Ekki um bókina

Allt í lagi. Ég er að plata. Ég er að fara að tala um bókina. Ég átta mig þó á því að hún er að verða þreytt viðfangsefni. Lífið snýst bara ekki um margt annað í augnablikinu. Þetta er svipað og vera nýbúin að eiga barn. Fyrir utan blæðandi geirvörturnar.

 

Fæðing bókarinnar var að vísu talsvert erfiðari en fæðing afkvæmisins. Enda var hann á stærð við kynbótahross og ég þurfti lítið að erfiða. Hann var bara sóttur og fæðingavegur minn er enn eins og nýr úr kassanum. Djók.

 

Samt ekki.

 

 

Svona leit eldhúsið út í miðri fæðingu. Nei, það var hreint ekki auðvelt að athafna sig þarna.

 

 

 

Kynbótahrossið mitt og yfirsmakkari.

 

 

 

Andlegt ástand mitt var misgott á meðan fæðingu stóð.

 

 

Stundum þurfti ég dálitla hjálp við skriftir.

 

 

Forsíðumyndatakan góða. Sem hefði ekki verið möguleg án aðstoðar tveggja afar hjálpfúsra vinkvenna minna. 

 

 

Þetta var fagur dagur. Ótrúlegur dagur eiginlega. 

 

Ég áttaði mig ekki alveg á hvað það þýðir að taka þátt í jólabókaflóði þegar ég lagði af stað í þessar framkvæmdir. Ég var einmitt að væla í systur minni í gær yfir því hvað væri mikið að gera, hún var ekki lengi að láta helvítis aumingjann heyra það: ,,hélstu að þú myndir skrifa bók og skríða svo undir sæng eða?"

 

Laukrétt. Og mikið lúxusvandamál sem um ræðir. Ég er fullmeðvituð um það. Reyndar er það aðallega námið sem plagar mig. Étur mig að innan. Það er svo erfitt að njóta sín þegar samviskan er mann lifandi að drepa. En það er vonandi á undanhaldi. Bjartari tíð með blóm í haga og allt það. 

 

 

Að lokum langar mig afskaplega að sjá ykkur í útgáfuhófi á fimmtudaginn. Nánar um það hér. Þessi bók hefði auðvitað aldrei orðið til ef ekki væri fyrir ykkur. Það er dálítið merkilegt að standa í þakkarskuld við fullt af ókunnugu fólki. En engu að síður dagsatt. 

 

Ugh, þið vitið að ég verð alltaf svo væmin þegar ég tala svona til ykkar. Get ekki. 

 

Þetta útgáfuhóf verður sennilega skrautlegt. Almáttugur minn.

 

Sjáumst.

 

 

Fullt af hlutum á fimmtudegi

 

Ó, ég fór á matarmarkað Búrsins í Hörpunni um síðustu helgi. Gott mót það. 

 

 

Mér var eiginlega vísað í burtu úr hangikjötsbásnum. Bæði af því að ég var nánast farin að beita unglingsstúlku ofbeldi (hún bara ætlaði ekki að færa sig frá disknum - andskotinn hafi það) jú og svo af því þetta var bara smakk. Ég var ekki alveg að skilja það konsept. Það var víst ekki verið að miða við hálft hangikjötslæri á mann. Minn misskilningur. 

 

 

 

 

Það var svo mikið af sultum. Út um allt. Það hefði nú mátt splæsa í osta með þeim. Mig langaði ekkert í fulla skeið af sultu. Fékk mér samt. Fyrst þær voru þarna.

 

 

Ah, súkkulaðið sem ég fékk ekkert smakk af. Konan á undan mér settist bara að fyrir framan básinn. Sló nánast upp tjaldbúðum. Sama hvað ég reyndi þá náði höndin á mér ekki að seilast eftir bita. Á tímabili íhugaði ég að bora fingri í einhverja af fjölmörgu chilli-sultunum í kringum mig. Pota svo í augað á konunni. Fast.

 

 

Af því að ofbeldi leysir engan vanda þá þefaði ég bara upp súkkulaði í öðrum bás. Þetta var sjúklegt. Svakalegt. Eins og að hafa mök á sólríkum degi. Eða í tunglsljósi. Þið vitið, hvað sem fleytir ykkar bát. 

 

 

 

Ég er að hugsa um að þróa rauðvínsmarmelaði.

 

 

 

Hérna í Breiðholtinu er verið að undirbúa Bókamessu. Hún fer fram í Ráðhúsi Reykjavíkur um helgina. Ég verð staðsett þar á sunnudag. Ásamt bók. Og poppi. Hvet ykkur að sjálfsögðu til þess að koma og heilsa upp á mig. Fá ykkur popp. Kaupa nokkur eintök af bókinni. Eða mörg. Þið ráðið.

 

 

Lífið þessa dagana. Á þessum síðustu og verstu. Mér fallast hendur. Í dag lá ég á gólfinu í klukkutíma. Í fósturstellingunni. Grenjandi. Stundum þarf maður bara. Ég fylltist einhverju stórkostlegu vonleysi um stundarsakir.  

 

 

 

Síðasti póstur sem ég fékk frá leiðbeinandanum mínum. Ekkert huggandi. Af því ég er búin með allt sem ég á. Get ekki meir. Ritgerðin er þannig séð búin - það er eitthvað flæðisvandamál að mér skilst. Hún flæðir ekki nægilega vel. 

 

Jæja. Má ekki vera að þessu. Flæðið bíður mín.

 

Heyrumst.

 

Gult, gult, gult

 

Ég neyddi mig til þess að fara á miðnætursprengju Kringlunnar í gærkvöldi. Ég þoli ekki mannamergð. Múgæsing. Bílastæðaþjófa. Biðraðir. 

 

Ég hins vegar elska frítt vín. Og að næla í jólagjafir á afslætti. Það var því tilgangur þessa ferðalags. Frítt vín og ódýrar jólagjafir.

 

Ég ætlaði upphaflega í leikfangadeildina í Hagkaup. Að finna jólagjöf handa afkvæminu. En komst aldrei alla leið. Ég var rétt komin inn fyrir dyrnar þegar ég áttaði mig á að inni í Hagkaupum var búið að opna nýja búð. F&F heitir hún. Veit ekki frekari deili á henni.

 

Ég gleymdi skyndilega stað og stund. Hvað ég héti. Og að ég ætti afkvæmi yfir höfuð.

 

 

Þarna var hún - kápa drauma minna. Öskrandi nafn mitt.

 

Gul eins og sólin. Alveg syngjandi fögur. Ó, eins og Bubbi á góðum degi.

 

 

9.900 krónur. Það var ómögulegt að neita mér um hana. Ekki að ræða það. 

 

 

Bakhlutinn. Á mér og kápunni.

 

Ég er alveg skínandi sæl með hana. 

 

Heyrumst.


Um bloggið

Guðrún Veiga

Höfundur

Guðrún Veiga Guðmundsdóttir
Guðrún Veiga Guðmundsdóttir

Ég heiti Guðrún Veiga. Ég er mamma, mannfræðingur, matarperri, múltítasker, nautnaseggur, naglalakkari og rauðvínssvelgur.

Þú finnur bloggið mitt hérna: gveiga85.blogspot.com

Nóv. 2014
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30            

Nýjustu myndir

  • IMG_7559
  • IMG_7558
  • IMG_7537
  • IMG_7532
  • IMG_7515

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.9.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband