1.4.2014 | 14:58
Miðnætursnarl
Ég er alltaf svöng og mig langar alltaf í eitthvað gott. Merkilega óþolandi andskoti. Ef ég er ekki að borða þá sit ég og hugsa um hvað ég get mögulega fengið mér að borða.
Á meðan ég sit að snæðingi er ég síðan iðulega að skipuleggja næstu máltíð og passa að borða ekki yfir mig svo ég hafi nú örugglega pláss fyrir hana. Guð jú forði mér frá því að missa úr eina máltíð. Það væri agalegt.
Allavega. Mig langaði samkvæmt venju í eitthvað gott í kringum miðnætti í gærkvöldi. Ég borðaði poka af ostapoppi í kvöldmat þannig að það varð ekki fyrir valinu. Aldrei slíku vant.
Ég náði mér í þetta fallega epli. Tilhugsunin um að bíta í það eintómt gerði ekkert fyrir mig.
Ég fjarlægði miðjuna úr því.
Guð á himnum. Þetta var agalegt. Ég dó úr nautn í fáeinar mínútur.
Ég hafði þau plön um áramót að vera orðin mjó í maí. Þeim plönum hefur hér með verið slegið á frest.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.3.2014 | 08:54
Oreo Jam
Ég er búin að finna leið til þess að borða Oreokex ofan á brauð. Oreosulta!
Oreosulta:
Tæplega hálfur banani
Fimm stykki Oreokex
Kókosmjöl
Glettilega gómsætt get ég sagt ykkur. Líklega ennþá betra ef brauðið hefði verið ristað.
Ég get bara ómögulega átt brauðrist. Ég myndi borða ristað brauð í öll mál. Á milli mála líka.
Ah, ristað brauð með rauðu pestó. Ristað brauð með rifsberjahlaupi. Ristað brauð með berjasultu. Ristað brauð með þreföldu lagi af osti. Ristað brauð með hnetusmjöri, skinku og bananasneiðum. Ristað brauð með bráðnuðu íslensku smjöri og púðursykri.
Ah.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.3.2014 | 21:33
Fimm hlutir á fimmtudegi
Ég var látin vita af því í vikunni að pósturinn minn yrði ekki borinn út til mín lengur. Ástæða þess væri sú að póstkassinn hjá mér tæki hreinlega ekki við meiru. Ah, já - ég kíkti einmitt í hann síðast þann 15.desember síðastliðinn, áður en ég fór austur í jólafrí.
Ein af mínum bestu vinkonum var að koma frá útlöndum og færði mér þessar fínu kóknáttbuxur.
Ég ræddi við ykkur um nýtilkomið kjálkavandamál í síðustu færslu. Ef ég geispa þá smell ég hálfpartinn úr kjálkalið. Mér skilst að þetta geti tengst því að ég er alltaf með fullan munn af tyggjói. Ég fæ mér aldrei bara eitt tyggjó. Ekki tvö, nei. Fjögur eða sex. Það er minn skammtur.
Þið verðið að prófa Burger-inn í Hafnarfirði.
Ég á alveg agalega erfitt með að bíða eftir mat. Bara eiginlega get það ekki. Ég tala nú ekki um þegar ég er það svöng að ég nánast íhuga að éta servíettuna utan af hnífapörunum á meðan ég bíð.
Ef þið farið á Burger-inn þá er boðið upp á súpu og brauð á meðan beðið er eftir matnum. Ó, þegar afgreiðslukonan greindi mér frá þessu fyrirkomulagi. Almáttugur minn. Hún hefur sennilega orðið eilítið skelkuð við að sjá geðsýkislegan hamingjuglampann í augum mínum.
Jæja.
Ég er á Austurlandi í augnablikinu. Ætla að njóta þess í tæpan sólarhring til viðbótar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.3.2014 | 22:50
Hafragrauturinn minn
Ég hef nú bloggað um hafragrautinn minn góða oftar en einu sinni. Sennilega oftar en tvisvar. Ég er óttalegur hafragrautspervert. Gæti borðað hann í öll mál. Stundum get ég varla sofnað á kvöldin af því ég hlakka svo til að borða hafragrautinn minn morguninn eftir.
Allt í lagi. Stundum stend ég hreinlega upp úr rúminu og geri mér hafragraut. Að kvöldi til. Af því ég get ekki beðið.
Guðrúnargrautur (já, ég tók mér það bessaleyfi að skíra hann.).
Byrja á því að ná sér í skál. Sem má fara í örbylgjuofn.
Í hana fer:
1 dl haframjöl
Lítil lúka af hörfræjum
1 dl vatn
1dl mjólk
1/2 banani
1 teskeið kókosolía
Haframjölið og hörfræin fara fyrst í skálina.
Þar á eftir setjið þið vatnið og mjólkina. Bananinn er svo skorinn út í.
Hrærið vel í grautnum þegar hann kemur út úr örbylgjuofninum í seinna skiptið. Hann ætti að vera nokkuð þykkur. Að því búnu náið þið í kókosolíu, smellið teskeið út í og hrærið meðan hún bráðnar saman við.
Við viljum verulega væna skeið af því.
Uppáhalds maturinn minn.
Að eilífu.
Amen.
Heyrumst.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.3.2014 | 22:40
Ég er skotin í
Annars er ég eiginlega mállaus í augnablikinu. Ég er lítið skotin í því ástandi.
Ég var að geispa, tala og snúa höfðinu áðan. Allt um leið. Kjálkinn á mér festist og er bara fastur. Ljómandi alveg hreint. Að opna munninn er svo gott sem ómögulegt.
Þetta er ánægjulegt fyrir þær sakir að ég mun ekki troða í mig heilum poka af ostapoppi í kvöld samkvæmt venju.
Virkilega óánægjulegt vegna þess að ég get ekki sungið með Kim & Kayne laginu sem ég er að dansa við í augnablikinu. Þetta er nú dálítið grípandi lag. Ekki?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.3.2014 | 23:13
Annars flokks
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.3.2014 | 23:33
Scandal
Ah, þegar þau voru í Vermont. Ó, boj. Hann byggði hús handa henni. Vildi eiga börn. Lifa eðlilegu lífi og búa til sultu á sunnudögum. En almættið bara gefur þeim ekki sjéns.
Já. Ég er pínulítið sjúk.
Legg samt til að þið hefjist handa við þessa þætti ekki seinna en núna.
Ég er þó örlítið slegin yfir því að Mr. President (Tony Goldwyn) er sá sem lék morðingjann og vonda karlinn í Ghost. Drap Patrick Swayze með köldu blóði. Ég þarf aðeins að melta þá staðreynd.
Heyrumst.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.3.2014 | 02:09
Himneskt karamelluhúðað Twixpopp
En þetta popp. Þetta popp! Mig skortir lýsingarorð. Karamellan, súkkulaðið, kexið og saltið. Dansar á tungunni eins og ég og Simon Cowell í heitum ástarleik. Kannski er Gordon Ramsay líka með okkur.
Ha? Bubbi líka? Nei. Ókei. Ég er hætt.
Allavega. Fáein innihaldsefni.
Karamelluhúðað Twixpopp:
Einn poki Stjörnupopp
1 bolli smjör
2 bollar púðursykur
1/2 bolli sýróp
1/2 teskeið matarsódi
1 teskeið vanilludropar
3 stykki Twix
Byrjum á því að setja smjör, púðursykur og sýróp saman í pott. Suðan er látin koma upp við vægan hita og hrært stöðugt í á meðan. Leyfum þessu svo að sjóða óáreittu í fjórar mínútur. Tökum af hellunni og bætum matarsóda og vanilludropum út í.
Já. Hér í Breiðholtinu hefur verið eldað við kertaljós í góðar fjórar vikur. Þetta perustæði í eldhúsinu - nei, ég hætti mér hreinlega ekki í það. Það er alveg að koma sumar. Þetta sleppur.
Áður en karamellan er klár er gott að vera búin að dreifa úr poppinu á ofnplötu þakta bökunarpappír.
Skvetta karamellunni yfir poppið.
Hræra vel og vandlega saman.
Hella söxuðu Twixinu saman við.
Halda áfram að hræra. Ó, lyktin sem gýs upp á þessum tímapunkti. Þegar Twixið bráðnar saman við karamelluna. Mig langaði að leggjast með andlitið ofan á plötuna. Dýfa því ofan í poppið. Twixið. Karamelluna. Mmm.
Inn í ísskáp með þetta. Í svona klukkutíma. 45 mínútur ef þið eigið ekki rauðvín til þess að stytta ykkur stundir.
Mögulega besta poppið sem ég hef galdrað fram úr erminni til þessa.
Hérna má finna fleiri ef þið eruð búin að gleyma:
Heyrumst fljótlega.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.3.2014 | 01:30
Moldvarpan.
Ég get verið óttaleg moldvarpa. Stundum fer ég ekki út úr húsi svo dögum skiptir. Væflast bara um með sjálfri mér - læri, skrifa, les og hlusta á tónlist. Stundum átta ég mig ekki einu sinni á þessari hegðun fyrr en ég sit og borða maísbaunir upp úr niðursuðudós í kvöldmat af því ég hef ekki farið út í búð í viku.
Reyndar átta ég mig yfirleitt á svona þriðja degi. Ég fer nefnilega ekki út með ruslið þegar moldvarpan tekur völdin. Já. Ég átta mig þegar ruslið fer að lykta. Sko ekki um allt húsið. Bara svona þegar ég opna skápinn. Þið vitið. Vonandi.
Ég baða mig alveg á meðan ég er moldvarpa. Höldum því til haga.
Þetta er samt dálítið erfitt að komast úr þessum gír. Það sýndi sig í morgun. Svona eftir að ég var búin að finna lykt af ruslinu. Jú og ræða mínar eigin samsæriskenningar um týndu flugvélina vel og lengi við sjálfa mig. Upphátt. Þá ákvað ég að það væri kominn tími til að fara út á meðal fólks.
Já. Ég klæddi mig þrisvar. Greiddi mér jafn oft. Þetta ferli var frá tíu í morgun og þangað til ég lufsaðist út úr húsi klukkan að ganga eitt. Sturluð í skapinu nota bene.
Þegar ég sturlast svona ein með sjálfri mér þá bitnar það aðallega á andlitinu á mér. Ég afmyndast gjörsamlega af einhverri hljóðlausri bræði. Ég gretti mig og geifla. Öskra hljóðlaust. Skyrtan á síðustu myndinni einmitt - nei hún er ekki til lengur. Ég reif hana utan af mér. Í eigin bræði.
Æ, þetta geðsýkiskast átti fullan rétt á sér. Mér fannst ég ljót í öllu og hárið lét eins og dauður þvottabjörn. Síðan fannst mér önnur augnbrúnin á mér líka lægri en hin. Það var bara kornið sem fyllti mælinn.
Eðlilegt kast á allan máta.
Jæja. Ég ætla að skutlast í Hagkaup. Já, klukkan eitt að nóttu. Það er ekki til neitt hnetusmjör. Ég vil ekki þurfa að kljást við annað kast hérna í fyrramálið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.3.2014 | 20:16
Kjarakaup.
Mér er fyrirmunað að skilja að ég hafi ekki vitað að Mjóddin innhéldi bæði Rauða kross búð og nytjamarkað á vegum Hjálpræðishersins. Ég er búin að búa í Breiðholti í hálft ár - ekki fengið neitt veður af þessum gersemum í Mjóddinni.
Sláandi.
Ég var að rigsa um Mjóddina á föstudaginn þegar ég rakst óvænt á þessar búðir. Ó, hamingjan og gleðin.
Trench coat á 1200 krónur.
Allt í lagi. Ég er dálítið eins og spæjari í henni.
Aðeins krumpaður þessi. Ég þarf að smella mér á efri hæðina og fá lánað straujárn hjá leigusalanum. Hann er alltaf nýstraujaður. Lyktandi eins og fiskur í raspi en nýstraujaður.
Voðalega fínn. Kostaði mig heilar 500 krónur.
Rúsínan í pylsuendanum. Þennan rambaði ég á í Kolaportinu í gær. Þúsund krónur. Svo dásamlega fallegur. Mig langar helst að sofa í honum.
Ókei, ég svaf reyndar í honum í nótt. Ég tók gríðarleg tilþrif við speglamyndatökur hérna í gærkvöldi, skartandi kjólnum að sjálfsögðu. Skreið síðan upp í sófa, kveikti á Sex and the City og sofnaði með nefið í snakkskálinni.
Bæði fallegt og aðlaðandi í senn.
Heyrumst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Guðrún Veiga
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (4.9.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar