Fimm hlutir á fimmtudegi

 

Ó, sjáið þið hvítu tindana? Lítum bara fram hjá þessu bölvaða græna grasi. Það eru svo gott sem komin jól.  

Ég hugsa að ég hendi upp einni seríu um helgina. Eða fimm. 

 

Ég er búin að sitja á höndunum á mér síðan í ágúst. Get ekki meir. 

Það eru að koma jól í Ikea. Það eru að koma jól hjá mér. 

 

 

Ég eyddi óþarflega löngum tíma í að læra þetta í gærkvöldi. Að brjóta skyrtu úr þúsundkalli. Í augnablikinu er ég að æfa mig í að gera skyrtu með bindi og kjóla. Jájá. Ég fór sérstaklega í hraðbanka í dag til þess að ná mér í seðla. Stefnir í eitt undarlegt áhugamál. 

 

Hérna er kennslumyndbandið sem ég notaði. 

 

 

 

Ég hoppaði hæð mína þegar ég rakst á þetta í Krónunni í dag. Hvítt Twix. Já, sælir eru einfaldir. Einfaldir sykurfíklar. Eins og að bíta í himnaríki. Eða Simon Cowell. Mmm.

 

 

 

Ég bjó í fyrsta skipti til guacamole áðan. Það var svo gott að mig langaði að smyrja því á mig og þvo mér svo eins og köttur. Algjört hnossgæti. 

 

Ég notaði þessa uppskrift. 

 

 

Einhversstaðar las ég að það ætti að geyma steininn úr avacadoinu í maukinu. Þá verður það síður brúnt og ljótt. Trix sem svínvirkar. 

 

 

 

Stundum mála ég mig með glimmeri. Stundum tek ég sjálfsmyndir og set á helstu samfélagsmiðla.

Án þess að skammast mín. 

 

Ég hef fengið nokkrar fyrirspurninir um hvurslags glimmer ég nota í þessar gjörðir. 

 

 

Ég nota nú bara smágert föndurglimmer. Yfirleitt nota ég vax til þess að halda því á augnlokinu. Mér finnst það virka best. Vax eins og maður setur í hárið á sér já. Hárvax og föndurglimmer - búmm, ég er klár í slaginn.

 

Það virkar líka ágætlega að nota blauta augnskugga undir glimmerið. Hárgel hef ég líka notast við. Aloe Vera gel á einhverjum tímapunkti. Kona reddar sér.

 

Jæja, gucamole-ið er farið að garga á mig úr ísskápnum. Já ókei, rauðvínið líka.

 

Heyrumst.



Með kanilkexi og hvítu súkkulaði

 

Ég fylgist ekki með fótbolta og horfði ekki á landsleikinn. Ég eyði mínum frítíma í að bardúsa með popp. 

 

Þetta popp er hreint út sagt stórfenglegt. Svipað og að skora tvö mörk í fyrri hálfleik. Ókei. Ég horfði með öðru auganu. Karlmenn á stuttbuxum og svona. Lærvöðvar. Mmm.

 

 

 

Í þessar aðgerðir þarf eftirfarandi hráefni:

 

1/2 poki Stjörnupopp

100 grömm hvítt súkkulaði

8 stykki LU kanilkexkökur

 

 

 

Brjótið kexið í hæfilega litla bita.

 

 

Bræðið súkkulaðið og slettið því yfir poppið. Fram og til baka. Vel og vandlega. 

 

 

Kexinu smellt út í. 

 

 

Hræra duglega saman. Sleikja skeiðina. 

 

Hendið þessu inn í ísskáp í góðan hálftíma.

 

 

 

 

Stökkt kanilkexið. Saltað poppið. Sætt súkkulaðið. Namm. Fullt hús stiga.

 

Heyrumst.



Helgin

 

Ekki lagði ég af þessa helgina. Frekar en aðrar helgar. Eða alla aðra daga. Eitthvað talaði ég um hérna í byrjun október að vera með í meistaramánuði. Já það var lygi. Helber lygi. 

 

Ég gróf upp þetta forláta kleinuhringjajárn í gær. Mamma mín átti það. Eða á það. Ég get ómögulega munað hvort hún gaf mér það eða hvort ég einfaldlega stal því. Það er að minnsta kosti ekki vinsælt innan fjölskyldunnar að lána mér nokkurn skapaðan hlut. Ég skila víst aldrei neinu. En það er önnur saga.

 

 

 

Ég var í glassúrvímu langt fram yfir miðnætti í gærkvöldi. Að vísu átti ég að vera að segja vel valda brandara á konukvöldi hérna fyrir austan. En það fór lítið fyrir þeim verknaði. Bölvaðir gallsteinarnir eru búnir að vera að murka úr mér lífið undanfarið. 

 

Helvítis gallsteinar. Ég er búin að burðast með þá í sjö ár. Fresta aðgerðinni svona 154 sinnum. Eins viskulegt og það nú er. Yfirleitt eru þeir til friðs en það er svona tvisvar á ári sem ég ligg grenjandi á gólfinu og bið Guð að taka mig.

 

 

Nóg um gallsteina. Meira um mat.

 

Ég fór í brunch á Hótel Héraði á Egilsstöðum í dag. 

 

 

 

 

Þetta voru ein stórkostleg ástaratlot. 

 

Örlítið sársaukafull þó. Ég þarf virkilega að læra að þekkja magamál mitt betur. 

 

 

 

30 mínútum eftir brunch: sunnudagspönnukökur hjá mömmu. 

 

Úff.

 

Jæja. Ég ætla að fara að horfa á The SecretSjá hvort mér tekst ekki að losa mig við gallsteinana með hugarorkunni í kjölfarið. 

 

Heyrumst.



Fimm hlutir á fimmtudegi

 

Þið sem fylgið mér á Instagram hafið nú séð þennan oftar en einu sinni. Þetta er hann Nói minn Síríus. Ég er með krónískt ofnæmi fyrir öllum dýrum (andlegt ekki líkamlegt). Nema þessum litla loðbolta sem sigrað hefur hjarta mitt. Mögulega af því að ég sé ekki um að þrífa upp hægðirnar hans.

 

Í morgun lá hann á bringunni á mér í klukkutíma á meðan ég söng fyrir hann kristileg sumarbúðarlög. Það eru einu lögin sem ég kann. Fyrir utan klámfengna rapptexta með Lil´Kim.

 

 

 

 

Þetta fann ég í Nettó í gær. Nutella í tungustærð. Tveir sleikar - búmm, konan fullnægð. Súkkulaðilega séð. 

 

 

 

Ég fékk svo ótrúlega fallega og óvænta gjöf um daginn. Hárbandakvendið sem ég er. Þetta band er unnið úr gömlu karlmannsbindi. Ég er yfir mig hrifin af því og hefði undir eðlilegum kringumstæðum skellt í eina góða speglamynd. En nei. Ekki núna.

 

Ég lít út eins og það hafi verið keyrt yfir mig. Sirka ellefu sinnum. Fram og til baka. Bólan á hökunni á mér er á stærð við barnið mitt. Nefið á mér er líka í undarlegum hlutföllum í dag. 

 

En bandið - það er hin merkilega fjölhæfa María Krista sem bjó það til. Ég mæli með ferð hingað inn.

 

 

Ég sá einhverja þokkadís með fulla körfu af þessu í Hagkaupum um daginn. Þess vegna keypti ég þetta. Fullviss um að ég yrði sex on legs þegar ég væri búin að kreista þetta upp í mig. Nei. Neinei. En þetta er sniðugt. Gott á bragðið og stútfullt af vítamínum. 

 

 

 

Dásamlega bleik lýsing í kringum Andapollinn á Reyðarfirði. 

 

Jæja. Mín bíður ljúf stund með Fréttatímanum. Ég sé ekki betur en að Bubbi sé á forsíðunni. Það er mál sem ég þarf að skoða betur. Talsvert betur.

 

Heyrumst.



Súpa á sunnudegi

 

Ég eldaði alveg stórkostlega súpu á þessu annars gráa sunnudagskvöldi. Mig langar að skrifa að ég sé agaleg súpukona. En ég fæ útbrot þegar ég kalla mig konu. Súpustelpa - nei það virkar ekki. 

Ég er mikill súpuaðdáandi - segjum það bara. 

 

Ég tók fáar og lélegar myndir þar sem súpan var ekki ætluð sem bloggefni. Ó, svo smakkaði ég. Himnesk alveg hreint og myndavélin rifin upp í snarhasti.

 

Kókos & karrýnúðlusúpa


4 hvítlauksgeirar

2 matskeiðar smátt saxað engifer

2 matskeiðar rautt karrýmauk

2 matskeiðar kókosolía

1 dós kókosmjólk

2 kjúklingateningar

1 líter af vatni

 

1 lítill rauðlaukur

1 gul paprika

1 rautt chilli

2 sellerístilkar

 

2 pakkar skyndinúðlur

salt og pipar

 

Saxið hvítlaukinn og engiferið smátt. Blandið því vel saman við karrýmaukið og kókosolíuna. Það er sennilega best að nota töfrasprota en ég nennti ómögulega að skíta hann út.

 

Leysið kjúklingateningana upp í vatninu. Hellið olíu í pott og steikið karrýblönduna við vægan hita í 1-2 mínútur. Hellið kjúklingasoðinu út í og kókosmjólkinni þar á eftir. Látið suðuna koma upp og smakkið til með salti og pipar. 

 

Smellið grænmetinu í pottinn og leyfið því að malla dálitla stund. Núðlunum skellt út í og þær látar sjóða í 2-3 mínútur. 

 

Voilá - unaðslega góð og fljótleg súpa.

 

 

 

 

 

 

Kannski ekki fögur yfirlitum en hún var góð. Sver það. Það hefði nú verið lekker að skreyta hana með ferskum kryddjurtum. En nei. Ég tímdi ekki að kaupa þær. 

 

Heyrumst.



Fyrsti í meistara

 

Sko. Ég ætla að vera með í meistaramánuði. Gera heiðarlega tilraun til þess allavega. Án þess að steindeyja. 

 

Ég mun bara ekki að byrja fyrr en á morgun. Neibb. Ég þoli ekki oddatölur og get þess vegna ekki hafist handa við meistaramánuð 1.október. Ég er með króníska þráhyggju hvað varðar sléttar tölur. Ég hef skrifað um þessa maníu áður. Ef ég hækka eða lækka í sjónvarpi verður það að enda á sléttri tölu. Sama saga með útvarpið. Ég borða líka í sléttum tölum. Ef það er til dæmis ein bingókúla eftir í pokanum þá hendi ég henni frekar en að setja hana upp í mig.


Nóg um það.


Mál málanna. Oreounaður dagsins.


 

3 bollar Rice Krispies

10 stykki Oreo

2 og 1/2 bolli sykurpúðar

1 og 1/2 matskeið smjör

Hvítt súkkulaði til skrauts

 

 

 

Setjið Oreokexið í poka og lúskrið aðeins á því með kökukefli. Nú eða bara hnetusmjörskrukku.

 

 

Rice Krispies fer í skál og Oreoið hrært út í.

 

 

Bræðið smjör og sykurpúða saman við vægan hita þar til blandan verður silkimjúk.

 

 

Hellið sykurpúðamixtúrunni í skálina og hrærið öllu vel og vandlega saman. Smyrjið lítið eldfast mót og látið innihald skálarinnar flakka ofan í það.

 

 

Sléttið og gerið snyrtilegt.

 

Bræðið dálítið hvítt súkkulaði og slengið yfir. Inn í ísskáp með þetta í 30 mínútur.

 

 

 

 

Amma mín segir að það eigi aldrei að nota orðið ógeðslega þegar talað er um mat. Ég ætla að gera undantekningu í þetta skiptið.

 

Þetta er ógeðslega gott. 

 

Ykkur er velkomið að fylgjast með mér og mínum meistaramánuði á Instagram - @gveiga85.


Heyrumst.



Morgunstund

 

Jah, þetta var nú eiginlega meira hádegisstund. Ég ætlaði á fætur klukkan sjö enda að drukkna í lærdómi og öðrum ófögnuði. En nei. Ég snúsaði frá sjö til tólf. Ég vaknaði á sjö mínútna fresti í fimm klukkutíma en tókst samt ekki að hafa rassgatið á mér fram úr rúminu. Það er að vísu í þyngri kantinum þessa dagana. Ég reiknaði það einmitt út í gær að síðustu fjóra mánuði er ég búin að borga 24 þúsund krónur fyrir einn spinningtíma. 

 

Jájá. Ég borga 6 þúsund krónur á mánuði fyrir líkamsræktarkort. Mæti ég í líkamsrækt? Nei. 

 

Eruð þið að velta því fyrir ykkur hvað er ofan í skyrdósinni? Ó, ég skal sýna ykkur.

 

 

Nælum okkur í eina dós af svona skyri. Bökuð epli. Mmm. Bill Spencer. Mmm. Já ég er að horfa á Glæstar með öðru auganu á meðan ég skrifa. 

 

 

Setjum sirka lúku af chiafræjum í lítið glas og svipað magn af vatni út í svo þau verði að hlaupi. 

 

 

Hendum fræjunum út í skyrið og hrærum vel saman.

 

 

Hnetusmjör. Alltaf hnetusmjör.

 

 

Tvær vænar skeiðar af því. Eða þrjár. Eða fjórar.

 

 

Algjört hnossgæti. Ég lofa!

 

 

Jæja. Áfram með smjörið. Lærdómurinn bíður. Alveg yfirdrifið nóg af honum.

 

Ég er ekki alltaf skarpasti hnífurinn í skúffunni. Því miður. Síðustu tvö ár hef ég stundað það að fresta þeim námskeiðum sem mér finnst hljóma leiðinlega. 

 

,,Æ, ég tek þetta á næsta misseri bara."

,,Oj, er svona löng ritgerð í staðinn fyrir próf - ugh, ég tek þetta næst bara."

,,Úff, 100% lokapróf - ég tækla þetta seinna."

,,Ritgerð úr lesefninu einu sinni í viku? Seinna, ég tek þetta seinna."


Ah, mannvitsbrekkan sem ég er. Síðasta misserið mitt (krossum fingur) og öll leiðinlegu námskeiðin eru á borðinu hjá mér núna. Öll í einu. Well played. Fullt af ritgerðum, lokaprófum og lestri. Jú og ein helvítis meistararitgerð er á þessu borði mínu líka. Ókláruð. 

 

Úff. 

 

Heyrumst.



Topp fimm

Við erum ekki að fara að ræða um menn eða maskara á þessum lista. Ó, nei. 

 

Ég hef nú þegar sett saman tvo lista yfir menn sem rífa allar óviðeigandi hugsanir út á dansgólfið. Sjá hér og hér. Maskarar, já nei. Ég kann ekki einu sinni nöfn á fimm slíkum.

 

En sælgæti - ó, þar er ég á heimavelli.

 

Hér tölum við fyrir utan Bingókúlur og Reese´s Peanut Butter Cups. Það er eiginlega ekki nammi - meira svona eitthvað sem er alltaf til inni í skáp. Nei, ég segi nei. Ekki talið sem sælgæti. Bara hluti af daglegri fæðuinntöku.

 

 

Milka Oreo og Milka Caramel. Guð minn góður - þegar Milka Oreo lenti á Íslandi, svipuð tilfinning og að eiga barn. Sko eftir að barnið er komið í heiminn. Dálítið löngu eftir. Og maður er ennþá í örlítilli glaðloftsvímu. Hrein og tær hamingja. Mmm.

 

 

Súkkulaði og salt - blanda sem ég hef rætt svo margoft við ykkur. Hérna er karamella komin í sömu sæng. Þetta þarf ekki að ræða neitt frekar. 

 

 

Þetta er eiginlega búið að vera uppáhalds súkkulaðið mitt síðan ég man eftir mér. Föðursystir mín var að passa mig fyrir langa löngu og gaf mér svona stykki. Að öllum líkindum til þess að þagga niður í mér. Ég var mjög óþægilegur krakki og hugsaði aldrei áður en ég talaði. Í dag hugsa ég alltaf áður en ég tala. Alltaf.

 

 

Ég. Elska. Rommý. Ah, að finna það bráðna á tungunni og svo tekur fyllingin völdin. Algjör sæla. Minnir mig á langömmu mína sem átti alltaf til nóg af kóki í gleri og fullan skáp af Rommý.

 

 

Ég er búin að borða mjög ótæpilega af þessum sleikjóum yfir ævina. Kannski sælgæti almennt ef út í það er farið. Mér finnst þessir dökkbrúnu að vísu ekki góðir. Ég ét þá samt sko. Svipað og með Makkintoss, á endanum ét ég vondu molana. Svona þegar ég rekst á dunkinn inni í geymslu í mars eða apríl - fullan af appelsínugulum og rauðum molum. Sem eru jú ógeð en samt hugsa ég ,,neeehh, ég fer nú ekki að henda þessu."


Treð þeim svo í andlitið á mér án þess að blygðast mín. 


Hvað er uppáhalds nammið ykkar? 

 

Do tell.

 

Heyrumst.



Að blogga

Ég fæ ótrúlega oft tölvupósta og skilaboð þar sem ég er spurð hvernig eigi að blogga. Tjah, svona inn á milli skilaboðanna frá stórundarlegum einstaklingum sem vilja hjúkra mér og bera á mig krem - well done Guðrún Veiga að viðra þetta á internetinu.

 

Jæja. Engu að síður - ég er oft beðin um einhverskonar bloggráðleggingar. Hvað þarf til þess að halda úti bloggi og fá fólk til þess að lesa það? 

 

Nú er ég mögulega að fara að tala út um rassgatið á mér. Ég geri það stundum. Þetta eru alfarið mínar persónulegu skoðanir. Hvernig ég upplifi það að blogga og hvernig best er að fara að því. Aðrir bloggarar gætu vel séð þetta í allt öðru ljósi. 

 

 

Að vera einlægur og persónulegur - við eigum bæði góða og slæma daga. Við erum öll mannleg. Höfum okkar kosti og galla. Ef við ætlum að viðra líf okkar á internetinu finnst mér mikilvægt að vera manneskjulegur. Koma til dyranna eins og maður er klæddur hverju sinni. Ekki bara mála sig inn í einhverja glansmynd - hún verður frekar einsleit og leiðinleg til lengdar. 

 

Það sem ég á við er að lífið er jú upp og niður - ég sem manneskja vil frekar lesa um allskonar daga hjá fólki heldur en endalaust bölvað kjaftæði um hvað lífið sé dásamlegt. Afsakið orðbragðið. Stundum er það dásamlegt. Stundum er það eins og að liggja allsber í holræsi. Með rottur að narta í sig. 

 

En auðvitað kæra sumir sig ekkert um að tala á persónulegu nótunum og það er vel skiljanlegt. Auðvitað ræður hver og einn hversu persónulegur hann vill vera á blogginu sínu.

 

Þetta veltur eiginlega allt saman á því hvaða sviði er bloggað á. 

 

Ég laðast að minnsta kosti frekar að bloggum þar sem bloggarinn hleypir mér örlítið inn. 

Ég les allskonar blogg - tískublogg, förðunarblogg og matarblogg. Allt eru þetta blogg sem vel geta borið sig án þess að það þurfi að gerast persónulegur. Mér finnst það samt alltaf skemmtilegra. Heimilislegra eiginlega. Mig langar að vita hvaða manneskja er á bak við kökuna, farðann eða fötin. 

 

Úff, ég tala alltaf svo mikið. Boðskapurinn: ekki vera feik. 

 

Myndir - þegar ég villist inn á blogg eru myndirnar það fyrsta sem grípur auga mitt. Þær þurfa ekkert að vera stórkostlegar þó mér finnist flestir bloggarar ansi metnaðarfullir þegar kemur að myndatöku. Ég vil bara minn texta með dálítið af myndum. Í fullri hreinskilni þá eru lélegar símamyndir í mörgum tilfellum fráhrindandi. Ég er ekki að segja að það þurfi að eiga 100 þúsund króna myndavél, þvert á móti. Það má taka góðar myndir á flesta síma og allskonar myndavélar. 

 

 

 

Hafa húmor fyrir sjálfum sér - æ, það þýðir ekkert að taka sjálfan sig of alvarlega. Hvorki á blogginu né annarsstaðar.

 

Gæði umfram magn - það er enginn tilgangur í að drita inn á bloggið bara einhverju bara til þess að blogga. Eins og það sé einhver skylda. Stundum er hægt að framleiða fínar færslur marga daga í röð. Aðra daga er maður með hugmyndarflug á við ljósastaur. Ekkert að ske. Og það er alveg allt í lagi. 

 

Málfar og stafsetning - ó, boj. Ég er sennilega á leiðinni út á hálan ís. Ég ætla samt að segja það. Lélegt málfar og stafsetningarvillur eru fráhrindandi. Munið - við erum að skoða þetta frá mínum bæjardyrum. Svona hlutir stinga mig í augun. Kannski ekki alla. En mig.

 

Jújú, við getum öll gert allskonar villur. Sjálf er ég þágufallssjúkari en góðu hófi gegnir. En það er um að gera að vanda sig

 

Orðaforði - okkur hættir til að ofnota sum orð. Ég reyni að forðast það eins og ég get en fæ nú samt stundum hroll þegar ég les yfir gamlar færslur og sé orðið bara 412 sinnum í einni klausu. 

 

Að bæta orðaforðann er líka eitt af mínum sérlega undarlegu áhugamálum. Það geri ég til dæmis með því að lesa minningargreinar upp til agna. Þær eru stútfullar af allskonar orðum. Alveg hreint merkilegt fyrirbæri. 

 

Þolinmæði - það eignast enginn lesendahóp á einni nóttu. Í fyrstu eru það bara amma manns og mamma sem lesa. Á þessum tíma sem ég hef bloggað hef ég séð ótal blogg verða til og steindeyja stuttu síðar. Þessi iðja getur verið virkilega tímafrek. Erfið. Stressandi. Hundleiðinleg á köflum - prófið að taka myndir í kjallaraíbúð sem er gjörsneydd allri birtu. Andskotinn sko. 

 

Já - löng saga stutt: vera hreinskilinn, trúr og samkvæmur sjálfum sér. Skrifa um það sem maður hefur áhuga á og gera það vel. Vanda sig í einu og öllu. Muna að Róm var ekki byggð á einni nóttu - eða hvernig sem það orðtak hljómaði nú. 

 

Að byrja að blogga er besta ákvörðun sem ég hef tekið. Ef þig kitlar í puttana er ekki eftir neinu að bíða. 

 

Áfram gakk.

 

Heyrumst.



Myndataka


Þegar ég fæ flugur í hausinn, ó þegar ég fæ flugur - hamingjan hjálpi mér. Ég verð bara ekki róleg fyrr en ég næ að hrinda hverju því sem mér dettur í hug í framkvæmd. Stundum kostur. Stundum galli. 

 

Þessi fluga krafðist nú örlítillar fyrirhafnar. Ég vildi jú vera hálfnakin í baðkari. Fullu af poppi. Úti í guðsgrænni náttúrunni. 

 

 

 

Ég er að ljúga þegar ég segi að ég hafi viljað vera hálfnakin. Ég vildi það ekki neitt. Þarna er verið að reyna að sannfæra mig um að fækka fötum.

 

 

Krafðist umhugsunar sko. Ég er svo miklu meiri tepra en ég spila mig. Vinkonur mínar ræða til dæmis aldrei við mig um nein málefni neðan beltis. Hausinn á mér fer bara að snúast í hringi og æla spýjast út um allt. Svona eins og í Exorcist, þið vitið. 

 

 

Meira brasið sem þetta var. Baðkarið var alltof stórt og þrátt fyrir að hafa keypt hvert einasta poppkorn í bænum þá dugði það skammt. Við þurftum þess vegna feika hlutina örlítið. Fylla karið af rusli og spila af fingrum fram. 

 

Myndirnar eru - tjah, misgóðar. Það voru teknar yfir þúsund myndir. Tæplega fjórtán eru nothæfar. Ekki skorti ljósmyndarana hæfileika, ó nei. Ég verð bara alltaf eins og helvítis hobbiti um leið og ég heyri smell í myndavél. Merkilega óþolandi.

 

 

Tölfræðin væri þveröfug hefði ég fengið að taka allar myndirnar svona. 

 

Stórskemmtileg lífsreynsla. Svona þrátt fyrir að ég sé ennþá tilfinningalaus fyrir neðan háls sökum ofkælingar. Jú og finnandi popp á stöðum þar sem enginn ætti að finna popp. Nokkurn tímann. 

 

Hlakka til að sýna ykkur meira. Seinna. Á allt öðrum stað. 

 

Heyrumst.



« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Guðrún Veiga

Höfundur

Guðrún Veiga Guðmundsdóttir
Guðrún Veiga Guðmundsdóttir

Ég heiti Guðrún Veiga. Ég er mamma, mannfræðingur, matarperri, múltítasker, nautnaseggur, naglalakkari og rauðvínssvelgur.

Þú finnur bloggið mitt hérna: gveiga85.blogspot.com

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_7559
  • IMG_7558
  • IMG_7537
  • IMG_7532
  • IMG_7515

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband