10.5.2014 | 17:35
Heimsins bestu pönnukökur
Ég framkvæmdi þessa beikonpönnukökutilraun í morgun. Guð minn almáttugur sko.
Hvílíkur unaður. Unaður segi ég.
Ókei - kransæðarnar í mér grétu en ég er nú svo sem ekki vön að taka mikið tillit til þeirra. Fer ekkert að byrja á því núna.
Beikonpönnukökur:
4 desilítrar hveiti
3 teskeiðar lyftiduft
1 teskeið salt
2 matskeiðar sykur
4 matskeiðar olía
2 og 1/2 desilítri mjólk
2 egg
Beikon
Öll þurrefnin eru mæld saman í skál. Olíu, mjólk og eggjum bætt við. Hrært þangað til mixtúran er kekkjalaus og fín.
Ég ætlaði að sjálfsögðu að fara mun auðveldari leið í þessum bakstri og kaupa pönnukökumix í flösku. En ég er stödd í mínum ástkæru heimahögum fyrir austan og þar var slíkur munaður ekki fáanlegur í morgun.
Deigið klárt.
Steikið beikonið létt báðum megin.
Sullið deigi yfir eina beikonsneið í senn. Þetta má alveg vera ólögulegt. Það er öllum sama. Þegar beikon er aðalinnhaldið þá skiptir útlit engu máli. Ekki nokkru einasta.
Ó, ljúffeng beikonfitan mallar saman við deigið og gerir bragðið af pönnukökunum betra en kynlíf í fullu baðkari af rauðvíni.
Smellum smjörklípu og sýrópi yfir. Kveðjum kransæðarnar og góða hjartaheilsu.
Það besta sem hefur farið inn fyrir mínar varir lengi.
Eigið ljómandi gott kvöld mín kæru.
Heyrumst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.5.2014 | 20:01
Kvöldverður fyrir einn
Banani, pylsubrauð, hnetusmjör og sulta.
Eruð þið hætt að lesa? Þetta er gott. Ég lofa.
Ég býð ykkur aldrei upp á neitt vont. Látið ekki svona.
Vænn skammtur af hentusmjöri í pylsubrauðið. Eða bara ógeðslega mikið. Það er allavega ekki til neitt sem heitir of mikið.
Bananinn í brauðið og sulta ofan á.
Eins og besti veislumatur.
Heyrumst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.5.2014 | 00:40
Barry M
Í hádeginu á morgun opnar ný vefverslun með vörur frá Barry M. Þar verður hægt að versla sér gersemar á borð við varaliti, naglalökk, augnskugga, naglalökk og aðeins fleiri naglalökk.
Sigríður Elfa - eigandi búðarinnar, var svo væn að bjóða útúrtaugaða naglalakkssjúklingnum í kaffisopa og örlítið forskot á sæluna.
Mitt pastelóða hjarta tók kipp yfir þessum.
Ó, mig langaði að ferja þau öll með mér heim. Hvert eitt og einasta.
Það voru einungis þrjú stykki sem fengu heimboð í Breiðholtið að þessu sinni. Þeim mun þó sennilega fjölga ört.
Þetta eru nefnilega alveg merkilega góð lökk. Ég hef stundum keypt þau í útlöndum. Fá hiklaust mína gæðavottun.
Svart og matt. Alveg ofsalega fínt.
Hægri höndin á mér lítur stundum út eins og skjálfhentur vörubílsstjóri hafi naglalakkað hana.
Þá kemur þessi aldeilis til bjargar. Það er nefnilega fátt minna lekker en illa lakkaðar neglur.
Maður strýkur pennanum í kringum nöglina og voilá - fullkomin lökkun. Svona næstum því.
Ég hvet ykkur til að kíkja á Facebooksíðu Barry M - það er einmitt leikur í gangi þar núna. Vefverslunin opnar svo um hádegisbil að mér skilst.
Heyrumst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.5.2014 | 14:22
Mjóddarferð á föstudegi
Það er orðin viðtekin venja að ég rigsi um Mjóddina á föstudögum. Beinustu leið í búðina hjá Rauða krossinum.
Ég er auðvitað flóamarkaðsfíkill og gramsari par exelans. Ykkur er því óhætt að trúa mér þegar ég segi að þessi búð í Mjóddinni er ein sú besta. Ég fer aldrei þaðan tómhent. Yfirleitt valhoppandi af æsing og ánægju. Faðmandi veskið mitt af hamingju yfir því að eiga ný föt og ennþá peninga fyrir mat.
Í gær gerði ég kaup ársins. Aldarinnar jafnvel.
Þessi jakki sko. Ég fæ andateppu.
Hann er svo fallegur. Dásamlega fínn alveg. 1200 krónur. Já. Tólfhundruð. Einn þúsundkall og tveir hundraðkallar.
Þessi elska var á sama verði. Alltof stór en kemur voðalega vel út. Ég sé hann fyrir mér við hvítar þröngar gallabuxur. Sem ég á að vísu ekki til. En jæja.
Ég féll kylliflöt fyrir þessum hnöppum. Þeir minna mig á ömmur mínar.
Hér og hér má lesa um önnur skipti sem ég hef rigsað um búðir Rauða krossins.
Jæja, ég er að fara á Esjuna.
Ef þið sjáið fréttir þess efnis að þangað hafi verið sótt afskaplega ung kona í andnauð - já, þá vitið þið um hverja ræðir.
Heyrumst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.5.2014 | 12:01
Fimm hlutir á fimmtudegi
Ég er dálítið veik fyrir þvi að prófa að dýfa pylsum í ýmislegt. Þá helst grilluðum - af því þær eru bestar. Um daginn prófaði ég BBQ-sósu og hnetusmjör. Þið haldið jú væntanlega að ég ætli að lýsa því fyrir ykkur hverslags hnossgæti þetta var.
Nei.
Ég játa að þetta voru mistök. Þó svo hnetusmjör eigi hér hlut að máli.
Uppáhalds Ikeamáltíðin. Grænmetisbuff - svo bið ég auðmjúklega um svona þrjár ausur aukalega af sósu.
Þarna er í bígerð ein besta eggjakaka í heimi.
Hér er um að ræða eggjaköku með banönum og gráðosti. Hún er síðan snædd með rifsberjasultu. Þetta er alveg glettilega góð samsetning. Bragðlaukarnir dansa. Ég get svo guðsvarið fyrir það!
Uppáhalds pizzan mín er á svipaðan máta. Þá set ég pizzasósu, banana, gráðost og meiri ost. Stundum reykta skinku ef vel liggur á mér. Snæði með sultu. Jafnvel rauðvínsglasi.
Draumur í dós.
Ég keypti þessa glæsilegu svefngrímu í Tiger í dag. Ég er með bráðaofnæmi fyrir íslenskum sumarnóttum. Líf mitt fer á annan endann og líkaminn á mér neitar að sofa.
Hefðbundinn háttatími í Breiðholti. Gríman var eingöngu keypt af því hún tónaði svo vel við svefnklæðin. Rassinn á mér er samt ekki heill fermeter þó þessi mynd gefi það til kynna. Hann er agnarsmár. Sver það.
Ómissandi hluti af vel heppnuðum háttatíma.
Heyrumst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.5.2014 | 13:30
Ég er voðalega dugleg að taka myndir af því sem ég er að bauka hverju sinni og henda inn á Instagram.
Þetta var staðan í eldhúsinu mínu alltof snemma í morgun. Öll mín uppáhalds hráefni samankomin. Hnetusmjör, beikon, popp og vodka.
Um hádegisbil mætti svo atvinnuljósmyndari í Breiðholtið. Að mynda matinn minn. Jú og mig. Ótrúlega skemmtilegt allt saman, fyrir mig þó aðallega - ekki ljósmyndarann. ,,Er ég með undirhöku?" ,,Sjást hrukkur á enninu?" ,,Þú setur mig ekki með undirhöku í blaðið!" ,,Var undirhaka?" ,,Ég finn ég er með undirhöku - sést hún?" ,,Kom haka - má ég sjá?"
Vesalings maðurinn þurfti stöðugt að segja mér að fara niður með hausinn af því ég teygði hann svo hátt upp í loft. Allt til að strekkja hökuna sko.
Ég neitaði líka að setja upp bros. Sannfærði hann um að ég notaði augun en ekki munninn til þess að brosa. Á endanum bað ég um að fá myndavélina og ljúka þessu máli sjálf fyrir framan spegilinn. Hann hafnaði því tilboði mínu.
Ef einhver hefði sagt við foreldra mína fyrir fáeinum árum að ég myndi einn daginn birtast í tímariti undir yfirskriftinni Matgæðingur þá hefðu þau sennilega talið líklegra að ég yrði fyrsta konan til þess að lenda á tunglinu. Þau gætu gefið út heila bók um þær hamfarir sem þau hafa séð af minni hálfu innan veggja eldhússins.
Þetta er sama kakan sko - á efri myndinni og þeirri neðri. Eini munurinn er að Jói Fel bakaði þessa fyrir ofan og ég hina. Söguna af þessu fíaskói má lesa hérna. Atvik sem fjölskyldan leyfir mér aldrei að gleyma.
Ég hvet ykkur að sjálfsögðu til þess að kaupa 19. tölublað af Vikunni þegar það kemur út. Þar verð ég og býð ykkur meðal annars upp á hnetusmjörs- og beikonsnittur. Ó, já.
Ég útvarpaði því á Facebook í gær að þessi væri að öllum líkindum á leið í sjónvarpið. Ég get eiginlega lítið sagt ykkur enn sem komið er. Þetta verður sjónvarpsþáttur. Með mér. Nægir það ekki bara?
Ég ætlast til þess að þið smellið einu like hérna - þá getið þið fylgst með þessu ævintýri.
Ég elska bakaðar baunir. Beikon auðvitað líka. Af öllu hjarta. Ekki hafa áhyggjur af baunamagninu. Ég er afar heppin - get borðað heilu dósirnar án þess að þarmarnir í mér veiti því sérstaka athygli.
Endum þetta á þessum litla öðling. Hann hringir stöðugt í mig. Ekki til þess að tala, heldur til að hafa mig í símanum. Harðbannar mér að skella á og leggur símtólið bara frá sér á meðan hann kubbar, borðar eða horfir á teiknimyndir. Athugar annað slagið hvort ég sé ekki örugglega þarna með honum.
Dásamlegt eintak sem hann er. Þessi litla elska.
Ykkur er velkomið að fylgja mér á Instagram - @gveiga85.
Heyrumst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.4.2014 | 21:42
Brownies með saltkringlum og karamellu
Þarf ég að hafa einhver orð yfir þetta gúmmelaði?
Ég held ekki.
Ég er voðalega hrifin af hvers kyns tilraunastarfsemi með Betty vinkonu minni Crocker.
Brownies með saltkringlum og karamellu:
Betty Crocker browniemix
Saltkringlur
Karamellusósa
Bæði er hægt að kaupa karamellusósu eða búa til sína eigin. Ég bjó til sósuna og notaðist við þessa uppskrift.
Browniedeigið er útbúið samkvæmt leiðbeiningum á kassa. Ég bætti við tveimur matskeiðum af vatni og einni af olíu til þess að gera það örlítið blautara.
Hálfberi sleikjarinn minn alltaf á vaktinni.
Setjið bökunarpappír í meðalstórt eldfast mót og skellið sirka helmingnum af deiginu í það.
Raðið tvöföldu lagi af saltkringlum ofan á.
Afgangurinn af deiginu fer síðan þar yfir. Inn í ofn með þetta á 180° í sirka 22 mínútur.
Vænu magni af karamellusósu sullað ofan á kökuna.
Fáeinum kornum af salti stráð yfir. Af því salt gerir allt betra.
Úff. Það er varla að ég nái að ropa á milli máltíða þegar ég er stödd hérna fyrir austan.
Breiðholtið mun reyndar heilsa mér á nýjan leik eftir tæpan sólarhring. Þá get ég snúið mér aftur að núðlum og niðursuðudósum.
Jæja, ég ætla að fara að faðma afkvæmi mitt. Heitt, fast og innilega. Svona áður en við kveðjumst enn eina ferðina í fyrramálið.
Bakið þessa köku!
Heyrumst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.4.2014 | 23:56
Fimm menn á föstudegi
Þetta er svo erfiður árstími. Lok apríl fram í miðjan maí. Lífið stendur í stað. Hárin undir höndunum vaxa óáreitt. Það er pepperonilykt af puttunum á manni og bingókúluslefa í munnvikinu. Hugmyndin um að skríða upp í rúm og reyna að kæfa sig með koddanum sínum verður virkilega freistandi.
Annað slagið eiga sér þó stað lærdómshlé. Hvað geri ég þá? Þvæ þvott? Þríf mig?
Nei.
Ég nenni því ekki. Ég kýs fremur að reyna að viðhalda lífsviljanum. Það geri ég með því að minna mig á það fallega sem veröldin hefur að geyma. Ég er ekki að fara að tala um sólarlagið, sumarnætur, ungabörn eða blómin sem ég keypti í Bónus í dag. Nei. Karlmenn. Ah, fallega karlmenn.
Gabriel Macht. Almáttugur. Ég sé hann auðvitað bara sem Harvey Specter í Suits. Mig langar að narta í eyrnasneplana á honum og strjúka á honum hárið. Hnýta bindishnútinn hans á morgnana og narta aðeins meira í eyrnasneplana á honum.
Clive Owen. Ég man ekki hvað ég var gömul þegar kvikmyndin King Arthur kom í bíó. Ég kunni allavega ekki að keyra og grátbað pabba minn um að koma með mér í bíó undir því yfirskini að ég væri svo ægilega hrifin af ævintýramyndum.
Meira kjaftæðið sem það var. Þessi bíóferð var einungis til þess að berja Clive augum.
Josh Brolin. Hann er eitthvað svo hæfilega subbulegur. Sexý subbulegur. Er það til?
Javier Bardem. Ég myndi ekkert mótmæla því harðlega ef einhver skipaði mér að nugga nefinu í þessa skeggrót. Nafnið hans líka - fer svo vel á vörum. Úff, það eitt og sér skilur mann reyndar eftir með logandi lendar.
Gabriel Byrne. Munið þið þegar hann lék sjálfan Djöfulinn í End of Days? Ég var svona 13 ára minnir mig. Ég elskaði hann svo undurheitt og blítt. Þangað til mamma hóf að skamma mig fyrir að vera sífellt að prenta út myndir af honum.
Hann er nota bene fæddur árið 1950. Pabbi minn er fæddur árið 1962. Mig skal ekki undra þó þessar útprentanir hafi stuðað móður mína.
Ég svo sem hef áður verið krossfest fyrir smekk minn á karlmönnum - sjá til dæmis hér og hér.
Jæja. Aftur í bækurnar.
Heyrumst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.4.2014 | 22:55
Súkkulaðibitakökur með beikoni
Nei, þið eruð ekki að sjá ofsjónir og nei ég er ekki farin yfir um. Eða ég svona rétt hangi á brúninni. Bara eins og venjulega.
Einhverjir muna kannski eftir því þegar ég tók mig til og súkkulaðihjúpaði beikon - nánar um það hér.
Það var alveg glettilega gott. Beikonsmákökur voru því í mínum huga tilraun sem eiginlega gæti ekki misheppnast. Hvað getur svo sem misheppnast þegar beikon er annars vegar? Ég gæti vel unað mér við að liggja í beikonfitu alla daga. Alltaf.
Súkkulaðibitakökur með beikoni:
3/4 bolli mjúkt smjör
2 matskeiðar beikonfita (nei, ekki hætta að lesa núna!)
1 bolli púðursykur
1/2 bolli sykur
2 egg
1 teskeið matarsódi
1 teskeið vanilludropar
2 og 1/4 bolli hveiti
1 bolli dökkir súkkulaðidropar
1/2 bolli ljósir súkkulaðidropar
200 grömm beikon
Byrjum á að steikja beikonið. Jú og hérna já - næla okkur í sirka tvær matskeiðar af beikonfitu á meðan steikingu stendur.
Æ, hvað er smá beikonfita á milli vina?
Hrærum saman sykurinn, smjörið, púðursykurinn og beikonfituna.
Egg og matarsódi saman við. Hrærum vel.
Síðan hendum við hveiti og vanilludropum í skálina. Hrærum aðeins meira.
Súkkulaðið ofan í.
Ó boj, ég er svo mikill beikonöfuguggi. Mér líður eins og ég sé að setja inn klám.
Hrærum þessi unaðslegheit vel og vandlega saman.
Mótum litlar kúlur úr deiginu og bökum þær í sirka 8 mínútur við 185°.
Ég lofaði aðeins of langt upp í ermina á mér þegar ég sagðist ætla að snúa mér að heilsuréttum eftir páska.
Slíkt fer mér bara ekki.
Ekki frekar en ljóst hár, bleik föt eða fallegur bíll. Ég er best geymd með beikonfitu í munnvikinu, keyrandi um á 15 ára gamla Yarisnum mínum.
Þessar kökur koma skemmtilega á óvart. Lofa.
Heyrumst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.4.2014 | 21:00
Mánudagsverkefni: smokey-eye
Ég sagði ykkur frá því hérna að ég hefði verið fengin til þess að prófa vinsælar vörur frá ELF. Við skulum halda aðeins áfram með það verkefni.
Í gær lék ég mér með þessa ljómandi fínu pallettu. Stútfull af fallegum jarðlitum einhverskonar.
Dálítil áskorun fyrir mig - ég er konan sem ykkur gæti orðið starsýnt á einhversstaðar á förnum vegi af því að hún skartar gulum augnskugga með grænni skyggingu. Fjólublátt og grænt er einnig blanda sem ég hef sést með. Bleikt. Blátt. Já - ég verð allavega seint tengd við jarðlitina.
Ég byrjaði á að brúka þessa vöru. Leikmaðurinn sem ég er þegar kemur að förðun hafði hreinlega aldrei heyrt um þetta áður. Primer fyrir augnlok. Allt í lagi.
En þetta er ótrúlega sniðugt. Augnskugginn helst betur á og klessist ekki - þið vitið, í krumpurnar á augnlokinu og svona. Satt best að segja var augnskugginn ennþá í ljómandi fínu standi þegar ég vaknaði með hann á mér í morgun.
Æ, stundum er maður bara of lúinn. Annað veifið er þreytan slík að valið stendur einfaldlega á milli þess að bursta tennurnar eða þrífa andlitið. Að framkvæma bæði án þess að deyja Guði sínum á baðherbergisgólfinu er með öllu ómögulegt.
Tennurnar hafa alltaf vinninginn. Ég þjáist af krónískum ótta við að fá ljótar tennur. Blæti mitt fyrir fallegum tönnum er einnig kafli út af fyrir sig.
Ef ég skoða listann yfir þau tíu númer sem mest hefur verið hringt í úr símanum mínum þá er tannlæknirinn á Reyðarfirði þar mjög ofarlega. Mig má ekki klæja í góminn þá hef ég verið mætt inn á gólf hjá honum.
Iðulega handviss um að ég sé komin með banvæna veirusýkingu í allt tannholdið og það þurfi sennilega að rífa allt stellið úr.
Aldeilis sem hann hefur örugglega verið feginn að losna við mig í Breiðholtið.
Já. Við vorum að tala um Primer fyrir augnlok. Merkilega gott fyrirbæri. Þið finnið hann hérna.
Vindum okkur á minn uppáhalds stað. Í spegilinn.
Ómáluð og úr fókus.
Nei, ég var ekki mígandi full hérna á afmælisdaginn og síðasta dag páska. Ég var að gera einhverja tilraun til þess að hafa augun svona hálflokuð og seiðandi. Vel heppnuð tilraun augljóslega.
Svona eftir á að hyggja hefði eyelinerinn ofan á augunum alveg mátt missa sig. Hann er eiginlega of mikið.
Ég notaði þetta myndband mér til stuðnings í þessu verkefni. Youtube er jú minn helsti bandamaður þegar kemur að förðun.
Jæja, nóg um það. Á morgun ætlum við svo að snúa okkur aftur að beikoni. Langt síðan síðast. Bakstri með beikoni nánar til tekið.
Ó, já. Ég sagði bakstur.
Heyrumst.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Guðrún Veiga
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.9.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar