Mæðginin

Æ, ég er að eiga svo góða daga. Afkvæmið er í Breiðholtinu og það er fátt sem gerir mig jafn hamingjusama.

 

Stundum fæ ég að vísu kaldan hroll niður bakið þegar ég er að eiga samskipti við hann. Það er nákvæmlega eins og ég sé að tala við sjálfa mig. Sísvangur þverhaus sem hefur skoðun á öllu. Lítil sjö ára jarðýta. 

 

 

Hann gat ómögulega skilið af hverju hann mátti ekki gefa manninum 5000 kallinn sem var að þvælast í veskinu mínu. ,,Sérðu ekki að hann er mjög fátækur mamma? Hann er í rauðum buxum og fer aldrei í klippingu."

 

 

Litla jarðýtan hefur líklega horft á Titanic móður sinni til samlætis aðeins of oft. Þarna stóð hann á bakkanum og tuðaði I´m the king of the world. 


 

 

 

Oh. Það er svo gaman að hafa einhvern til að borða með. 

 

 

 

Ansi hamingjusamur með mömmu sína þarna. Lasagne með hvítlauk og sólþurrkuðum tómötum. Hann myndi éta fatið upp til agna hefði hann frjálsar hendur. 

 

 

 

Örlítil popptilraunastarfsemi að loknu lasagneáti. Þá sjaldan.

 

 

Hann rumskaði þegar ég skreið upp í rúm til hans í gærkvöldi. Stakk sér beinustu leið undir mína sæng og hjúfraði sig svo fast upp að mér að ég varla náði andanum. Svo hvíslaði hann ,,þú ert svo góð mamma að ég veit bara ekki hvað ég á að gera við þig."  


Búmm. Ef einhver getur sprengt mitt ískalda hjarta þá er það þessi. Fer alveg með mig stundum. Ótrúlega hlý og saklaus lítil mannvera.

 

Jæja. Nóg af væmnu barnatali.

 

Heyrumst.



Laugardagskvöld í Breiðholtinu

 

Nýjasta matarmanían. Spergilkál, skinka, paprika, rauðlaukur og nýrnabaunir steikt á pönnu. Ásamt vænni slummu af Sweet Chilli sósu. 

 

 

Pönnumixinu er síðan blandað saman við icebergsalat, rauðlauk og tómata. Ásamt annarri vænni slummu af Sweet Chilli sósu. 

 

Guðdómlega gott. Ég borðaði þetta í gær. Fyrrakvöld. Í kvöld. Hræódýrt líka. Ég er einmitt að safna mér fyrir kápu sem ég rakst á um daginn. 

 

 

Sú söfnun gengur reyndar hreint ekki vel. Mér til varnar þá kosta vintagekjólar í Gyllta kettinum ekki nema 3000 krónur. Ekki hörðustu naglar standast slíkt verðlag. Né aumar smásálir eins og undirrituð sem mega ekkert fallegt sjá án þess að rífa upp kortið sitt. 

 

 

Þrjú þúsund. Sex þúsund. Ég hætti að telja þúsundkallana sem ég eyði í kjóla fyrir mörgum árum síðan. 

 

 

 

Laugardagskvöld að mínu skapi - ný naglalökk og rauðvínsglas. Eða glös. 

 

 

 

Eftir bara eina umferð. Þarf ekki meir. Barry M er best. 

 

 

Í s-inu mínu. Með andlitið ofan í rauðvínsglasinu. Hárbandið liggur þarna ofan á hausnum á mér af því ég er að reyna að ákveða hárgreiðslu fyrir upptökur morgundagsins. Ég mæti ekki hárbandslaus í þær. Aldeilis ekki.

 

Hvet ykkur til þess að gera ykkur ferð í Ikea á morgun. Útsala og svona. 

 

Ég mun sötra rauðvín ásamt stórvinum mínum þeim Begga og Pacas í eldhúsdeildinni á efri hæðinni. Jú og elda líka. Ég ætla einmitt að bjóða þeim upp á popp löðrandi í hnetusmjörskaramellu. 

 

Kíkið við. Ég gef ykkur smakk.

 

Heyrumst.



Flugferð með sjö ára hrakspámanni

 

Ég og afkvæmi mitt flugum saman suður á þriðjudagskvöldið síðasta. Það er ekki í miklu uppáhaldi hjá mér að fljúga. Alveg bara alls ekki. Ég hef nú haft orð á því nokkrum sinnum áður - meðal annars hérna.

 

Að vera í aðstæðum sem ég hef ekki fulla stjórn á er einfaldlega ekki minn tebolli. 

 

Það er hinsvegar fátt sem heillar afkvæmið jafn mikið og flugvélar. Hann er enn svo lítill og saklaus að fyrir honum er hugmyndin um að flugvélin geti hrapað alveg æsispennandi. Bara eins og um sé að ræða hið besta diskótek. Smá fútt í mögulega tíðindalitla flugferð. Ekkert til þess að vera hræddur við. Iss. 

 

Það var ömurlegt veður á Egilsstöðum þegar við fórum í loftið og ókyrrðin eftir því. Ég sat með augun kyrfilega lokuð, orðin blóðlaus í fingrunum og við það að missa saur þegar afkvæmið hefur upp raust sína.

Hann var nota bene skælbrosandi og iðandi sér í takt við ókyrrðina. 

 

Afkvæmi: Þú þarft ekkert að klæða mig í björgunarvestið þegar við hröpum.

Ég: .....ha? Ekki tala. Það er bannað að tala í flugvélum.

Afkvæmi: Nei, ég kann sko alveg að klæða mig sjálfur í það. Þú skalt bara flýta þér í þitt.

Ég: Hættu. Uss. Það er enginn að fara í neitt fjárans björgunarvesti.

Afkvæmi: Nei ekki núna. Bara á eftir.

Ég: Suss. Lestu bókina þína. Eða finndu þér annan sessunaut. 

Afkvæmi: Annars þarftu ekkert að fara í vestið...

Ég: Nei ég veit. Við lendum í Reykjavík eftir smástund.

Afkvæmi: ...nei sko, þú deyrð hvort sem er bara strax og þú dettur í sjóinn.

Ég: Valur Elí - ég get svo guðsvarið fyrir það!

Afkvæmi: Bara búmm (klappar saman lófunum með tilheyrandi hávaða) maður dettur svo fast. Búmm. Dáinn. 


Einfalt mál. Dettur í sjóinn. Búmm. Dáinn. 

 

Af hverju er ekki boðið upp á áfengi í innanlandsflugi?

 

Heyrumst.



Hnossgæti á miðvikudegi

 

Nei, ég er hvergi nærri hætt tilraunastarfsemi minni með saltkringlur. 

 

Þessi tilraun heppnaðist stórkostlega. Hvílíkt hnossgæti. Enda er hnetusmjör þarna í broddi fylkingar. Þá getur ekkert klikkað. Aldrei. 

 

 

Súkkulaði - og hnetusmjörssaltkringlur:


150 gr hvítt súkkulaði

1/4 bolli fínt hnetusmjör

50 gr mjólkursúkkulaði

Saltkringlur

 

 

Byrjum á því að bræða hnetusmjörið og hvíta súkkulaðið saman. 

 

 

Setjum bökunarpappír í eldfast mót og hellum blöndunni þar ofan í. 

 

 

 

Bræðum mjólkursúkkulaðið og skvettum því yfir. Hér er svo ágætt að renna með hníf í gegnum blönduna.

Þá jafnast hún út og fær fallegt mynstur. 

 

 

 

Þrýstum saltkringlunum ofan í gúmmelaðið. 

 

Inn í frystir með þetta í góðan klukkutíma.

 

 

 

Ó, boj.

 

Hnetusmjör. Súkkulaði. Salt.

 

Himneskt. 

 

Heyrumst.



« Fyrri síða

Um bloggið

Guðrún Veiga

Höfundur

Guðrún Veiga Guðmundsdóttir
Guðrún Veiga Guðmundsdóttir

Ég heiti Guðrún Veiga. Ég er mamma, mannfræðingur, matarperri, múltítasker, nautnaseggur, naglalakkari og rauðvínssvelgur.

Þú finnur bloggið mitt hérna: gveiga85.blogspot.com

Júlí 2014
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • IMG_7559
  • IMG_7558
  • IMG_7537
  • IMG_7532
  • IMG_7515

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.9.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband