Lasagne með beikoni og sólþurrkuðum tómötum

 

Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að hér sé um að ræða besta lasagne í heimi. Afkvæmið vill meina það. Við erum svipuð þegar kemur að einhverju matarkyns - vitum svo sannarlega hvað við syngjum. 

 

Þið ættuð að þekkja mína lífsspeki. Það er allt betra með beikoni. Einfalt mál. Ég get borðað beikon með öllu. Mmm, að dýfa stökku beikoni í bráðið dökkt súkkulaði - guðdómlegt! Nú eða beikonsmákökurnar mínar, almáttugur minn. Svo við ræðum ekki einu sinni beikonpönnukökurnar. Hjálpi mér!

 

Jæja, lasagne.

 

Lasagne með beikoni og sólþurrkuðum tómötum:


500 gr hakk

Ca. 200 gr beikon

Lítil krukka af sólþurkkuðum tómötum

1 lítil dós tómatpúrra

1 dós niðursoðnir tómatar

1 dl vatn

Lasagneplötur

1 stór dós kotasæla

Ostur

Svartur pipar

Salt

Oregano

Chillikrydd

Paprikukrydd

Tacokrydd (í rauðu pokunum)

Cayenne pipar

1/2 nautateningur

 

Steikið hakkið á pönnu við vægan hita. Kryddið með salti, pipar, papriku, oregano og tacokryddi (sirka hálfum poka). Setjið örlítið af cayanne pipar og chillikrydd eftir smekk. Saxið beikonið og steikið létt á annarri pönnu. Blandið því svo saman við hakkið þegar það hefur tekið lit. Látið beikonfituna gossa af pönnunni líka. Mmm.

 

Sigtið olíuna af sólþurrkuðu tómötunum og saxið þá smátt. Það er líka hægt að kaupa þá saxaða - mun hentugra. Bætið þeim við hakkið og beikonið. Hellið niðursoðnu tómötunum og tómatpúrrunni á pönnuna. Setjið desilíter af vatni saman við og hálfan tening af nautakrafti. Leyfið þessu að malla í góða stund. 

 

Ég treysti á að þið kunnið framhaldið. Hakkblanda, lasagneplötur, kotasæla. Endurtaka. Ostur yfir. Inn í ofn á 180° í sirka 30 mínútur. 

 

 

 

 

 

Setjum hakkblönduna í botninn á eldföstu móti. Lasagneplötur þar ofan á.

 

 

Smyrjum vænum skammti af kotasælu ofan á hvert lag af plötunum.

 

 

Já, ég er ein af þeim sem finnst algjör óþarfi að splæsa í poka af rifnum osti fyrir svona framkvæmdir. Hagsýnin sko. 

 

Hér má strá aðeins af oregano yfir ostinn. 

 

 

 

Virkilega gott. 

 

Heyrumst.



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Guðrún Veiga

Höfundur

Guðrún Veiga Guðmundsdóttir
Guðrún Veiga Guðmundsdóttir

Ég heiti Guðrún Veiga. Ég er mamma, mannfræðingur, matarperri, múltítasker, nautnaseggur, naglalakkari og rauðvínssvelgur.

Þú finnur bloggið mitt hérna: gveiga85.blogspot.com

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • IMG_7559
  • IMG_7558
  • IMG_7537
  • IMG_7532
  • IMG_7515

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.9.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband