21.4.2014 | 12:10
Tuttuguogeitthvað
Það var ansi notalegt að fá að vakna við hliðina á þessum á sjálfan afmælisdaginn. Núna er klukkan 11:16 og hann er ennþá sofandi. Blessaður anginn. Ég skrifa þessar svefnvenjur á stórkostlegt uppeldi. Eða mögulega lélegt uppeldi af því hann fær stundum að vaka dálítið lengi.
Stórkostlegt, lélegt - skiptir engu. Barnið getur sofið fram að hádegi. Það er það sem máli skiptir.
Ég virðist deila afmælisdegi með frægasta bloggara Svíþjóðar, henni Kenzu. Hún var svo væn að setja mynd inn á Instagram í morgun.
Þetta er afmælismorgunverðurinn hennar.
Minn var hinsvegar eitthvað á þessa leið.
Ég renndi svo yfir Instagram rétt í þessu og þá er hún komin í rándýrt bíkíni. Ofan í heitum potti með ferska ávexti og kampavín. Ég er í skítugum náttbuxum með gati á rassinum. Kaffið mitt er orðið kalt og mig langar í beikon.
Ég deili þessum afmælisdegi með fleirum. Til dæmis Elísabetu Englandsdrottingu. Jú og Andie MacDowell - einni af mínum uppáhalds leikkonum. Merkiskonur það.
Jæja, ég ætla að fara að njóta dagsins míns. Sennilega ekki á sama hátt og Kenza eða Elísabet Englandsdrottning. Gæðum heimsins er víst misskipt.
Heyrumst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.4.2014 | 23:49
Salted Caramel Mocha
Ég skal færa mig yfir í heilsuréttina eftir páska. Ég lofa.
Þetta er einn dýrðlegur kaffibolli. Almáttugur minn.
Salted Caramel Mocha:
Fyrst þarf að úbúa karamellusýróp:
1/2 bolli sykur
3 matskeiðar smjör
1/4 bolli rjómi
Önnur innihaldsefni í þessum dásemdarbolla:
Bolli af nýlögðu kaffi
2 matskeiðar af ofangreindu karamellusýrópi
Örlítið salt
2-3 teskeiðar kakó (sætt kakó - ekki það sem notað er í bakstur)
Þeyttur rjómi
Byrjum á því að bræða sykurinn við vægan hita. Þegar hann er kominn í fljótandi form hrærum við smjörinu vandlega saman við. Að lokum rjómanum.
Hræra hrikalega vel. Voilá - sýrópið er tilbúið.
Skellum kakói og dálitlu salti í stórt og gott glas.
Tvær vænar matskeiðar af karamellusýrópi út í. Síðan hellum við rjúkandi heitum kaffibolla saman við og hrærum. Þarna má líka smakka sig aðeins til. Bæta jafnvel við kakói eða salti. Kannski örlitlu sýrópi. Eða miklu. Helling helst.
Dýrðin toppuð með rjóma. Jú og sýrópi. Ferlega gott þetta sýróp. Fáein korn af salti eru einnig vel við hæfi þarna ofan á.
Ég fór örlítið geyst í rjómann með frekar sóðalegum afleiðingum.
Ég ryksugaði þetta af borðinu. Með vörunum. Notaði tunguna aðeins á tímabili líka. Hér fer ekki dropi til spillis.
Namm. Virkilega, virkilega gott!
Heyrumst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.4.2014 | 19:28
Oreohnetusmjörsbrownies
Allt í lagi. Þegar ég hef lokið við þessa færslu þá geng ég frá bölvaðri hnetusmjörskrukkunni. Svona í bili.
Ég lofa.
Þessar kökur. Ó, þessar kökur. Blaut súkkulaðikakan, mjúkt Oreokexið og unaðurinn sem fylgir því að fá hnetusmjör á tunguna. Ég á erfitt með að fara ekki út í klámfengnar og klúrar lýsingar.
Oreohnetusmjörsbrownies:
Betty Crocker browniemix
Oreokex - næstum tveir kassar
Hnetusmjör (ég notaði gróft en myndi nota fínt næst)
Stór muffinsform
Já. Þið sjáið rétt. Þetta eru tvö Oreokex með hnetusmjöri á milli.
Í muffinsform með þetta.
Útbúið browniemixið samkvæmt leiðbeiningum á kassa. Vænn skammtur af því fer svo í hvert form.
Ekki raða í ykkur heilli uppskrift af þessu heróíni á tæpum sólahring. Það veldur manni ófyrirséðum óþægindum. Já, ég tala af biturri reynslu.
Heyrumst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.4.2014 | 22:32
Sunnudagsverkefnið: kattaraugu
Mér finnst voðalega gaman að mála mig. Ég geri það ekkert alltof oft af því yfirleitt er ég alein að þvælast um á brókinni í Breiðholti - sótbölvandi skólabókum og ritgerðarskrifum.
Síðustu tvö ár eða svo hef ég verslað mikið við E.L.F á Íslandi. Merkilega ódýrar snyrtivörur miðað við gæði. Vegna þess hversu oft nafn mitt og bankanúmer hefur birst á skjánum hjá þeim var nálgast mig fyrir stuttu og ég beðin um að prófa nokkrar vinsælar vörur.
Þessi eyeliner kostar 500 krónur. Já. Ég sagði fimmhundruð! Mitt níska námsmannahjarta tekur kipp við það að skrifa þetta.
Þið finnið hann hérna.
Ég nota eyeliner mikið. Svo fljótlegt, fínt og einfalt dæmi (að því gefnu að ég sé ekki komin í glas).
Ég notaðist við aðferðina sem sýnd er í þessu ágæta kennslumyndbandi.
Ykkur er svo óhætt að setja ykkur í stellingar fyrir morgundaginn. Hann inniheldur meðal annars Oreokex, hnetusmjör og Betty vinkonu mína Crocker.
Heyrumst.
Bloggar | Breytt 14.4.2014 kl. 14:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.4.2014 | 00:07
Súkkulaðihjúpað Bugles með hnetusmjörsfyllingu
Ég er mesti hnetusmjörsvinur undir sólinni. Í Breiðholtinu fjúka að minnsta kosti tvær krukkur á viku. Ég treð hnetusmjöri á svo gott sem allt sem ég borða. Nýlega hef ég svo þróað með mér blæti fyrir því að hnetusmjörsfylla allan fjandann.
Framkvæmdirnar krefjast eftirfarandi hráefna:
Bugles
Hnetusmjör
Þetta er fáránlega ljúffengt.
Saltbragðið. Súkkulaðið. Hnetusmjörið. Brakið í Buglesinu.
Bragðlaukarnir dansa. Ég lofa.
Hnossgæti par exelans.
Heyrumst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.4.2014 | 13:01
Blómaklakar - af því það er komið vor
Það væri nú sérlega lekker að nota svona klaka í kokteilagerð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.4.2014 | 15:53
Breiðholtsfréttir
Ég eldaði í gærkvöldi. Mér þykir réttast að koma því á framfæri eftir að hafa rekist á fáeina áhyggjufulla lesendur um helgina. Einn sagðist oft á tíðum hafa íhugað að skilja eftir matarpoka við dyrnar hjá mér. Annar reyndi að sannfæra mig um að popp væri ekki matur. Það gekk auðvitað álíka vel og samræður við ljósastaur. Hafði nákvæmlega ekkert upp á sig.
Áhyggjur af mér eru með öllu óþarfar. Fallegar en óþarfar. Ég er letihaugur sem nennir engri fyrirhöfn. Lýg í sjálfa mig að ég hafi engan tíma fyrir eldamennsku og ein dós af maísbaunum sé ljómandi máltíð. Tala nú ekki um ef ég galdra fram sósu með þeim.
Ég fann einmitt hvítlauk í ísskápnum í gær sem ég hugsa að ég hafi keypt þegar ég flutti inn í október. Þá ætlaði ég aldeilis að vera síeldandi. Alltaf með gesti í mat og svífa um með svuntuna fyllandi á vínglösin þeirra. Bjóða upp á dýrindis osta í forrétt og læra að búa til souffle að hætti Gordon Ramsay.
Ég fór á tónleikana með Bubba og Bó um helgina. Já þið sjáið rétt. Þetta er bakgrunnurinn á tölvuskjánum hjá mér.
Ég var að reyna að útskýra fyrir mági mínum og tónleikafélaga hvernig það væri fyrir mig að sjá Bubba á sviði. Það gekk fremur brösulega. Hann íhugaði sennilega að kasta mér í hafið við Hörpuna þegar ég sagði honum að mér liði eins og ég væri að fara á tónleika með Metallica.
Ég þarf að eignast svona pils. Hvar fæ ég tjullpils á Íslandi? Nei, það þýðir ekkert fyrir ykkur að koma með brandara um Prinsessuna í Mjóddinni. Ég er einu skrefi á undan ykkur þar og búin að kíkja.
Jæja.
Kaffi. Naglalökkun. Lærdómur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.4.2014 | 14:48
Laugardagssjúss
Það er laugardagur. Það er komið vor.
Ég vildi að ég hefði þann hæfileika að geta gefið kokteilunum mínum nöfn. Ég er vonlaus með nöfn.
Var ég búin að segja ykkur söguna af því þegar ég breytti um nafn á barninu mínu? Daginn fyrir skírn. Við vorum með ákveðið nafn í huga alla meðgönguna. Ég skrepp svo í bakarí sólarhring áður en afkvæmið er skírt og panta tertu með þessu ágæta nafni sem var löngu ákveðið. Um leið og ég segi nafnið upphátt þá nei. Nei. Þetta nafn passar ekki. Þannig að ég skipti bara. Konan í bakaríinu horfði á mig eins og ég væri á ellefta glasi.
Faðir afkvæmisins var líka ferlega hress þegar hann fékk símtal frá mér á leið minni úr bakaríinu. ,,Heyrðu, ég hætti þarna við nafnið." Einmitt já.
Allavega. Aftur að kokteilnum sem hefur ekkert nafn. Í framkvæmdirnar þarf:
Frosin vínber
Hálfa sítrónu
Hálft greip
Slurk af vodka
Fáein korn af sykri
Greip
Kreista safann úr bæði greipinu og sítrónunni. Örlítill sykur þar saman við.
Hella yfir vínberin.
Sjússa vodkanu saman við.
Að lokum er fyllt upp í glasið með gosinu - í svona nokkuð svipuðum hlutföllum.
Ótrúlega ferskur og góður.
Ég er að fara á Bubba í kvöld. Bubba.
Bubba!
!
Heyrumst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.4.2014 | 23:25
Fimm hlutir á fimmtudegi
Stundum langar mig í eitthvað voðalega gott kjöt. Með góðri sósu. Maísbaunum og rauðkáli. Bakaðri kartöflu jafnvel. En nei, ég tími bara alls ekkert að kaupa mér kjöt. Hvað geri ég þá? Nú ég bý mér til góða sósu og borða hana með maísbaunum og rauðkáli.
Mér var boðið í svo stórskemmtilega heimsókn í dag. Ég fór í Iðnmark og fékk að fylgjast með Stjörnupoppi fæðast. Poppdrottningunni þótti þetta nú ekki leiðinleg upplifun. Almáttugur. Ég fékk líka að smakka fullt. Vita leyndarmál. Þreifa á baunum. Þefa. Horfa.
Ég er með króníska þráhyggju hvað varðar sléttar tölur. Ef ég hækka eða lækka í sjónvarpi þá verður það að enda á sléttri tölu. Sama gildir um útvarpið. Þetta getur verið vandamál ef ég er til dæmis í bíl hjá ókunnugri manneskju og hún skilur útvarpið eftir á oddatölu.
Ég fæ alveg svona óþægindatilfinningu í magann. Líður stundum eins og hann ætli hreinlega að rifna. Ég byrja að svitna og finn hvernig undarleg sturlunin heltekur mig. Nei, ég ræð bara ekki með nokkru móti við mig. Ég læt vaða á helvítis útvarpið. Sama með hverjum ég er í bíl eða í hvaða aðstæðum.
Ég fann líka sokkapar með uppáhalds Disney prinsessunni minni. Sem passar á mig.
Ó, Öskubuska. Ég elska hana. Þegar ég var krakki var ég alltaf að leika atriðið þar sem hún missir glerskóinn sinn í tröppunum. Kirkjutröppurnar á Eskifirði voru leiksvið mitt. Ég var bara ein að leika þennan leikþátt með sjálfri mér. Eðlilega barnið sem ég var.
Jæja. Ég ætla að fá mér popp. Jú og rauðvín.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.4.2014 | 22:25
Þessi árstími
Ó, þetta er svo erfiður tími. Misserið að líða undir lok og manni langar frekar að ganga í sjóinn en að lesa eða skrifa stakt orð til viðbótar. Maður situr við allan daginn. Hættir að mála sig, greiða sér og klæða. Langar að gráta. Blóta. Öskra. Henda öllu draslinu á gólfið og kveikja í því. Kasta sér svo á helvítis bálið.
Mig langar að vera í vinnu frá átta til fjögur. Mig langar að draga andann án samviskubits. Mig langar að borða eitthvað sem ekki kemur úr pakka, niðursuðudós eða höndum heimsendils. Mig langar að hafa hreint hár. Mig langar að eiga hrein föt inni í skáp. Mig langar í frískt loft og súkkulaðihjúpuð jarðaber.
Já. Ég veit. Ég er ferlega dramatísk. Hef aldrei haldið öðru fram.
Ekki lít ég betur út. Ég er alltaf með skítugt hár þegar jóla- eða sumarfrí eru handan við hornið. Ég baða mig jú. En ég læt bara hárið á mér aldrei í friði. Er stöðugt fléttandi það, togandi í það eða strjúkandi.
Jæja. Áfram gakk.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Guðrún Veiga
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.9.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar