rautt karrýmauk
2 matskeiðar kókosolía
1 dós kókosmjólk
2 kjúklingateningar
1 líter af vatni
1 lítill rauðlaukur
1 gul paprika
1 rautt chilli
2 sellerístilkar
2 pakkar skyndinúðlur
salt og pipar
Saxið hvítlaukinn og engiferið smátt. Blandið því vel saman við karrýmaukið og kókosolíuna. Það er sennilega best að nota töfrasprota en ég nennti ómögulega að skíta hann út.
Leysið kjúklingateningana upp í vatninu. Hellið olíu í pott og steikið karrýblönduna við vægan hita í 1-2 mínútur. Hellið kjúklingasoðinu út í og kókosmjólkinni þar á eftir. Látið suðuna koma upp og smakkið til með salti og pipar.
Smellið grænmetinu í pottinn og leyfið því að malla dálitla stund. Núðlunum skellt út í og þær látar sjóða í 2-3 mínútur.
Voilá - unaðslega góð og fljótleg súpa.
Kannski ekki fögur yfirlitum en hún var góð. Sver það. Það hefði nú verið lekker að skreyta hana með ferskum kryddjurtum. En nei. Ég tímdi ekki að kaupa þær.
Heyrumst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.10.2014 | 17:47
Fyrsti í meistara
Sko. Ég ætla að vera með í meistaramánuði. Gera heiðarlega tilraun til þess allavega. Án þess að steindeyja.
Ég mun bara ekki að byrja fyrr en á morgun. Neibb. Ég þoli ekki oddatölur og get þess vegna ekki hafist handa við meistaramánuð 1.október. Ég er með króníska þráhyggju hvað varðar sléttar tölur. Ég hef skrifað um þessa maníu áður. Ef ég hækka eða lækka í sjónvarpi verður það að enda á sléttri tölu. Sama saga með útvarpið. Ég borða líka í sléttum tölum. Ef það er til dæmis ein bingókúla eftir í pokanum þá hendi ég henni frekar en að setja hana upp í mig.
Nóg um það.
Mál málanna. Oreounaður dagsins.
3 bollar Rice Krispies
10 stykki Oreo
2 og 1/2 bolli sykurpúðar
1 og 1/2 matskeið smjör
Hvítt súkkulaði til skrauts
Setjið Oreokexið í poka og lúskrið aðeins á því með kökukefli. Nú eða bara hnetusmjörskrukku.
Rice Krispies fer í skál og Oreoið hrært út í.
Bræðið smjör og sykurpúða saman við vægan hita þar til blandan verður silkimjúk.
Hellið sykurpúðamixtúrunni í skálina og hrærið öllu vel og vandlega saman. Smyrjið lítið eldfast mót og látið innihald skálarinnar flakka ofan í það.
Sléttið og gerið snyrtilegt.
Bræðið dálítið hvítt súkkulaði og slengið yfir. Inn í ísskáp með þetta í 30 mínútur.
Amma mín segir að það eigi aldrei að nota orðið ógeðslega þegar talað er um mat. Ég ætla að gera undantekningu í þetta skiptið.
Þetta er ógeðslega gott.
Ykkur er velkomið að fylgjast með mér og mínum meistaramánuði á Instagram - @gveiga85.
Heyrumst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Guðrún Veiga
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.9.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar