Tuttugu&fimm hlutir á fimmtudegi

1. Ég borða ekki kokteilsósu. Skil hana ekki.

 

2. Hringitónninn í símanum mínum er My Heart Will Go On. Úr Titanic. Leikið á fiðlu. Fólk á erfitt með að sýna því skilning.

 

3. Ég tala rosalega hratt. Undanfarið hef ég dottið inn í fáein útvarpsviðtöl og mjög meðvitað reynt að tala hægt. Það gladdi mig ekkert sérstaklega að hlusta á útvarpsþættina eftir á. Ég hljóma eins og ég sé að stunda símakynlíf. Vantar bara stunurnar.

 

4. Ég get ekki borðað pylsu nema að það sé sett á hana í ákveðinni röð. Fyrst tómatsósa. Svo hrár. Steiktur. Síðan sinnepið. Pylsan sett í brauðið og tvær rendur af remúlaði ofan á. Þess má geta að ég var ekki vinsæll sjoppukúnni áður en sjálfsafgreiðsla á pylsum kom til sögunnar.

 

5. Hamborgari án tómata er ekki hamborgari. Bara kjöthleifur í brauði. Þarna kemur óþolandi sjoppukúnninn aftur inn í jöfnuna. ,,Get ég fengið mikið af tómötum? Mjög mikið!”. Á heimatilbúna hamborgara set ég alltaf tvo heila tómata. Mmm.

 

6. Ég geymi rauðvín í ísskáp. Það er víst eitthvað ekki móðins. Að mér skilst.

 

 

7. Þegar ég var 13 ára hélt ég að ég hefði séð sætasta strák í heimi á skólaballi. Ég veiddi kókdós sem hann var að drekka úr upp úr ruslinu. Sú kókdós er ennþá geymd vel og vandlega.

 

8. Ég er skelfilega myrkfælin og sef alltaf með öll ljós í húsinu kveikt. Og helst sjónvarpið í rífandi stuði. Þegar ég var yngri og ein heima var ávallt eitt stykki eldhúshnífur innan seilingar.

 

 

9. Ég er alltaf í krónísku hárlosi. Í augnablikinu eru sirka ellefu hár á hausnum á mér.

 

10. Stundum kyngi ég tyggjói. Þið vitið, ef það er ekki ruslatunna í grennd.

 

11. Ég get borðað 16” pizzu alein. Og lítinn skammt af brauðstöngum á sama tíma. Eða nei, ég borða þær yfirleitt í bílnum á leiðinni heim með pizzuna.

 

 

12. Mig langar svo að opna sælgætisverksmiðju. Ég væri stórkostleg sælgætisgerðarkona.

 

13. Besta tilfinning í heimi: að sjá sjálfa mig í afkvæminu. It blows my mind. Svo við slettum aðeins. Allir taktanir. Talsmátinn. Matarástin. Málgleðin. (Frekjan, þrætugirnin og fleira sem óþarfi er að nefna).

 

 

14. Ég hata auglýsingarnar frá Hamborgarafabrikkunni. Ég veit að það er bannað að tala um það. En ég hata þær. Og mig langar ekkert í hamborgara þegar ég sé þær.

 

15. Ég þoli ekki þegar ég er ávörpuð bara ,,Guðrún”. Það er Guðrún Veiga eða ekki neitt.

 

16. Einu sinni kíkti ég stundum í baðherbergisskápa. Ehm, ekki mína eigin sko. Heldur hjá öðrum. Ég er hætt því. Svona eiginlega.

 

17. Ég laga samt klósettpappírsrúlluna ef hún snýr vitlaust að mínu mati.

 

18. Ég hef einnig óstjórnlega þörf fyrir að kíkja í ísskápinn heima hjá fólki. Næ samt að hemja hana. Í flestum tilvikum.

 

19. Ég er hryllilega forvitin.

 

20. Ég á erfitt með pissuhljóð á almenningsklósettum. Þess vegna treð ég alltaf helling af pappír í klósettið áður en ég létti á mér. Nei, ég er ekkert sérstaklega umhverfisvæn.

 

21. Einu sinni tróð ég mandarínusteinum svo langt upp í nefið á mér að það var ómögulegt að ná þeim út. Svo hnerraði ég. Blessunarlega.

 

22. Ég saug á mér þumalputtann fram að fermingu. Sirka. Það hefur komið fyrir á fullorðinsárum mínum að ég vakni með puttann ískyggilega nálægt vörunum á mér.

 

 

23. Ég geng hvorki með húfur né hatta af því ég finn slíkan búnað sjaldan í minni stærð. Ég er undarlega höfuðstór. En höfuðið passar svo sem ágætlega á karlmannslegar herðar mínar.

 

24. Ég er óþolandi áttavillt. Sennilega ein sú áttavilltasta manneskja sem hægt er að finna. Ég hef tvisvar villst á leiðinni frá Egilsstöðum til Akureyrar. Já, það er hægt. Nei, þetta er ekki bein leið! Núna er ég búin að búa í Reykjavík í 14 mánuði. Ég nota GPS tæki á hverjum degi.

 

25. Ég get ekki verið með varalit án þess að hann fari út um allt andlit á mér - á innan við fimm mínútum frá ásetningu. Stundum lít ég út eins og ég hafi farið varalituð í ofbeldisfulla endajaxlatöku.

 

Óþarfa upplýsingar eru fínar svona inn á milli. Ekki?

 

Heyrumst.

 

Fimm hlutir á fimmtudegi

 

Það er fundið. Besta rakakrem í heimi. Mögulega það ódýrasta líka. Tæpar 1500 krónur.

 

 

Ástandið var bagalegt hérna fyrr í vetur. Það virkaði ekkert. Ódýrt, dýrt - skipti engu. Ég hef líklega prófað hvað flest krem undir sólinni. Ég vann lengi í apóteki. Þar var starfsmannaafsláttur og ég fékk aldrei krónu útborgað. Átti hins vegar rosalega mikið af kremum. Og ilmvötnum. Og augnblýöntum. Það er önnur saga.

 

Ég las um þetta undrakrem frá Decubal á blogginu hennar Ástríðar. Ákvað að eyða enn einum helvítis þúsundkallinum. Voilá - ég er eins og nýbónaður skalli. Í andlitinu sko. Glansandi fín.

 

 

Ég ætla ekki að segja ykkur hversu mörgum dollum ég stúta af þessu á viku. Hnetusmjörsneysla mín hefur þurft að lúta í lægra haldi undanfarið. Ég bara get ekki hætt. 

 

Ég var eitthvað utan við mig (þá sjaldan) í Krónunni fyrir ekki svo löngu. Hélt að ég væri að teygja mig í vel mæjónesað salat í svipuðum umbúðum. Tók þetta svo upp úr pokanum þegar ég kom heim. Smakkaði. Féll kylliflöt. 

 

 

Já. Ég borða hummus sem sagt svona. Smyr á skinku. Rúlla upp. Sælir eru einfaldir.

 

Ég borðaði einmitt heilt skinkubréf í kvöldmat áðan. Jú, unnar kjötvörur og allt það. Ég veit. Ætla að hætta að borða þær eftir áramót. Sagði enginn, aldrei.

 

 

Óóó. Ég er komin um borð í flaggskipið. Ég játa mig sigraða. 

 

Mér til varnar þá voru þeir á útsölu. Legg til að þið fylgist með versluninni Módern á Facebook. Þar eru oft stórfín tilboð. Og stórkostleg þjónusta í sjálfri búðinni. (Nei, ég fékk ekki greitt fyrir þessi meðmæli. Ekkert. Nada. Nothing). Ég er bara afar veik fyrir góðri þjónustu. Og hvers kyns tilboðum.

 

 

Gengur Herbert Guðmunds ekki í hús og selur geisladiskana sína? Og Gylfi Ægis líka?

 

Viljið þið fá mig í kaffi?

 

Heyrumst.

 


Með KitKat fyllingu

 

Það fylgir því örlítil frelsisskerðing að búa ekki lengur einsömul. Bannað að liggja í sófanum á brókinni. Horfandi á Hell´s Kitchen. Stynjandi yfir Gordon Ramsay. Eins og maður gerir. 

 

Nei. Þeir dagar eru taldir. 

 

Ég man hreinlega ekki hvenær ég var síðast fullklædd klukkan rúmlega níu að kvöldi til. Jæja. Ég bakaði. Fullklædd já. Dýrðlega köku handa sambýlismönnum mínum og öðrum sem ráku inn nefið.

 

 

 

Brownie með KitKat fyllingu:

 

Betty Crocker Brownie Mix (egg, vatn & olía)

1 pakkning KitKat Cookies & Cream (fæst í Krónunni - já, líka fyrir austan)

2 venjuleg KitKat

 

 

Útbúið Browniemixið samkvæmt leiðbeiningum á kassa.

 

 

Setjum helminginn af deiginu í meðalstórt eldfast mót.

 

 

 

Röðum KitKat ofan á. Borðum tvær lengjur. Að minnsta kosti.

 

 

Smyrjum afganginum af deiginu yfir.

 

Inn í ofn á 180° í 20-25 mínútur.

 

 

 

 

Það er óhætt að segja að þessi fullklædda kona hafi skorað í kvöld. Fullt hús stiga.

 

Hnossgæti par exelans.

 

Heyrumst.

 


Um bloggið

Guðrún Veiga

Höfundur

Guðrún Veiga Guðmundsdóttir
Guðrún Veiga Guðmundsdóttir

Ég heiti Guðrún Veiga. Ég er mamma, mannfræðingur, matarperri, múltítasker, nautnaseggur, naglalakkari og rauðvínssvelgur.

Þú finnur bloggið mitt hérna: gveiga85.blogspot.com

Des. 2014
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31      

Nýjustu myndir

  • IMG_7559
  • IMG_7558
  • IMG_7537
  • IMG_7532
  • IMG_7515

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.9.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband