19.3.2014 | 01:30
Moldvarpan.
Ég get verið óttaleg moldvarpa. Stundum fer ég ekki út úr húsi svo dögum skiptir. Væflast bara um með sjálfri mér - læri, skrifa, les og hlusta á tónlist. Stundum átta ég mig ekki einu sinni á þessari hegðun fyrr en ég sit og borða maísbaunir upp úr niðursuðudós í kvöldmat af því ég hef ekki farið út í búð í viku.
Reyndar átta ég mig yfirleitt á svona þriðja degi. Ég fer nefnilega ekki út með ruslið þegar moldvarpan tekur völdin. Já. Ég átta mig þegar ruslið fer að lykta. Sko ekki um allt húsið. Bara svona þegar ég opna skápinn. Þið vitið. Vonandi.
Ég baða mig alveg á meðan ég er moldvarpa. Höldum því til haga.
Þetta er samt dálítið erfitt að komast úr þessum gír. Það sýndi sig í morgun. Svona eftir að ég var búin að finna lykt af ruslinu. Jú og ræða mínar eigin samsæriskenningar um týndu flugvélina vel og lengi við sjálfa mig. Upphátt. Þá ákvað ég að það væri kominn tími til að fara út á meðal fólks.
Já. Ég klæddi mig þrisvar. Greiddi mér jafn oft. Þetta ferli var frá tíu í morgun og þangað til ég lufsaðist út úr húsi klukkan að ganga eitt. Sturluð í skapinu nota bene.
Þegar ég sturlast svona ein með sjálfri mér þá bitnar það aðallega á andlitinu á mér. Ég afmyndast gjörsamlega af einhverri hljóðlausri bræði. Ég gretti mig og geifla. Öskra hljóðlaust. Skyrtan á síðustu myndinni einmitt - nei hún er ekki til lengur. Ég reif hana utan af mér. Í eigin bræði.
Æ, þetta geðsýkiskast átti fullan rétt á sér. Mér fannst ég ljót í öllu og hárið lét eins og dauður þvottabjörn. Síðan fannst mér önnur augnbrúnin á mér líka lægri en hin. Það var bara kornið sem fyllti mælinn.
Eðlilegt kast á allan máta.
Jæja. Ég ætla að skutlast í Hagkaup. Já, klukkan eitt að nóttu. Það er ekki til neitt hnetusmjör. Ég vil ekki þurfa að kljást við annað kast hérna í fyrramálið.
Um bloggið
Guðrún Veiga
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (6.9.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.