30.6.2014 | 22:15
Samfestingafréttir
Ég verð að sýna ykkur dýrðlega samfestinginn minn úr Vila. Hann er hreinlega það fallegasta sem til er. Fyrir utan afkvæmi mitt. Já og Bubba.
Það er ákaflega erfitt að ná mynd af mér standandi. Ég kann vel við það að sitja á rassinum. Stend ekkert að óþörfu.
Þessi mynd var tekin á barnum á Seyðisfirði í gærkvöldi. Undirrituð ansi heimilisleg að gæða sér á Expresso Martini.
Sjáið hvað hann er glitrandi fínn?
Nei, ég hef engar haldbærar útskýringar á því hvað er að eiga sér stað á þessari mynd.
Já. Þarna voru glösin sennilega orðin svona þrjátíu og þrjú. Hér um bil.
Rúsínan í pylsuendanum: opna bakið.
Ég biðst líka afsökunar á að hafa stolið þessu glasi.
Mikið sem var ógurlega gaman í gær. Meira um það síðar.
Heyrumst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.6.2014 | 18:56
Blómabarnið
Blæti mitt fyrir blómum er agalegt. Blæti mitt fyrir samfestingum er ennþá verra.
Ég hugsa þess vegna ekki skýrt þegar ég sé blómamynstraða samfestinga. Það slær bara einhverju saman í höfðinu á mér. Mér stendur nokkuð á sama þó ég fái aldrei að borða aftur og þurfi að fara allar mínar ferðir fótgangandi fram að mánaðarmótum. Samfestinginn verð ég að eignast.
Þessi kom með mér heim úr Gyllta kettinum fyrir helgi. Við erum ástfangin.
Ég er svo kattliðug í svona samfestingum. Jú og kynþokkafull. Ef það er ekki ástæða til þess að eiga nóg af þeim.
Ég kom einmitt auga á einn í Vila í gær. Svartan með bleiku glitri einhverskonar. Almáttugur hjálpi mér. Opinn í bakið. Svo gullfallegur og einmana á einhverju ljótu herðatré. Aleinn. Hvíslandi nafn mitt svo blíðlega.
Andskotinn. Ég sæki hann.
Heyrumst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.6.2014 | 21:04
Hollustunasl
Nei, ég er að ljúga. Hollustunasl?
Ekki að ræða það.
Guð á himnum sko - þetta er svo gott. Salt, súkkulaði og karamella. Hver þarf mann þegar það er vel hægt að njóta ásta með mat? Mmm.
Saltkringlur með súkkulaði og karamellu:
Hálfur poki saltkringlur
1 bolli smjör
1 bolli púðursykur
2 bollar af súkkulaði
Gróft salt
Setjið bökunarpappir í sæmilega stórt eldfast mót. Raðið saltkringlum á botninn.
Bræðið saman smjör og púðursykur. Leyfið blöndunni að þykkna með því að láta hana sjóða í smástund.
Hellið karamellunni yfir saltkringlurnar og hendið þessu inn í ofn á 175° í fimm mínútur.
Kippið mótinu út úr ofninum, hellið súkkulaðinu yfir og aftur inn í ofn með þetta í eina mínútu.
Smyrjið mjúku súkkulaðinu jafnt yfir.
Inn í frysti með þetta í góðan klukkutíma.
Stráið fáeinum saltkornum yfir dýrðina að lokinni fyrstingu.
Ég ætlaði að fá mér einn bita með kaffibollanum eftir kvöldmat.
Ég er sennilega að japla á þeim átjánda.
Heyrumst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.6.2014 | 23:01
Í gær
Í gær prýddu þessar eitt eldhúsið í Ikea. Við skáluðum og blöðruðum eins og vindurinn. Jú og elduðum aðeins líka. Elsku Tara Brekkan förðunarfræðingur sá um að gera okkur sómasamlegar - ég legg til að þið kíkið á þessa síðu. Dásamlega hæfileikarík stelpa.
Ég fékk líka að þukla á brjóstunum á Völu. Eða fékk er kannski ekki rétta orðið. Ég gerði það bara.
Þið megið bíða spennt eftir þessum þætti. Hún kenndi mér einnig á Tinder þannig að ég verð sennilega gengin út næst þegar þið heyrið frá mér.
Eftir upptökur brunaði ég á ljóshraða heim í Breiðholtið og riggaði upp einu stykki matarboði.
Þið getið séð fleiri myndir úr þessari gleði í Morgunblaðinu á næsta sunnudag.
Ég eyddi 18 klukkutímum á háhæluðum skóm í gær. Misbauð líkama mínum gróflega með þeim gjörðum. Enda hef ég ekki hreyft mig í allan dag. Ef ég væri hjúkrunarfræðingur hefði ég sett upp þvaglegg hjá mér.
Ég er einmitt að ljúka við fjórða Pepsilítrann þannig að klósettferðirnar hafa verið ófáar og algjört óþarfa álag.
Jæja. Ég þarf að klára þessa pizzu. Já og brauðstangasósuna mína. Ég panta alltaf eina slíka dollu og borða hana með skeið. Namm.
Heyrumst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.6.2014 | 15:57
Með brókina í töskunni
Líf mitt er röð vandræðalegra atvika. Seinheppni, vesen og vandræðalegheit er eitthvað sem ég fékk í vöggugjöf og er orðin ansi hreint sjóuð í.
Ég skoppaði létt á fæti út úr vinnunni áðan. Á bílastæðinu hafa undanfarið verið einhverjir smiðir að bardúsa. Einn og einn myndarlegur inn á milli - ekki það að ég hafi veitt því sérstaka athygli og farið óvenju mikið máluð í vinnuna undanfarið. Alls ekki.
Ég var að valsa í öllum mínum þokka yfir bílastæðið áðan þegar einn vindur sér að mér og fer að ræða við mig um stöðina. Hvenær hún fari í loftið og hvernig gangi. Ég stend þarna á spjalli við hann, flissandi, sveiflandi hárinu og svona - þið vitið, eins og maður gerir. Á meðan ég er að blaðra er ég með höndina ofan í töskunni minni að fiska upp bíllyklana.
Ég næ taki á lyklakippunni eftir gott grams, held í einn lykilinn og byrja að klóra mér á kinninni með honum. Maðurinn hættir skyndilega að tala og horfir bara á mig. Á því augnabliki finn ég að það er ekki bara lykill að strjúkast upp við andlitið á mér. Nei. Það er eitthvað annað að þvælast þarna líka.
Ó, já. Ég veiddi brók upp úr töskunni minni ásamt lyklakippunni. Þarna flagsaði hún bara eins og fallegur fáni í vindi. Í andlitinu á mér og nánast í andlitinu á honum líka. Mér varð auðvitað svo mikið um þegar ég áttaði mig á hvað væri að eiga sér stað að ég byrjaði að reyna að hrista brókina af lyklakippunni. Það skilaði mér litlu. Í öllum látunum flaug hún loks af kippunni og á skóinn hjá vesalings manninum.
Á þessu andartaki dó stór hluti af mér þannig að atburðarrásin er hálf móðukennd. Ég held að ég hafi hrifsað nærbuxurnar mínar af götunni og hlaupið í burtu.
Jæja. Ég hugga mig við að þetta eru fallegar nærbuxur. Hlébarðamynstraðar og fínar. Hreinar líka. Svo því sé haldið til haga.
Þær voru einungis meðferðis af því ég var að fara til læknis eftir vinnu. Lykilatriði að fara í hreinum nærfötum til læknis. Algjört. Það er samt ekkert að mér sko, þarna niðri neitt. Oj bara.
Jesús, ég er hætt.
Heyrumst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.6.2014 | 16:14
Mjóddarferð
Það má finna mig að minnsta kosti vikulega í búðinni hjá Rauða krossinum í Mjóddinni. Eins og ég hef jú margoft sagt ykkur frá.
Ég hef sýnt ykkur ófáar gersemar þaðan og er hvergi nærri hætt. Ég ráfaði þar inn í gær og hafði tvennt á brott með mér.
Þessi fíni fíni jakki flutti búferlum úr Mjóddinni í Seljahverfið. 1000 krónur íslenskar. Ekki ósvipaður klæðum sem prýða margar búðir þessa dagana. Sá einmitt einn keimlíkan á 8990 í ónefndri búð fyrir helgi.
Þetta fallega uppháa pils eignaðist einnig nýtt lögheimili. Það er að vísu fjári þröngt. Ég var orðin álíka blá og það á litinn að lokinni myndatöku. En ég fór samt í spinning í gær og hef ekki bragðað hnetusmjör í átta klukkutíma. Það mun smellpassa fyrir helgi.
Kostaði líka þúsundkall. Bara einn lítinn þúsundkall.
Allt í lagi - af því ég er svo ótrúlega hagsýn í fatainnkaupum þá veitti ég mér auka fjárveitingu til fylgihlutakaupa. Eða eitthvað. Hvað er eitt hálsmen á milli vina?
Æ, það er bara svo fínt og passar við allt. Það fæst hérna.
Heyrumst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.6.2014 | 20:52
Instagram dagsins
Stór dagur í dag. Upptökur á fyrsta þættinum mínum. Já, einmitt - ég var búin að lofa að ræða þennan þátt ekki aftur. Jæja, bara einu sinni enn.
Ég er örlítið meyr í hjartanu. Það gerist afar sjaldan. Svo það sé á hreinu. Mig vantar bara aðeins að segja takk. Já, ég veit að ég er á blogginu mínu eftir upptökur á aðeins einum þætti. Ekki stödd á Eddunni í sigurvímu eftir stórkostlega þáttarröð. Það má samt alveg þakka fyrir sig. Já. Almenn kurteisi heitir það.
Lísa mín í Level fær að sjálfsögðu þakkir fyrir gullfallega kjólinn sem ég klæddist í dag. Ó og auðvitað hárbandið líka. Ég og þessi hárbönd sko - eins og pylsa með tómat og steiktum. Fullkomið kombó. Elsku vinir mínir hjá hárlengingar.is fyrir hárið mitt og dásamlegu krullurnar sem það prýddi. Tara Brekkan förðunarfræðingur fyrir að gera mig svo sæta að mig langaði í sleik við spegilmynd mína.
Öll kunnulegu andlitin sem ég sá ganga framhjá tökustaðnum í Ikea í dag.
Linda og Einar Guðmundur fyrir að koma og skjalfesta ófá augnablik svo mamma og pabbi gætu verið með puttann á púlsinum. Ég ætti kannski líka að þakka fjölskyldu minni fyrir að svara ennþá símtölum frá mér. Þau hafa verið óþarflega mörg síðustu daga.
Starfsfólkið í Ikea - almáttugur minn. Ekkert nema liðlegheitin og hjálpsemin.
Síðast en ekki síst stórvinkona mín hún Leoncie fyrir að vera gestur fyrsta þáttarins og taka þátt í frumraun minni fyrir framan kvikmyndatökuvélar.
Engar áhyggjur. Þessar þakkarræður eru ekki að fara að vera viðtekin venja eftir hverja upptöku. Þessi dagur var bara gríðarlega mikil upplifun. Þetta var allt svo nýtt. Ógnvænlegt, stressandi og taugatrekkjandi. En að sama skapi stórskemmtilegt.
Oj. Ég er orðin væmin. Ég ætla út að skyrpa, blóta og þamba bjór.
Heyrumst.
Ykkur er velkomið að elta mig á Instagram - @gveiga85.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.6.2014 | 08:25
Góðan dag
Morgunkaffið í Breiðholti var drukkið úr þessum dásamlega væmna bolla þennan miðvikudaginn. Ég rakst á hann í Söstrene Grene um helgina og klisjukennda hliðin á mér féll kylliflöt.
Kaffisopi og súkkulaðibiti áður en haldið er af stað í handsnyrtingu. Lúxusinn á manni alltaf hreint. Nei, ég splæsi nú slíku aldeilis ekki á mig sjálf. Það væri þá annað hvort að fá að borða eða hafa fallegar hendur.
Það er agalega notalegt að eiga vinkonu í snyrtifræðinámi. Á síðasta föstudag fékk ég hjá henni tveggja tíma dekur. Svona þangað til að hún gaf mér fast selbit á ennið og húðskammaði mig fyrir að hrjóta. Dekrið átti sér nota bene stað fyrir framan allan bekkinn hennar.
Það er bara svo svæfandi að láta fitla svona við sig. Eða ekki fitla, nei. Það er of pervertískt orð. Láta eiga svona við sig? Dunda við sig? Nei, ókei. Þið skiljið hvert ég er að fara.
Talandi um fallegar hendur. Ég átti eftir að sýna ykkur tvö guðdómlega falleg naglalökk frá Barry M. Ég ræddi lítillega um þau hérna. Ég verð að segja og jafnvel sletta örlítið á ensku að þetta eru hands down bestu naglalökk sem ég hef prófað.
Þau haldast fáránlega vel á. Þorna fljótt. Litirnir eru dásamlegir. Ég elska þau. Elska, elska og elska.
Svo háglansandi og fallegt. Þessi litur er úr Gelly-línunni. Nánast hægt að spegla sig í honum.
Ó, svo þessi litur. Þessi, þessi, þessi. Ég varla tek þetta naglalakk af mér.
Ég á bágt með mig. Ég stúdera vefverslunina með þessi lökk að minnsta kosti einu sinni á dag. Eða tvisvar. Svona sirka. Ég get eiginlega ekki dásamað þau nógsamlega.
Ég hef nú prófað nokkur naglalökk í gegnum ævina. Fáein stykki. Ykkur er óhætt að treysta mínum meðmælum.
Jæja, handsnyrting.
Heyrumst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.6.2014 | 17:43
Brjálæðislega einföld Oreo-ostakaka
Óbilandi ást mín á Oreokexi er nú á flestra vitorði. Það eru ávallt til að minnsta kosti tveir kassar af þessum munaði hérna í Breiðholtinu. Stundum má finna þann þriðja á náttborðinu mínu. Æ, það er önnur saga. Mér er yfirleitt ekki viðbjargandi - sísvöng sama hvað klukkan er.
En já, ostakakan.
Þrjú innihaldsefni af því við nennum engum veseni:
Sirka 1 og 1/2 kassi Oreokex
Dós af niðursoðinni mjólk - condensed milk heitir það víst
250 grömm rjómaostur
Condensed milk - mér skilst að þetta fyrirbæri fáist í Kosti, Hagkaupum og einhverjum Nóatúnsbúðum. Örugglega víðar.
Ég nældi mér í þessa í asísku búðinni á móti Hlemmi. Eða er hún kínversk? Nei, ég veit það ekki. Ég skil ekki einu sinni hvað stendur á dósinni. Veit varla hvort ég var að brúka réttan hlut. En þetta var gott á bragðið. Það nægir.
Byrjum á því að mölva 16 stykki Oreo.
Fínt að skella kexinu í poka og lúskra á þeim með kökukefli. Slíkt verkfæri er reyndar ekki til í Breiðholtinu. Hnetusmjör er hinsvegar alltaf til og vel hægt að nota það til að brjóta fáeinar kexkökur.
Æ, ókei. Það fóru bara 14 Oreokex í pokann hjá mér. Tvö ofan í maga.
Setjum mulninginn í litlar krukkur eða álíka ílát. Þessi uppskrift ætti að duga í sirka fjórar slíkar.
Hrærum rjómaostinn og dósamjólkina vel saman.
Myljið 4-5 kexkökur saman við.
Mixtúran fer ofan í krukkurnar og inn í ísskáp í góðar 30 mínútur.
Aðeins meira Oreo til skrauts og ein teskeið af mjólkinni yfir.
Ofboðslega gott.
Nánast eins og mök við bragðlaukana. Eða eitthvað. Þið skiljið hvað ég á við.
Heyrumst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.6.2014 | 11:29
Nenni ekki að elda
Ég opinberaði nafnið á þættinum mínum á Facebook í gær. Fyrir ykkur sem hafa áhyggjur - nei, þetta er ekki hefðbundin matreiðsluþáttur. Síðan hvenær stunda ég hefðbundna matreiðslu?
Hér er svo auglýsingin fyrir þáttinn. Þið getið séð hana í betri gæðum hérna.
Ég átta mig á hversu fullkomlega óþolandi ég er að verða. Ég er auðvitað búin að deila auglýsingunni eins og vindurinn á öllum helstu samfélagsmiðlum. Hóta vinum og vandamönnum afneitun og öllu illu geri þeir ekki slíkt hið sama.
Ég er bara svo spennt. Ég iða allan liðlangan daginn. Allt í einu eru svo margir draumar innan seilingar. En auðvitað er alveg jafn auðvelt að klúðra þeim eins og að láta þá rætast. Andlegt ójafnvægi mitt er sennilega í sögulegu hámarki. Ég er ýmist svífandi um á skýi eða liggjandi uppi í rúmi með sængina yfir haus. Það er óþarflega stutt milli hláturs og gráturs suma daga.
Jæja, þetta er í síðasta sinn sem ég ræði þennan sjónvarpsþátt. Eða allavega næstsíðasta. Svona sirka.
Ég ætla að eyða deginum í sólabaði á Esjunni.
Heyrumst fljótlega.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Guðrún Veiga
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.9.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar