2.8.2014 | 21:22
Brownie með Marsfyllingu
Mér er orða vant. Það er sjaldgæft. Svo afar sjaldgæft.
Þessi kaka sko.
Ekkert vesen. Ég nenni ekki að sigta hveiti eða vigta sykur. Alveg alls ekki.
Brownie með Marsfyllingu:
1 pakki Betty Crocker Brownie Mix
6 Marsstykki
Skerum Marsstykkin í tvennt. Það sleppur að lauma einum helming upp í sig. Ég ábyrgist það.
Útbúum kökudeigið samkvæmt leiðbeiningum á pakka.
Setjum bökunarpappír í meðalstórt eldfast mót og helminginn af kökudeiginu þar ofan í.
Komum Marsbitunum gaumgæfilega fyrir.
Afganginum af deiginu er að lokum smurt vandlega yfir.
Inn í ofn á 180° í 40-50 mínútur.
Svona, nákvæmlega svona, lítur himnaríki út.
Yndislega blaut súkkulaðisæla löðrandi í mjúkri karamellu. Ég legg ekki meira á ykkur.
Eigið góða helgi mín kæru.
Heyrumst fljótlega.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.7.2014 | 22:19
Dásamlegt Snickerssalat
Ég gaf uppskriftina af þessu stórkostlega salati í Fréttablaðinu um helgina og var búin að lofa henni hingað inn líka. Þetta er sko svo gott að manni langar að flytja búferlum ofan í helvítis skálina.
Já. Ég veit það er mánudagur og við erum öll í megrun. En ég ætla samt að láta flakka.
Snickerssalat:
1 pakki vanillubúðingur (Helst frá Jello)
1 bolli köld mjólk
1/2 líter rjómi
6 stykki Snickers
3 rauð epli
Jarðaber eða kiwi til skrauts.
Leysið upp búðingsduftið í mjólkinni. Þeytið rjómann og blandið honum varlega saman við búðingsblönduna. Saxið Snickers og epli og hrærið saman við. Skreytið með ferskum ávöxtum.
Einfalt, fljótlegt og fáránlega gott!
Heyrumst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.7.2014 | 00:17
Fimm hlutir á fimmtudegi
Hefur þú matað Geir Ólafs? Eða látið hann mata þig?
Þið megið vera spennt fyrir þessum þætti. Hann jaðrar eiginlega við að vera klám.
Ó, ég borðaði svo ljómandi fínan tælenskan mat fyrir stuttu. Á Ban Kúnn sem staðsettur er á Völlunum í Hafnarfirði. 1490 krónur fyrir þrjá rétti og þrjú kíló af hrísgrjónum.
Ég er tilbúin að keyra til Hafnarfjarðar fyrir það. Já ókei, ég er búin að keyra þangað nokkrum sinnum.
Djúpsteiktu rækjurnar - maður lifandi. Þær má deyja fyrir.
Uppþvottavélin í Breiðholti er með stæla. Hér er því snætt af pappadiskum og drukkið úr plastglösum. Sama hvort það eru gestir eða ekki.
Vaska upp? Nei. Ekki að ræða það.
Ég var að taka til um daginn. Þá sjaldan. Gróf upp leigusamninginn minn sem ég var búin að sannfæra mig um að væri í gildi til 1.október 2014. Ó, heldur betur ekki. Ég á að vera búin að yfirgefa Breiðholtið í næstu viku.
Eftir talsverðar hjartsláttartruflanir og 400 árangurslaus símtöl í leigusalann vissi ég hvað beið mín.
Forsíða DV - ,,Býr í 15 ára gömlum Yaris." Ég var búin að þræða hverja einustu auglýsingasíðu og ekkert. Jú, sturtulaus íbúð í miðbænum á 100.000 - ,,sundlaug í næsta nágrenni." Ég ætti ekki annað eftir. Ég þoli ekki sundlaugar. Frekar þvæ ég mér með þvottapoka í aftursætinu á Yaris.
Jæja. Þetta fór betur en á horfðist. Í bili. Ég smjaðraði örlítið. Samingurinn rennur því ekki út fyrr en 1.nóvember.
Ég ætla að finna mér mann sem á fasteign fyrir þann tíma.
Þarna er afkvæmið staðsett alla daga. Alltaf.
Jæja. Ég á rauðvínslögg í þessum ágæta ísskáp síðan um síðstu helgi. Það er best að svolgra henni í sig sem snöggvast.
Heyrumst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.7.2014 | 23:59
Þriðjudagur
Ó, það er svo notalegt að vakna með þetta litla skinn alveg upp við nefið á sér á hverjum morgni. Hann nappaði af mér svefngrímunni sökum birtu í herberginu. Ferlegt vesen að eiga móður sem er með öllu ófær um að setja upp gardínur.
Jájá. Ég treð sinnepi á allt. Líka morgunmatinn minn.
Hádegisverður í bakaríi áður en við urðum fyrir hrottalegri mávaárás við Reykjavíkurtjörn.
Mávarnir voru ákaflega hrifnir af litla stráknum með brauðhleifinn. Þarna gerir hann heiðarlega tilraun til þess að fela brauðið fyrir aftan bak.
Þessi var aldeilis glöggur og tók sprettinn á eftir afkvæminu. Sem fór að grenja og hljóp í áttina að götunni. Ég hljóp á eftir mávadruslunni eins og óð kona, baðandi út öllum öngum og öskrandi af örvæntingu
,,LOSAÐU ÞIG VIÐ BRAUÐIÐ!"
Já. Svona eins og hann væri með mannskæða sprengju í höndunum. Slík voru tilþrifin.
Jæja. Afkvæmið stoppar og lætur brauðið detta við fæturnar á sér. Neinei, það er ekki alltaf hægt að vera skærasta peran í seríunni. Koma þá ekki svona átta þúsund mávar (give or take) svífandi á hann.
Ég gat honum enga björg veitt í þessum aðstæðum. Enda lafhrædd við allt sem ekki er viti borið og gengur upprétt. Barnið stóð bara stjarft í þessum lífsháska þangað til svona fjögurra ára pjakkur óð sparkandi inn í mávaþvöguna.
Móðir ársins. Enn og aftur.
Í sárabætur féllst ég á að fara með hann í bíó. Á Tarzan. Aftur. Jú við fórum líka á hana í síðustu viku. Það voru svona 10 mínútur liðnar af myndinni þegar afkvæmið þarf að pissa. Auðvitað. Ég nennti svo aldeilis ekki að fara að klöngrast með hann í myrkrinu og ónáða fullan sal af fólki þannig að ég laug að það væri alveg að koma hlé. Góðum fimm mínútum síðar gólar hann:
,,Mér er svo illt í typpinu af því þú nennir ekki með mig að pissa!"
Nei. Honum liggur ekki lágt rómur. Höfum það á hreinu.
Til þess að ljúka þessum degi og fagna því að bæði afkvæmið og æxlunarfærin á honum væru í heilu lagi fengum við okkur pizzur. Ljómandi fínar alveg.
Bingókúlur í eftirrétt.
Já, heilbrigði lífstíllinn gengur vel. Mjög svo.
Heyrumst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.7.2014 | 21:08
Mögulega hollari týpan af hamborgara
Eggjaborgari!
Ég lofaði víst upp í ermina á mér í gær að reyna að lifa heilbrigðara lífi. Mig langaði samt í hamborgara í kvöld. Þessi lífstílsbreyting verður auðvitað tekin í hænuskrefum. Öðruvísi geri ég ekki hlutina. Hægt en örugglega. Það er minn stíll.
Djöfull sem mig langaði í franskar með þessu líka. Sjoppufranskar sko. Einn vel djúpsteiktan skammt. Með mikið af kryddi. Dýfa hverri einni og einustu í tómatsósu og láta þær leika um mjúkar varir mínar.
Nei. Ég borða ekki kokteilsósu. Ótrúlegt en satt. Það er fyrirbæri sem er mér með öllu óskiljanlegt.
Aftur að þessum fína hamborgara.
Ég borða heldur ekki hamborgarasósu. Oj bara. Það fer alltaf tómatsósa og sterkt sinnep á minn borgara. Nema það sé bernaisesósa í boði. Þá alltaf bernaise.
Allt í lagi. Hollustan fór kannski smá til fjandans með þessu sósumagni. Ég á ferlega erfitt með að hemja mig í sósunum. Ég vil allt vel sósubleytt.
Tvö spæld egg í staðinn fyrir hamborgarabrauð. Brauð er auðvitað rót alls ills í heiminum. Að mér skilst. Grænmeti og kjöt á milli.
Æ, ég setti nú líka smá ost á borgarann. Tvær agnarsmáar sneiðar. Ég er nú ekki steindauð að innan þó ég þrái hollara líferni.
Ah, ljómandi gott.
Eitt egg hefði sennilega alveg dugað. Ég er gjörsamlega afvelta eftir þennan snæðing.
Samt langar mig ennþá í franskar.
Heyrumst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.7.2014 | 21:34
Sunnudagsmaski
Ég lít út eins og ósofinn fermingarstrákur á miðju kynþroskaskeiði þessa dagana. Ég er öll í bólum, þurrkublettum og öðrum ófögnuði. Að ógleymdum baugunum sem ná nánast niður að geirvörtum.
Kannski, bara kannski á ég einhverja sök á þessu útliti mínu. Ég borða drasl. Annað er undantekning. Ég drekk aldrei vatn. Bara aldrei. Mér finnst miklu skemmtilegra að vaka en sofa - þannig að ég geri alltof lítið af því. Stundum sofna ég líka kafmáluð. Jájá. Ég viðurkenni það aftur opinberlega. Það skeður samt bara stundum. Þegar ég er afar lúin. Nú eða rauðvínsmaríneruð.
Ég ætla að fara að hugsa betur um mig. Frá og með núna. Þetta gengur ekki.
Ég skarta líka orðið sjö hrukkum. SJÖ!
Jæja. En að máli málanna - dásamlega góðum heimatilbúnum maska sem fór á mitt illa leikna andlit fyrr í kvöld.
Ég maukaði saman hálft avacado, væna skvettu af hunangi og fáeina vatnsdropa með töfrasprota.
Mixtúrunni er smellt inn í ísskáp í svona 10 mínútur áður en hún fer á andlitið.
Maskinn má vera á andlitinu alveg í góðan hálftíma.
Ég er ennþá bólótt. Með bauga. En mjúk eins og silki get ég sagt ykkur.
Svínvirkar.
Heyrumst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.7.2014 | 18:46
Þriðjudagar eru Oreodagar
Endalausar sólarmyndir úr heimahögum mínum fyrir austan eru að buga mig. Nei ég lýg. Ég hef það fínt hérna. Étandi, fitnandi, rignandi niður og deyjandi úr D-vítamínskorti.
Æ, veðrið skiptir mig engu. Held ég. Ég nýt mín mun betur fyrir framan sjónvarpið en í sólbaði. Ég hef til dæmis farið í sund einu sinni á síðustu 13 árum. Einu sinni!
Ég nenni ekki sundlaugum þar sem ekki er seldur bjór. Fer bara í sund í útlöndum.
Já. Það má rigna fyrir mér.
En að máli málanna.
Oreotilraun dagsins.
Í tilraunina þarf þrennt (magnið fer eftir því hversu mikið þið ætlið að búa til):
Oreo
Reese´s Peanut Butter Cups
Súkkulaði til þess að hjúpa
Tökum Oreoið í sundur. Við erum bara að fara að nota kremhlutana. Mmmm.
Einn Reeses´sbiti settur ofan á.
Ó, augun mín. Mér líður eins og gömlum pervert að horfa á klám.
Bræðum súkkulaði.
Hjúpum dýrðina vandlega.
Inn í ísskáp í drjúga stund.
Hér þarf engin orð.
Ég ætla ekki að bera þetta saman við kynlíf með einhverjum eða hvers kyns sleikingar. Ekki í þetta sinn.
Heyrumst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.7.2014 | 12:13
Það skemmtilegasta
Að stýra sjónvarpsþætti er það skemmtilegasta sem ég hef gert. Án alls vafa. Guð á himnum hvað þetta hefur verið skemmtilegt ferli. Lærdómsríkt og stressandi líka. En það er nú ekkert sem eitt rauðvínsglas lagar ekki. Eða þrjú. Eins og myndirnar hér að ofan gefa augljóslega til kynna.
Guðrún og glasið. Fjári fínt par það.
Eins gaman og þetta hefur verið þá geri ég mér enga grein fyrir því hvernig þættirnir koma út. Dómstóll götunnar hræðir mig. Ég hef verið tekin nokkrum sinnum fyrir á hinum ýmsu kommentakerfum síðan ég byrjaði að blogga. Alveg virkilega óskemmtileg lífsreynsla. En maður getur víst ekki verið allra. Er það nokkuð?
Ég bind auðvitað allar mínar vonir við að þið hafið gaman að nokkuð óviðeigandi konu. Mjög óviðeigandi á köflum (sorrý mamma). Svona sæmilega drykkfelldri. Sem eldar ekkert nema popp.
Ég fer í loftið fimmtudaginn 17.júlí.
Þið náið iSTV á stöð 7 í gegnum dreifikerfi Símans og á stöð 24 hjá Vodafone.
Jæja. Ég og afkvæmið erum að éta ostapopp og horfa á jólamynd. Já í júlí.
Heyrumst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.7.2014 | 15:06
Hádegisverður fyrir einn
Fyrir einn, tjah - mögulega tvo. Tvo matgranna. Sem ég er ekki. Alls ekki.
Þessi uppskrift kemur frá einni úr saumaklúbbnum mínum fyrir austan.
Salsa með kotasælu (lítil uppskrift)
1 lítil dós kotasæla
Rúmlega hálf krukka af salsasósu
1/2 rauðlaukur
1/2 paprika
1/2 gúrka
1 tómatur
Smyrjið kotasælunni í botninn á litlu eldföstu móti. Salsasósan þar ofan á.
Saxa grænmetið. Blanda því saman. Hella yfir.
Voilá!
Þetta salsa er gott með öllu. Hrökkbrauði, Doritosi eða bara hakka það í sig með skeið. Beint upp úr fatinu.
Ég hefði nú skorið grænmetið smærra ef ég sæti ekki ein við átið. Á náttsloppnum. Klukkan þrjú að degi til. Að þamba 2ja lítra Pepsi max af stút.
Agalega ferskt og gott.
Á morgun ætla ég að bjóða ykkur upp á dásamlega fínan gjafaleik.
Ekki missa af því.
Heyrumst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.7.2014 | 23:52
Fimm hlutir á fimmtudegi
Glimmernaglalakk. Minn besti vinur og helsti óvinur. Dásamlega fallegt en ó svo óþolandi. Það er eiginlega fátt erfiðara en að ná þessum fjanda af nöglunum. Næstum eins og að fæða barn.
Það eina sem dugar er að bleyta bómullarhnoðra í acentoni, leggja á nöglina og pakka henni inn í álpappír. Gefa þessu sirka fimm mínútur og fokking glimmerið rennur af.
Stundum borða ég alveg hollt. Fátæklegt salat fékk alveg dásamlega andlitslyftingu um daginn þegar ég smellti þessum ostaflögum yfir það. Þetta er einhver svona þurrkaður ostur. Held ég. Ég veit ekki. Ostur er góður í hvaða formi sem er. Gæti baðað mig upp úr mygluostum alla daga. Alltaf.
Uppáhalds hárgreiðslan þessa dagana. Þarf ekki einu sinni að greiða mér. Hárband á hausinn og troða hárinu ofan í.
Fæða fyrir sálina. Þegar sálin er lúin þá er þetta eina leiðin til þess að lyfta henni upp.
Eh. Næstum eina leiðin. Þetta er fjári fín leið líka.
Nei. Ég kaupi aldrei dýrt vín. Þetta rennur allt jafn auðveldlega ofan í mig. Óþarfi að spreða.
Ég var að skrölta um Smáralindina í dag. Datt inn í Megastore að venju. Þar fann ég þessa ljómandi fínu poppskál. Popp er auðvitað ein helsta uppistaðan í fæðu minni. Ég þarf að eiga fallegt ílát.
298 krónur. Ég læt það nú eiga sig.
Ó, ég fann líka Kool-Aid í Megastore. Ég ætla mér nú ekki að drekka það óblandað. Nei. Ég ætla í einhverjar stórfenglegar kokteilatilraunir með það um helgina. Sjáum hvað setur.
Heyrumst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Guðrún Veiga
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.9.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar