Fimm hlutir á fimmtudegi

 

Ó, ég datt inn í Indiska í Kringlunni í dag. Ég kom ekki út með poka. Nei. Ég valsaði út með fullan kassa.

 

 

 

 

Bollablæti mitt er fyrir löngu orðið vandamál. Það er bara svo gaman að drekka úr fallegum bollum. Horfa á þá. Handfjatla. Strjúka. Stilla þeim upp.

 

 

 

Þessi var sendur í tímabundna vistun til ömmu sinnar á Stokkseyri. Það er einfaldlega ekki flóafriður í návist hans og ekki nokkur leið að halda einbeitingu. Ég hef aldrei á ævinni hitt einstakling sem talar svona mikið. Hann andar ekki á milli orða sko. Ef hann er ekki að spyrja mig stanslausra spurninga þá er hann að segja mér frá einhverju mjög misáhugaverðu. 

 

Að vísu var ég víst nákvæmlega eins. Samkvæmt sögum frá móður minni var ég óþreytandi blaðurmaskína. Ég held að kennarar mínir í gegnum tíðina hafi sömu sögu að segja. Jú og samferðamenn mínir nú í dag. Þetta er ekki eiginleiki sem glatast. Ég er viss um að fólkið sem býr fyrir ofan mig heldur að ég sé að stelast til þess að hýsa fimmtán flóttamenn. En nei. Það eru bara ég og afkvæmið að eiga samskipti.  

 

 

Ég hef ýmsar samsæriskenningar hvað varðar Wasabi-hnetur. Ég er viss um að þær innihalda heróín. Eða krakk. Einhver vímugjafi er í þessum pokum. Það er á hreinu. Ég get ekki hætt. Ég maula þær þangað til lekur úr nefinu á mér og rýkur úr eyrunum. 

 

 

Ég var eins og örvæntingafull dagdrykkjumanneskja á flakki um Breiðholtið í dag. Rölti um allt á tauinniskóm, með kokteil í hönd og myndavélina um hálsinn. Ég var að leita að hentugum stað í myndatökur. Ekki mígandi drukkin að leita að heimili mínu. Ég endaði með því að brjótast inn á sólpall. Sem ég hélt að tilheyrði tómu húsi. Hann gerði það svo ekki. 

 

Það var vandræðaleg uppákoma og frekar erfitt að flýja vettvang með fullt fang af kokteilum í inniskóm úr Rúmfatalagernum.

 

Jæja. Nóg í bili.

 

Heyrumst.



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Guðrún Veiga

Höfundur

Guðrún Veiga Guðmundsdóttir
Guðrún Veiga Guðmundsdóttir

Ég heiti Guðrún Veiga. Ég er mamma, mannfræðingur, matarperri, múltítasker, nautnaseggur, naglalakkari og rauðvínssvelgur.

Þú finnur bloggið mitt hérna: gveiga85.blogspot.com

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • IMG_7559
  • IMG_7558
  • IMG_7537
  • IMG_7532
  • IMG_7515

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.9.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband