Föstudags

 

Það er langt síðan við höfum hent í einn áfengan á föstudegi. Þessi er stórfenglegur. Enda rauður á lit. Þið vitið væntanlega hvert helsta innihald hans er.

 

Í þennan þarf:

 

Börk af lime, mandarínu og sítrónu

Frosin brómber

Sprite

Trönuberjasafa

Rauðvín - já, Ó, já.

 

 

Fullt af frosnum brómberjum í glas.

 

 

Nóg af berki saman við. Afar smekklega og pent skorið hjá mér.

 

 

Trönuberjasafi, rauðvín og Sprite í jöfnum hlutföllum. 

 

 

Það er ljómandi gott að henda fáeinum mandarínulaufum ofan í glasið líka. Kreista þau örlítið í leiðinni.

 

 

 

Note to self: Ekki fara í hvítar götóttar gallabuxur þegar lappirnar á þér eru hvítari en helvítis buxurnar. Ekki svo smart. 

 

Eru ekki annars allir á fullu að gerast heimsforeldrar? Síminn er 562-6262.

Áfram gakk. 

 

Heyrumst.



París norðursins

 

Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að sjá þessa mynd í síðustu viku og verð einfaldlega að fá að mæla með henni. Sunnudagar eru jú ferlega góðir bíódagar.

 

Hún er pissfyndin (jú það er orð). Óþægileg. Dramatísk á köflum. Manneskjuleg. Raunveruleg. Sorgleg. Hún hefur allt sem góð bíómynd þarf að hafa en er samt svo stórkostlega einföld. Það eru engir afgerandi atburðir í henni. Ekkert brjálað að ske. En samt situr maður alveg límdur. Við það að pissa í sig eða fara að skæla. 

 

Nú fyrir utan tónlistina. Hvílíkur unaður og algjörlega rúsínan í pysluendanum.

 

Helgi Björns á stórleik. Að öðrum alveg ólöstuðum. Það er ekki bara ást mín á Helga sem talar. Ég elska hann jú næstum eins mikið og Bubba. Hann fer bara á kostum í hlutverki miðaldra fyllibyttu sem er nýfluttur heim eftir misheppnaðan barrekstur á Tælandi. Hann sest upp á son sinn, Huga (Björn Thors), sem er kennari í litlum bæ á Vesturlandi. Hugi er í einhverskonar felum frá lífinu. Yfirgaf saurlifnaðinn í borginni og er orðinn AA-maður vestur á landi. Þeir feðgar eiga ekki beint samleið og koma þess vegna upp alls kyns kómískar aðstæður. Fyrir utan þá staðreynd að í þorpinu virðist bara búa ein kona. Sem veldur ákveðnum vandkvæðum.

 

 

Þetta er mynd þar sem svo auðveldlega er hægt að setja sig í spor sögupersónanna. Það er stundum gaman að vera til. Stundum alveg alls ekki. Þó var eitt sem stuðaði mig. Landsbyggðarhjartað slær auðvitað svo fast í brjósti mér. Í kvikmyndagagnrýni DV segir að það megi velta því fyrir sér hvort umhverfi myndarinnar viðhaldi útjöskuðum staðalímyndum um landsbyggðina. Hvort hún gerir. 

 

Mjög snemma í myndinni hleypur Björn Thors í gegnum þorpið - það fysta sem ég hugsaði var ,,já ókei - myndin á að gerast 1980 og eitthvað". Eldgamlar bíldruslur í öllum stæðum. Varla malbikaðir vegir. Húsin eins og þau hefðu nýlega staðið af sér fellibyl. Svo sé ég glitta í bílnúmer og átta mig á að myndin á bara að gerast í dag. Úti á landi keyrum við að sjálfsögðu öll um á bílum árgerð 1991, málum aldrei húsin okkar og höfum aldrei séð malbik. 

 

Æ. Ég er kannski bara að röfla. Þetta stakk mig örlítið. Eins var þetta líka það fyrsta sem systir mín minntist á þegar við gengum út úr bíóinu.  Merkilegt hvernig ,,úti á landi" verður alltaf eins og einhversstaðar í Síberíu í íslenskum kvikmyndum. 

 

Burtséð frá því. Algjörlega. Myndin er stórskemmtileg og mæli ég innilega með henni. Stórum popppoka líka. 

Og Bingókúlum - þær eru sko bestar í kvikmyndahúsum. Miklu ferskari og mýkri. Já. Ég hef keypt Bingókúlur allsstaðar og veit nákvæmlega hvar þær eru bestar.

 

Heyrumst fljótlega.

 


Hinsta kveðja

Allt í lagi, ekki alveg sú hinsta. En svo gott sem. Ég sit hérna sárþjáð á bæði sál og líkama.

 

Ég var í myndatöku áðan. Sem er ekki í frásögur færandi nema að ég ákvað að klæðast afskaplega fallegum bol sem leyfir eiginlega ekki þann munað að klæðst sé brjóstahaldara innan undir. Bakið á honum er að miklu leyti blúnda og ljótur brjóstahaldara skemmir bara fyrir. Já ég á bara ljóta brjóstahaldara. Önnur saga.

 

 

Gömul mynd af umræddum bol - frá Lísu minni í Level.

 

Jæja. Ég varð að finna einhverja sómasamlega lausn á þessu brjóstahaldaraleysi. Ekki vildi ég bjóða gestum og gangandi upp á háu ljósin í allri sinni dýrð. Myndatakan fór fram utandyra. Það er orðið kalt í lofti. Þið skiljið sneiðina.

 

Mig rámaði í að einhver mannvitsbrekkan hefði nú eitt sinn sagt mér að hún teipaði bara á sér brjóstin. Ekkert mál. Maður límir bara yfir þau. Enginn sér neitt. Kannski dreymdi mig þetta. Ég veit það ekki. 

 

Ég að minnsta kosti sló til. Fann þetta stórfína einangrunarlímband hérna inni í skáp. Þetta silfurlitaða/gráa, þið vitið. Eins og fólk notar til þess að líma upp stuðarann á bílnum sínum og svona. Talsvert sterkara en eitthvað sem notað er á afmælispakka.

 

Þessu kem ég kyrfilega fyrir á bringunni á mér. Dásamleg lausn. Engin há ljós og ég gat klæðst bolnum mínum skammarlaust.

 

Ég mun sennilega geta klæðst honum skammarlaust ævina á enda þar sem ég er eiginlega ekki með geirvörtur lengur. Nei, nei. Ég reif þær af með rótum áðan. Guð á himnum. Að ná þessu af? Því verður eiginlega ekki með orðum lýst. Ég lá hérna emjandi og grenjandi. Öskrandi og æpandi. Með einangrunarlímaband á brjóstunum. Bölvandi sjálfri mér og þessari mannvitsbrekku sem líklegast var ímyndun mín. 

 

Úff og þegar ég brá á það ráð að sækja aceton mér til hjálpar. Ég hefði allt eins getað hellt yfir mig brennisteinssýru og bensíni og andskotans kveikt í mér.

 

Það er góður klukkutími síðan þetta átti sér stað. Ástandið á bringunni á mér virðist versna með hverju skiptinu sem ég lít ofan í hálsmálið hjá mér. Þar má sjá bláan lit. Grænan lit. Blóðsprungnar æðar og fínerí.

 

Ef ég lendi á Læknavaktinni af því ég teipaði brjóstin á mér með einangrunarlímbandi þá er þetta mín hinsta kveðja. Í alvöru.

 

Heyrumst.

 

Kannski.

 


Fimm hlutir á fimmtudegi

 

Úff, brasið á mér þessa dagana. Ég er á sífelldu flandri um bæinn með fullt fang af mat. Hrikalegt vesen sem það getur verið að finna hentugan stað fyrir myndatökur. 

 

Ég lá einmitt hérna í garðinum í gær með svínfeita beikonsamloku á bringunni - var að reyna að ná nærmynd sko. Komu ekki þrír menn aðvífandi til þess að athuga hvort það væri í lagi með mig. "Oh my God we thought you were choking!" Nei, nei strákar mínir - bara að mynda beikonsamlokuna mína. 

 

 

Ljómandi góð kaup sem ég gerði í Hagkaup í síðustu viku. Í barnadeildinni. Þrjú pör af blúndusokkum á innan við þúsundkall. Mamma sagði að vísu að ég væri eins og trúður í þeim. Við mæðgur höfum afar ólíkt fegurðarskyn. Að minnsta kosti þegar kemur að klæðnaði. 

 

 

Það áttu sér stað nánast banvænar eldglæringar hérna í fyrradag. Almáttugur minn. Ég þóttist ætla að útbúa mér eitthvað sem kallast brownie in a mugÞetta er einhverskonar súkkulaðikaka sem búin er til í örbylgjuofni. 

 

Löng saga stutt: Það þurfti að reykræsta íbúðina. Ég þurfti áfallahjálp. Rándýr örbylgjuofn féll í valinn.

 

Nei ég veit ekkert hvað skeði. 

 

 

Sko. Ég tengi hvers kyns stúss í eldhúsinu alltaf við jólin og jólalög. Og þar sem ég er flutt búferlum inn í helvítis eldhúsið þá var ég tilneydd til þess að hefja hlustun á þeim. Einfaldlega tilneydd. Ó, þið ættuð að sjá mig. Steikjandi beikon, poppandi og dansandi við Jingle Bells. 

 

 

Jæja. Þessi líflegi morgunverður bíður mín. 

 

Heyrumst fljótlega.



Instagram

 

Það hentar mér svo afskaplega vel að skrifstofan mín sé staðsett í stofunni heima hjá mér. Þar má ég bæði fikta með eld og drekka rauðvín. 

 

 

Sofandi afkvæmi. Ef vel er að gáð sést glitta í hauskúpuhúðflúr á vinstri upphandlegg. Jú svo sefur hann vopnaður af því ,,það búa menn í Reykjavík sem eru með sokkabuxur á hausnum og stela dóti og fólki" að hans sögn. 

 

 

Ég hef augljóslega lítið verið í stuttermabol í sumar. Kríthvítir handleggir í stíl við appelsínugult andlit. Smart. Virkilega smart.

 

 

Það var á miðnætti í gærkvöldi sem ég áttaði mig á því að það var ekki allt með felldu. Það var laugardagskvöld. Menningarnótt. Ég sat fyrir framan tölvuna með vatnsglas. Ha? 

 

 

Fimm mínútum síðar.

 

 

Ég hef aldrei verið eins slakur bloggari og núna í ágústmánuði. Þetta verkefni á allar mínar vökustundir. Líka þær stundir sem ég ætti að vera sofandi. Þið þurfið að sýna bloggleysi örlitla þolinmæði. Rúmlega tvær vikur þangað til ég skila. Svo sef ég sennilega í tvær vikur þar á eftir. Eða fram yfir áramót. 

 

 

 

Það þarf einnig að sýna matarmyndunum sem ég dúndra inn á Instagram þolinmæði. Engar áhyggjur - þær taka enda á skiladegi þann 10.september. Þá ætla ég aldrei að elda aftur. Aldrei segi ég. 

 

 

Ég varla þekkti sjálfa mig í dag. Standandi með svuntu á miðjum sunnudegi að svissa baunir. 

 

 

Jæja. Áfram gakk. Svínfitandi matreiðslubók fyrir letingja skrifar sig ekki sjálf. Við skulum líka öll leggjast á eitt og biðja þess að Bubbi aldrei svo mikið sem opni þessa bók. Almáttugur minn.

 

Ykkur er velkomið að fylgja mér á Instagram - @gveiga85.


Heyrumst.



Fimm hlutir á fimmtudegi

 

Ó, ég datt inn í Indiska í Kringlunni í dag. Ég kom ekki út með poka. Nei. Ég valsaði út með fullan kassa.

 

 

 

 

Bollablæti mitt er fyrir löngu orðið vandamál. Það er bara svo gaman að drekka úr fallegum bollum. Horfa á þá. Handfjatla. Strjúka. Stilla þeim upp.

 

 

 

Þessi var sendur í tímabundna vistun til ömmu sinnar á Stokkseyri. Það er einfaldlega ekki flóafriður í návist hans og ekki nokkur leið að halda einbeitingu. Ég hef aldrei á ævinni hitt einstakling sem talar svona mikið. Hann andar ekki á milli orða sko. Ef hann er ekki að spyrja mig stanslausra spurninga þá er hann að segja mér frá einhverju mjög misáhugaverðu. 

 

Að vísu var ég víst nákvæmlega eins. Samkvæmt sögum frá móður minni var ég óþreytandi blaðurmaskína. Ég held að kennarar mínir í gegnum tíðina hafi sömu sögu að segja. Jú og samferðamenn mínir nú í dag. Þetta er ekki eiginleiki sem glatast. Ég er viss um að fólkið sem býr fyrir ofan mig heldur að ég sé að stelast til þess að hýsa fimmtán flóttamenn. En nei. Það eru bara ég og afkvæmið að eiga samskipti.  

 

 

Ég hef ýmsar samsæriskenningar hvað varðar Wasabi-hnetur. Ég er viss um að þær innihalda heróín. Eða krakk. Einhver vímugjafi er í þessum pokum. Það er á hreinu. Ég get ekki hætt. Ég maula þær þangað til lekur úr nefinu á mér og rýkur úr eyrunum. 

 

 

Ég var eins og örvæntingafull dagdrykkjumanneskja á flakki um Breiðholtið í dag. Rölti um allt á tauinniskóm, með kokteil í hönd og myndavélina um hálsinn. Ég var að leita að hentugum stað í myndatökur. Ekki mígandi drukkin að leita að heimili mínu. Ég endaði með því að brjótast inn á sólpall. Sem ég hélt að tilheyrði tómu húsi. Hann gerði það svo ekki. 

 

Það var vandræðaleg uppákoma og frekar erfitt að flýja vettvang með fullt fang af kokteilum í inniskóm úr Rúmfatalagernum.

 

Jæja. Nóg í bili.

 

Heyrumst.



Pizza í hollari kantinum

 

Í kvöld bjó ég mér til pizzu í hollari kantinum. Jú, þetta er ég Guðrún Veiga sem talar. Sver það. Suma daga reyni ég að borða hollt. Í alvöru. 

 

Ég borða mjög sjaldan brauðmeti. Ekki af því það er svo vont, ó nei. Ég elska brauð. Ástæðan er aðallega sú að ég er með þarmastarfsemi á við nírætt gamalmenni. Eins smekkalega og það hljómar. Einu sinni var ég ranglega sjúkdómsgreind og má sennilega prísa mig sæla að vera ennþá með þarma yfir höfuð. 

 

Jæja. Nóg um það. Pizzan - ef þið hafið ennþá matarlyst. 

 

 

 

Pizzabotn úr möndlumjöli:

 

1 og 1/2 bolli möndlumjöl

1 egg

1 matskeið ólívuolía

1/2 teskeið salt

1/2 teskeið oregano

1/4 teskeið matarsódi

 

Hrærið saman þangað til blandan verður að deigi. Fletjið deigið þunnt út. Það er ferlega klístrað og ég notaði sleif til þess að smyrja því eiginlega á bökunarpappírinn.

 

Bakið botinn við 200° í fimm mínútur. Takið hann síðan út og plantið á pizzuna því áleggi sem hugurinn girnist. Aftur inn í ofninn þar til osturinn er orðinn gylltur. 

 

Ég setti reykta skinku, papriku, rauðlauk, kirsuberjatómata og camembert á mína pizzu. 

 

 

 

Ein besta pizza sem ég hef smakkað. Svo ég tali nú ekki um að sleppa við uppblásna vömb og hægðartregðu í viku. Djók. 

 

Samt ekki.

 

Heyrumst.



Fimm hlutir á fimmtudegi

 

 

Gíraffinn sem ég ræddi um fyrir ekki svo löngu er loksins fluttur í Breiðholtið. Hann er eftir hæfileikaríku frænku mína hana Drífu Reynis. Sómir sér ferlega vel svona á stofugólfinu. Negla nagla? Ég? 

 

Nei. Ekki án stórslysa.

 

Bíðum þangað til pabbi kemur í bæinn. 

 

 

 

Ég á ekki bara hæfileikaríkt skyldfólk. Ó, nei. Hún Vigga vinkona mín býr til alveg dásamlega falleg hárbönd. Hún föndrar þau í öllum mögulegum litum og útgáfum. Bæði á börn og fullorðna. Hérna má til dæmis sjá eina litla dúkkulísu skarta álíka hárbandi. 

 

Viggu má svo finna hér - ef ykkur þyrstir í eitt stykki band. Nú eða tvö. 

 

Ekki horfa á hárið á mér. Ég bölva móðurættinni og krullunum þaðan að minnsta kosti vikulega. Fokking krullur.

 

 

Matarmanían þessa dagana. Skyndihafragrautur úr Bónus. Með sýrópsbragði. Auðvitað. 

Slumma af hnetusmjöri út í og voilá - veisla. 

 

 

Það fæst svo margt fallegt í Söstrene Grene núna. Ég gekk alveg berseksgang þar í gær. Nei ókei. Ég keypti bara þessa örfáu hluti. En ég hefði vel getað gengið berseksgang samt. Ferjað síðan innkaupin heim með vörubíl. Í fullkomnum heimi. 

 

 

Á morgun ætla ég að skera þennan ananas í bita. Beikonvefja bitana og steikja. Ég er handviss um að það sé kombó sem getur ekki klikkað.

 

Reyndar getur ekkert sem vafið er með beikoni klikkað. Ekki að ræða það. 

 

Heyrumst.



Currently

 

Í augnablikinu er ég að sötra þetta ljómandi fína te. Sem ég keypti bara sökum þess að það stendur marshmallow í bragðlýsingunni. Te með sykurpúðabragði? Selt!

 

 

Í augnablikinu ætti íbúðin mín að ilma eins og nýtýnd græn epli. Slík er ekki raunin. Note to self: ilmkerti á 89 krónur úr Bónus virka ekki. 

 

 

Í augnablikinu á þetta hnetusmjör hug minn og hjarta. Solla? Hver er það? Þetta smjör er mjúkt, blautt og rjómakennt. Dásamlegt út á skyrið, ísinn, með pylsunni eða selleríinu. Mmm. 

 

 

Í augnablikinu er ég afar þakklát fyrir að eiga mömmu sem kemur aldrei tómhent frá útlöndum.

 

 

Í augnablikinu liggur þessi bók við hlið mér í sófanum. Me Before You eftir Jojo Moyes. Ég hef lesið hana áður. Svona sjö sinnum. Ótrúlega hjartnæm og falleg saga um konu sem fellur fyrir lömuðum manni sem þráir ekkert heitar en að deyja. Mæli með henni - já og að minnsta kosti fjórum klútum á meðan lestri stendur. 

 

 

Í augnablikinu sit ég límd yfir þessum þáttum. Banvæn veira herjar á alla heimsbyggðina og McDreamy kemur til bjargar. Í búning. Namm. 

 

 

Í augnablikinu sárvantar mig klippingu. Ég lét hárlengingarnar fjúka í dag. Mig langaði bara svo að klóra mér duglega í höfuðleðrinu. Helst til blóðs. Það er ekki hægt með hárlengingar. Djöfull sem ég er búin að klóra mér í dag. Klóra, klóra og klóra. 

 

Ég er algjör nýgræðingur hvað varðar hárgreiðslustofur á höfuðborgarsvæðinu. Einhver meðmæli?

 

Ég er líka eiginlega búin að bíta það í mig að lita hárið ljóst. Ekki?

 

 

Í augnablikinu er ég að bíða eftir að þessi guðdómlegi Tandoorikjúklingur komi út úr ofninum. Ég át yfir mig af ís í dag. Þess vegna er kvöldverður í Breiðholtinu borinn fram klukkan níu. 

 

Heyrumst.



Lasagne með beikoni og sólþurrkuðum tómötum

 

Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að hér sé um að ræða besta lasagne í heimi. Afkvæmið vill meina það. Við erum svipuð þegar kemur að einhverju matarkyns - vitum svo sannarlega hvað við syngjum. 

 

Þið ættuð að þekkja mína lífsspeki. Það er allt betra með beikoni. Einfalt mál. Ég get borðað beikon með öllu. Mmm, að dýfa stökku beikoni í bráðið dökkt súkkulaði - guðdómlegt! Nú eða beikonsmákökurnar mínar, almáttugur minn. Svo við ræðum ekki einu sinni beikonpönnukökurnar. Hjálpi mér!

 

Jæja, lasagne.

 

Lasagne með beikoni og sólþurrkuðum tómötum:


500 gr hakk

Ca. 200 gr beikon

Lítil krukka af sólþurkkuðum tómötum

1 lítil dós tómatpúrra

1 dós niðursoðnir tómatar

1 dl vatn

Lasagneplötur

1 stór dós kotasæla

Ostur

Svartur pipar

Salt

Oregano

Chillikrydd

Paprikukrydd

Tacokrydd (í rauðu pokunum)

Cayenne pipar

1/2 nautateningur

 

Steikið hakkið á pönnu við vægan hita. Kryddið með salti, pipar, papriku, oregano og tacokryddi (sirka hálfum poka). Setjið örlítið af cayanne pipar og chillikrydd eftir smekk. Saxið beikonið og steikið létt á annarri pönnu. Blandið því svo saman við hakkið þegar það hefur tekið lit. Látið beikonfituna gossa af pönnunni líka. Mmm.

 

Sigtið olíuna af sólþurrkuðu tómötunum og saxið þá smátt. Það er líka hægt að kaupa þá saxaða - mun hentugra. Bætið þeim við hakkið og beikonið. Hellið niðursoðnu tómötunum og tómatpúrrunni á pönnuna. Setjið desilíter af vatni saman við og hálfan tening af nautakrafti. Leyfið þessu að malla í góða stund. 

 

Ég treysti á að þið kunnið framhaldið. Hakkblanda, lasagneplötur, kotasæla. Endurtaka. Ostur yfir. Inn í ofn á 180° í sirka 30 mínútur. 

 

 

 

 

 

Setjum hakkblönduna í botninn á eldföstu móti. Lasagneplötur þar ofan á.

 

 

Smyrjum vænum skammti af kotasælu ofan á hvert lag af plötunum.

 

 

Já, ég er ein af þeim sem finnst algjör óþarfi að splæsa í poka af rifnum osti fyrir svona framkvæmdir. Hagsýnin sko. 

 

Hér má strá aðeins af oregano yfir ostinn. 

 

 

 

Virkilega gott. 

 

Heyrumst.



« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Guðrún Veiga

Höfundur

Guðrún Veiga Guðmundsdóttir
Guðrún Veiga Guðmundsdóttir

Ég heiti Guðrún Veiga. Ég er mamma, mannfræðingur, matarperri, múltítasker, nautnaseggur, naglalakkari og rauðvínssvelgur.

Þú finnur bloggið mitt hérna: gveiga85.blogspot.com

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_7559
  • IMG_7558
  • IMG_7537
  • IMG_7532
  • IMG_7515

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband