9.7.2014 | 15:24
PiparmyntusúkkulaðiPOPP
Nei, ég var ekki að horfa á HM í gærkvöldi. Hreint ekki. Ég var að njóta ásta með nýjustu poppafurð minni sem leit dagsins ljós hérna í Breiðholtinu í gær.
Ó, halló besta kex í heimi. Fyrir utan Oreo.
Eruð þið spennt að sjá hvert ég er að fara með þetta?
Piparmyntusúkkulaðipopp:
Rúmlega 1/2 poki Stjörnupopp
10 Viscount kexkökur
1 poki súkkulaðidropar
1 stykki Pipp
Þið ættuð að vera farin að kunna verkferlið í kringum poppframkvæmdir.
Bökunarpappír á ofnplötu og poppið þar ofan á.
Söxum kexið í grófa bita.
Bræðum saman Pippið og súkkulaðidropana.
Hellum súkkulaðiblöndunni yfir poppið og hrærum vel.
Hendum kexinu saman við og hrærum, hrærum og hrærum.
Inn í ísskáp í góðar 30 mínútur. Sleikja skeiðina, skurðarbrettið og pottinn.
Sennilega jafn gott og að fara í sleik við Gordon Ramsay.
Hrikalega ljúffengt. Alveg hrikalega.
Heyrumst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.7.2014 | 22:18
Mæðginin
Æ, ég er að eiga svo góða daga. Afkvæmið er í Breiðholtinu og það er fátt sem gerir mig jafn hamingjusama.
Stundum fæ ég að vísu kaldan hroll niður bakið þegar ég er að eiga samskipti við hann. Það er nákvæmlega eins og ég sé að tala við sjálfa mig. Sísvangur þverhaus sem hefur skoðun á öllu. Lítil sjö ára jarðýta.
Hann gat ómögulega skilið af hverju hann mátti ekki gefa manninum 5000 kallinn sem var að þvælast í veskinu mínu. ,,Sérðu ekki að hann er mjög fátækur mamma? Hann er í rauðum buxum og fer aldrei í klippingu."
Litla jarðýtan hefur líklega horft á Titanic móður sinni til samlætis aðeins of oft. Þarna stóð hann á bakkanum og tuðaði I´m the king of the world.
Oh. Það er svo gaman að hafa einhvern til að borða með.
Ansi hamingjusamur með mömmu sína þarna. Lasagne með hvítlauk og sólþurrkuðum tómötum. Hann myndi éta fatið upp til agna hefði hann frjálsar hendur.
Örlítil popptilraunastarfsemi að loknu lasagneáti. Þá sjaldan.
Hann rumskaði þegar ég skreið upp í rúm til hans í gærkvöldi. Stakk sér beinustu leið undir mína sæng og hjúfraði sig svo fast upp að mér að ég varla náði andanum. Svo hvíslaði hann ,,þú ert svo góð mamma að ég veit bara ekki hvað ég á að gera við þig."
Búmm. Ef einhver getur sprengt mitt ískalda hjarta þá er það þessi. Fer alveg með mig stundum. Ótrúlega hlý og saklaus lítil mannvera.
Jæja. Nóg af væmnu barnatali.
Heyrumst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.7.2014 | 23:40
Laugardagskvöld í Breiðholtinu
Nýjasta matarmanían. Spergilkál, skinka, paprika, rauðlaukur og nýrnabaunir steikt á pönnu. Ásamt vænni slummu af Sweet Chilli sósu.
Pönnumixinu er síðan blandað saman við icebergsalat, rauðlauk og tómata. Ásamt annarri vænni slummu af Sweet Chilli sósu.
Guðdómlega gott. Ég borðaði þetta í gær. Fyrrakvöld. Í kvöld. Hræódýrt líka. Ég er einmitt að safna mér fyrir kápu sem ég rakst á um daginn.
Sú söfnun gengur reyndar hreint ekki vel. Mér til varnar þá kosta vintagekjólar í Gyllta kettinum ekki nema 3000 krónur. Ekki hörðustu naglar standast slíkt verðlag. Né aumar smásálir eins og undirrituð sem mega ekkert fallegt sjá án þess að rífa upp kortið sitt.
Þrjú þúsund. Sex þúsund. Ég hætti að telja þúsundkallana sem ég eyði í kjóla fyrir mörgum árum síðan.
Laugardagskvöld að mínu skapi - ný naglalökk og rauðvínsglas. Eða glös.
Eftir bara eina umferð. Þarf ekki meir. Barry M er best.
Í s-inu mínu. Með andlitið ofan í rauðvínsglasinu. Hárbandið liggur þarna ofan á hausnum á mér af því ég er að reyna að ákveða hárgreiðslu fyrir upptökur morgundagsins. Ég mæti ekki hárbandslaus í þær. Aldeilis ekki.
Hvet ykkur til þess að gera ykkur ferð í Ikea á morgun. Útsala og svona.
Ég mun sötra rauðvín ásamt stórvinum mínum þeim Begga og Pacas í eldhúsdeildinni á efri hæðinni. Jú og elda líka. Ég ætla einmitt að bjóða þeim upp á popp löðrandi í hnetusmjörskaramellu.
Kíkið við. Ég gef ykkur smakk.
Heyrumst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.7.2014 | 21:02
Flugferð með sjö ára hrakspámanni
Ég og afkvæmi mitt flugum saman suður á þriðjudagskvöldið síðasta. Það er ekki í miklu uppáhaldi hjá mér að fljúga. Alveg bara alls ekki. Ég hef nú haft orð á því nokkrum sinnum áður - meðal annars hérna.
Að vera í aðstæðum sem ég hef ekki fulla stjórn á er einfaldlega ekki minn tebolli.
Það er hinsvegar fátt sem heillar afkvæmið jafn mikið og flugvélar. Hann er enn svo lítill og saklaus að fyrir honum er hugmyndin um að flugvélin geti hrapað alveg æsispennandi. Bara eins og um sé að ræða hið besta diskótek. Smá fútt í mögulega tíðindalitla flugferð. Ekkert til þess að vera hræddur við. Iss.
Það var ömurlegt veður á Egilsstöðum þegar við fórum í loftið og ókyrrðin eftir því. Ég sat með augun kyrfilega lokuð, orðin blóðlaus í fingrunum og við það að missa saur þegar afkvæmið hefur upp raust sína.
Hann var nota bene skælbrosandi og iðandi sér í takt við ókyrrðina.
Afkvæmi: Þú þarft ekkert að klæða mig í björgunarvestið þegar við hröpum.
Ég: .....ha? Ekki tala. Það er bannað að tala í flugvélum.
Afkvæmi: Nei, ég kann sko alveg að klæða mig sjálfur í það. Þú skalt bara flýta þér í þitt.
Ég: Hættu. Uss. Það er enginn að fara í neitt fjárans björgunarvesti.
Afkvæmi: Nei ekki núna. Bara á eftir.
Ég: Suss. Lestu bókina þína. Eða finndu þér annan sessunaut.
Afkvæmi: Annars þarftu ekkert að fara í vestið...
Ég: Nei ég veit. Við lendum í Reykjavík eftir smástund.
Afkvæmi: ...nei sko, þú deyrð hvort sem er bara strax og þú dettur í sjóinn.
Ég: Valur Elí - ég get svo guðsvarið fyrir það!
Afkvæmi: Bara búmm (klappar saman lófunum með tilheyrandi hávaða) maður dettur svo fast. Búmm. Dáinn.
Einfalt mál. Dettur í sjóinn. Búmm. Dáinn.
Af hverju er ekki boðið upp á áfengi í innanlandsflugi?
Heyrumst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.7.2014 | 16:21
Hnossgæti á miðvikudegi
Nei, ég er hvergi nærri hætt tilraunastarfsemi minni með saltkringlur.
Þessi tilraun heppnaðist stórkostlega. Hvílíkt hnossgæti. Enda er hnetusmjör þarna í broddi fylkingar. Þá getur ekkert klikkað. Aldrei.
Súkkulaði - og hnetusmjörssaltkringlur:
150 gr hvítt súkkulaði
1/4 bolli fínt hnetusmjör
50 gr mjólkursúkkulaði
Saltkringlur
Byrjum á því að bræða hnetusmjörið og hvíta súkkulaðið saman.
Setjum bökunarpappír í eldfast mót og hellum blöndunni þar ofan í.
Bræðum mjólkursúkkulaðið og skvettum því yfir. Hér er svo ágætt að renna með hníf í gegnum blönduna.
Þá jafnast hún út og fær fallegt mynstur.
Þrýstum saltkringlunum ofan í gúmmelaðið.
Inn í frystir með þetta í góðan klukkutíma.
Ó, boj.
Hnetusmjör. Súkkulaði. Salt.
Himneskt.
Heyrumst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.6.2014 | 22:15
Samfestingafréttir
Ég verð að sýna ykkur dýrðlega samfestinginn minn úr Vila. Hann er hreinlega það fallegasta sem til er. Fyrir utan afkvæmi mitt. Já og Bubba.
Það er ákaflega erfitt að ná mynd af mér standandi. Ég kann vel við það að sitja á rassinum. Stend ekkert að óþörfu.
Þessi mynd var tekin á barnum á Seyðisfirði í gærkvöldi. Undirrituð ansi heimilisleg að gæða sér á Expresso Martini.
Sjáið hvað hann er glitrandi fínn?
Nei, ég hef engar haldbærar útskýringar á því hvað er að eiga sér stað á þessari mynd.
Já. Þarna voru glösin sennilega orðin svona þrjátíu og þrjú. Hér um bil.
Rúsínan í pylsuendanum: opna bakið.
Ég biðst líka afsökunar á að hafa stolið þessu glasi.
Mikið sem var ógurlega gaman í gær. Meira um það síðar.
Heyrumst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.6.2014 | 18:56
Blómabarnið
Blæti mitt fyrir blómum er agalegt. Blæti mitt fyrir samfestingum er ennþá verra.
Ég hugsa þess vegna ekki skýrt þegar ég sé blómamynstraða samfestinga. Það slær bara einhverju saman í höfðinu á mér. Mér stendur nokkuð á sama þó ég fái aldrei að borða aftur og þurfi að fara allar mínar ferðir fótgangandi fram að mánaðarmótum. Samfestinginn verð ég að eignast.
Þessi kom með mér heim úr Gyllta kettinum fyrir helgi. Við erum ástfangin.
Ég er svo kattliðug í svona samfestingum. Jú og kynþokkafull. Ef það er ekki ástæða til þess að eiga nóg af þeim.
Ég kom einmitt auga á einn í Vila í gær. Svartan með bleiku glitri einhverskonar. Almáttugur hjálpi mér. Opinn í bakið. Svo gullfallegur og einmana á einhverju ljótu herðatré. Aleinn. Hvíslandi nafn mitt svo blíðlega.
Andskotinn. Ég sæki hann.
Heyrumst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.6.2014 | 21:04
Hollustunasl
Nei, ég er að ljúga. Hollustunasl?
Ekki að ræða það.
Guð á himnum sko - þetta er svo gott. Salt, súkkulaði og karamella. Hver þarf mann þegar það er vel hægt að njóta ásta með mat? Mmm.
Saltkringlur með súkkulaði og karamellu:
Hálfur poki saltkringlur
1 bolli smjör
1 bolli púðursykur
2 bollar af súkkulaði
Gróft salt
Setjið bökunarpappir í sæmilega stórt eldfast mót. Raðið saltkringlum á botninn.
Bræðið saman smjör og púðursykur. Leyfið blöndunni að þykkna með því að láta hana sjóða í smástund.
Hellið karamellunni yfir saltkringlurnar og hendið þessu inn í ofn á 175° í fimm mínútur.
Kippið mótinu út úr ofninum, hellið súkkulaðinu yfir og aftur inn í ofn með þetta í eina mínútu.
Smyrjið mjúku súkkulaðinu jafnt yfir.
Inn í frysti með þetta í góðan klukkutíma.
Stráið fáeinum saltkornum yfir dýrðina að lokinni fyrstingu.
Ég ætlaði að fá mér einn bita með kaffibollanum eftir kvöldmat.
Ég er sennilega að japla á þeim átjánda.
Heyrumst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.6.2014 | 23:01
Í gær
Í gær prýddu þessar eitt eldhúsið í Ikea. Við skáluðum og blöðruðum eins og vindurinn. Jú og elduðum aðeins líka. Elsku Tara Brekkan förðunarfræðingur sá um að gera okkur sómasamlegar - ég legg til að þið kíkið á þessa síðu. Dásamlega hæfileikarík stelpa.
Ég fékk líka að þukla á brjóstunum á Völu. Eða fékk er kannski ekki rétta orðið. Ég gerði það bara.
Þið megið bíða spennt eftir þessum þætti. Hún kenndi mér einnig á Tinder þannig að ég verð sennilega gengin út næst þegar þið heyrið frá mér.
Eftir upptökur brunaði ég á ljóshraða heim í Breiðholtið og riggaði upp einu stykki matarboði.
Þið getið séð fleiri myndir úr þessari gleði í Morgunblaðinu á næsta sunnudag.
Ég eyddi 18 klukkutímum á háhæluðum skóm í gær. Misbauð líkama mínum gróflega með þeim gjörðum. Enda hef ég ekki hreyft mig í allan dag. Ef ég væri hjúkrunarfræðingur hefði ég sett upp þvaglegg hjá mér.
Ég er einmitt að ljúka við fjórða Pepsilítrann þannig að klósettferðirnar hafa verið ófáar og algjört óþarfa álag.
Jæja. Ég þarf að klára þessa pizzu. Já og brauðstangasósuna mína. Ég panta alltaf eina slíka dollu og borða hana með skeið. Namm.
Heyrumst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.6.2014 | 15:57
Með brókina í töskunni
Líf mitt er röð vandræðalegra atvika. Seinheppni, vesen og vandræðalegheit er eitthvað sem ég fékk í vöggugjöf og er orðin ansi hreint sjóuð í.
Ég skoppaði létt á fæti út úr vinnunni áðan. Á bílastæðinu hafa undanfarið verið einhverjir smiðir að bardúsa. Einn og einn myndarlegur inn á milli - ekki það að ég hafi veitt því sérstaka athygli og farið óvenju mikið máluð í vinnuna undanfarið. Alls ekki.
Ég var að valsa í öllum mínum þokka yfir bílastæðið áðan þegar einn vindur sér að mér og fer að ræða við mig um stöðina. Hvenær hún fari í loftið og hvernig gangi. Ég stend þarna á spjalli við hann, flissandi, sveiflandi hárinu og svona - þið vitið, eins og maður gerir. Á meðan ég er að blaðra er ég með höndina ofan í töskunni minni að fiska upp bíllyklana.
Ég næ taki á lyklakippunni eftir gott grams, held í einn lykilinn og byrja að klóra mér á kinninni með honum. Maðurinn hættir skyndilega að tala og horfir bara á mig. Á því augnabliki finn ég að það er ekki bara lykill að strjúkast upp við andlitið á mér. Nei. Það er eitthvað annað að þvælast þarna líka.
Ó, já. Ég veiddi brók upp úr töskunni minni ásamt lyklakippunni. Þarna flagsaði hún bara eins og fallegur fáni í vindi. Í andlitinu á mér og nánast í andlitinu á honum líka. Mér varð auðvitað svo mikið um þegar ég áttaði mig á hvað væri að eiga sér stað að ég byrjaði að reyna að hrista brókina af lyklakippunni. Það skilaði mér litlu. Í öllum látunum flaug hún loks af kippunni og á skóinn hjá vesalings manninum.
Á þessu andartaki dó stór hluti af mér þannig að atburðarrásin er hálf móðukennd. Ég held að ég hafi hrifsað nærbuxurnar mínar af götunni og hlaupið í burtu.
Jæja. Ég hugga mig við að þetta eru fallegar nærbuxur. Hlébarðamynstraðar og fínar. Hreinar líka. Svo því sé haldið til haga.
Þær voru einungis meðferðis af því ég var að fara til læknis eftir vinnu. Lykilatriði að fara í hreinum nærfötum til læknis. Algjört. Það er samt ekkert að mér sko, þarna niðri neitt. Oj bara.
Jesús, ég er hætt.
Heyrumst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Guðrún Veiga
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.9.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar